Bandaríski sjóherinn lánar Landhelgisgæslunni fjölgeislamæli

Föstudagur 9. ágúst 2002.

Hér á landi eru staddir tveir fulltrúar frá Hafrannsóknarstofnun bandaríska sjóhersins af því tilefni að stofnunin hefur lánað Landhelgisgæslunni fjölgeislamæli til notkunar um borð í sjómælingabátnum Baldri. Þeir komu búnaðinum fyrir um miðjan júlímánuð og eru um þessar mundir að leiðbeina sjómælingamönnum Landhelgisgæslunnar hvernig nota á hann.

Hingað til hefur Landhelgisgæslan eingöngu haft eingeislamæli til sjómælinga. Munurinn á slíkum mæli og fjölgeislamæli er sá að eingeislamælirinn mælir einn punkt á hafsbotni í einu en fjölgeislamælirinn sýnir heildstæða botnmynd. Kostir við notkun fjölgeislamælis eru mestir á grunnsævi þar sem hætta er á skipsströndum ef mönnum sést yfir eina mishæð á botninum.

Mikið hagræði er í því fyrir Landhelgisgæsluna að fá þennan búnað að láni enda geta sjómælingamenn stofnunarinnar þannig metið kosti og galla hans og borið saman við annars konar mæla af þessari tegund ef ráðist verður í kaup á fjölgeislamæli fyrir Landhelgisgæsluna í framtíðinni.

Frá því um miðjan júlí hafa sjómælingamenn Landhelgisgæslunnar ásamt fulltrúum bandaríska sjóhersins verið að mæla svæðið frá Kjalarnesi og suður fyrir Gróttu. Þrátt fyrir að hér sé um þjálfunarverkefni að ræða munu mælingarnar nýtast Landhelgisgæslunni að fullu til kortagerðar og annarra verkefna. Hefur meðal annars verið gerð tilraun til að finna flak Goðafoss út af Garðskaga.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands