Sjúkraflug með slasaðan skipverja af seglskútu

Föstudagur 6. september 2002.

Björgunarstjórnstöðin í Clyde á Skotlandi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 19:40 í gærkvöldi vegna sendingar frá neyðarbauju 240 sjómíliur S-A af Vestmannaeyjum. Einnig hafði farþegaflugvél Flugleiða numið neyðarsendinguna á leið sinni til Írlands.  Kl. 20:26 tilkynnti björgunarmiðstöðin í Clyde að þaðan yrði send Nimrod leitarflugvél til að kanna málið. 

Áhöfn leitarflugvélarinnar kom auga á skútuna ,,ORBIT 2" á þeim stað sem neyðarsendingarnar höfðu borist frá kl. 22:54 og þaðan sást skotið rauðu neyðarblysi.  Er flugvélin náði sambandi við skútuna kom í ljós að um borð var slasaður skipverji en mastur skútunnar hafði brotnað og fallið á hann. Hann var fótbrotinn og grunur um innvortis meiðsl.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar óskaði eftir því við Varnarliðið að það sendi þyrlu eftir hinum slasaða en það var talið heppilegast þar sem eldsneytisflugvél fyrir þyrlur er nú stödd á Keflavíkurflugvelli og líkur voru á að Landhelgisgæslan þyrfti að sinna öðru neyðarkalli.  Á þessum tíma bárust óvenjulega mörg neyðarköll norður af landinu en þau reyndust vera fölsk.  Líkur benda til að þau hafi borist frá herskipum og flugvélum sem eru á æfingum þar.

Varnarliðið sendi tvær þyrlur og eina eldsneytisflugvél til að sækja skipverja ORBIT 2.  Um borð í henni reyndust vera tveir menn, slasaði skipverjinn sem er breskur og skipstjórinn sem er kanadískur en hann var með lítils háttar ofkælingu.  Þar sem skútan var löskuð voru báðir mennirnir hífðir um borð í þyrlu Varnarliðsins. Svo heppilega vildi til að norski togarinn KORALLE var á svæðinu og tók hann skútuna í tog á meðan á björgunaraðgerðum stóð.  Eftir því sem best er vitað er skútan nú á reki mannlaus.

Héldu þyrlurnar og eldsneytisflugvélin með skipverjana frá skútunni um kl. 8:20 í morgun og eru væntanlegar á Landspítala Háskólasjúkrahús kl. 10:20.

Sjá meðfylgjandi mynd af seglskútunni ORBIT 2 sem tekin var frá varðskipinu TÝ í maí á þessu ári.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands