Flugvélin reyndist vera norsk af gerðinni Northrop

Fimmtudagur 29. ágúst 2002.

Komið hefur í ljós að herflugvélin sem sjómælingamenn Landhelgisgæslunnar fundu í fyrradag á hafsbotni í Skerjafirði er norsk og af gerðinni Northrop. 

Kafarar, sjómælingamenn og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fóru eftir hádegið í gær að flakinu á sjómælingabátnum BALDRI og voru í alls sjö tíma að rannsaka það.  Strax kom í ljós að vélin er eins hreyfils og búin vélbyssum. Einnig sást móta fyrir norska fánanum á flakinu.  Er rannsókn lauk á níunda tímanum í gær var talið öruggt að hér væri um norska herflugvél að ræða af gerðinni Northrop en mælingar á vænghafi og hlutföllum flugvélarinnar að öðru leyti renndu stoðum undir þá ályktun.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands