Tilkynnti sig út undir röngu bátsnafni og númeri

Þriðjudagur 13. ágúst 2002

Um kl. 14:57 hafði Tilkynningarskyldan samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar en starfsmenn þar höfðu áhyggjur af afdrifum tveggja tonna plastbáts þar sem hann hafði dottið út úr sjálfvirka tilkynningarkerfinu og svaraði ekki kalli frá Reykjavíkurradíói. 

TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, var send af stað til leitar og fann bátinn uppi í fjöru í Hvalseyjum út af Mýrum í Borgarfirði um kl. 16:21.  Stýrimaður þyrlunnar seig niður að bátnum og var hann mannlaus og leit ekki út fyrir að hafa verið hreyfður í dag.  Vitað var að eigandi bátsins á annan bát nokkuð stærri en sá bátur var ekki sjáanlegur í eyjunni.  Var þá haldið til leitar að hinum bátnum sem fannst stuttu síðar eða um kl. 16:50. Áhöfn þyrlunnar náði sambandi við bátsverja sem voru tveir og kom í ljós að talstöð bátsins var óvirk.  Engin skýring var gefin á því hvers vegna eigandinn tilkynnti sig út undir röngu bátsnafni og númeri.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands