Sprengja fannst í Þorlákshöfn

Föstudagur 13. september 2002.

 

Í vikunni fann Davíð Davíðsson torkennilegan hlut grafinn í sand er hann var að vinna á golfvellinum í Þorlákshöfn.  Hann grunaði strax að hluturinn gæti verið hættulegur.

 

Davíð hafði samband við Landhelgisgæsluna og komu sprengjusérfræðingar þaðan og staðfestu að hér væri um að ræða sprengju sem notuð var í seinni heimstyrjöldinni til að merkja staðsetningu kafbáta.  Sprengjan inniheldur kemíska blöndu sem hefur þá eiginleika að gefa frá sér ljós og reyk þegar hún springur.  Hún er 50 cm. að lengd og 11 cm. í þvermál. 

 

Sprengjum sem þessum var varpað úr flugvélum og þegar þær lentu á hafinu gáfu þær frá sér hvítan reyk og gulan loga í u.þ.b. sex mínútur.  Þær voru notaðar í margskonar tilgangi en þó venjulega til þess að merkja staðsetningu kafbáta til að undirbúa sprengjuárás annarrar flugvélar. Efni sem notuð eru í slíkar sprengjur geta kviknað sjálfkrafa undir vissum kringumstæðum og gefa frá sér eitrað fosfórgas þegar þær brenna. 

 

Sjá meðfylgjandi mynd af af sprengjunni.  Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fjarlægðu hana og eyddu henni.

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Landhelgisgæslu Íslands