Sjómælingamenn fundu flugvélarflak á hafsbotni í Skerjafirði

Miðvikudagur 28. ágúst 2002.

Starfsmenn Sjómælinga Íslands, sem er deild innan Landhelgisgæslunnar, hafa undanfarnar vikur notað fjölgeislamæli við mælingar á hafsbotni en bandaríski sjóherinn lánaði stofnuninni mælinn til notkunar í sumar. Mælt hefur verið á grunnsævi frá Kjalarnesi og suður fyrir Gróttu og nú er verið að mæla hafsbotn í Skerjafirði. Í gær fundu sjómælingamenn Landhelgisgæslunnar flugvélarflak á hafsbotninum þar. Fundur þessi er til marks um það hversu öflugt tækið er og nýtist vel bæði við rannsóknarstörf og við leit á botninum. Ekki er vitað hvaða flugvélarflak er um að ræða en með fundinum í gær gefst möguleiki á að kanna það betur.

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingafulltrúi