Bakpoki í strætisvagnaskýli reyndist ekki innihalda sprengju

Mánudagur 9. september 2002.

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru kallaðir út um tvöleytið í dag vegna grunsamlegs bakpoka sem skilinn hafði verið eftir í strætisvagnaskýli á varnarsvæðinu í Keflavík.

Þrír sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fóru á staðinn en herlögreglan sá um að loka svæðinu í a.m.k. 200 metra radíus frá strætisvagnaskýlinu og þurfti að rýma nærstödd hús.

Bakpokinn var skotinn í sundur af vélmenni í eigu Landhelgisgæslunnar og kom þá í ljós að engin sprengja var í honum. Svæðið hefur verið opnað á ný.

Nú fer senn að líða að 11. september og eru mjög strangar öryggiskröfur viðhafðar á varnarsvæðinu.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands