Útköll og fréttir af starfsemi Landhelgisgæslunnar frá 12. júlí - 6. ágúst.

Frá því 11. júlí sl. hefur verið hlé á fréttatilkynningum á heimasíðu Landhelgisgæslunnar.  Skýrist það m.a. af sumarleyfum.  Fréttaþyrstir hafa þó eflaust fengið sinn skerf af fréttum af starfsemi Landhelgisgæslunnar í öðrum fjölmiðlum sem jafnan eru í góðu sambandi við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.  Frá og með deginum í dag verður haldið áfram þar sem frá var horfið og fréttatilkynningar settar á heimasíðuna jafnóðum og tilefni gefast. Í stuttu máli eru atburðir sl. vikna eftirfarandi:

12. júlí 2002.   Rannsókn sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar um borð í bandarískri einkaþotu en þar hafði fundist grunsamleg einnota myndavél sem límband hafði verið vafið utan um.

13. júlí 2002.   Áhöfn TF-SIF kölluð út vegna hörmulegs slyss á tjaldstæði við Varmaland í Borgarfirði er fimm ára stúlka varð fyrir bíl.  Lífgunartilraunir báru ekki árangur. 

17. júlí 2002.   Fjörutíu til fimmtíu kíló af dínamíti fundust í fjörunni við Sandgerði.  Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar kallaðir út til að rannsaka efnið og tóku það í sína vörslu.

17. júlí 2002.  Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti slasaðan sjómann um borð í Höfrung III en skipið var statt djúpt vestur af Snæfellsnesi.  Sjómaðurinn var fluttur á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi þar sem hann gekkst undir aðgerð.

20. júlí 2002.   Í Ríkisútvarpinu var haft eftir Guðjóni Ármanni Einarssyni, framkvæmdastjóra skipstjóra- og stýrimannafélagsins Öldunnar, að undarlegt þætti að þyrla Landhelgisgæslunnar væri notuð af ráðamönnum til skoðunarferða þegar ekki væru til nægir peningar til að halda úti eftirliti með Landhelginni.  Tilefni ummælanna var ferð þeirra Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og doktor Janez Drnovsek, kollega hans frá Slóveníu að Geysi í byrjun júlí sl.  Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri Landhelgisgæslunnar sagði að þetta væri orðið algengara en áður, að þyrla væri lánuði til ráðuneyta, vísindamanna eða annarra.  Öryggissjónarmið gengju þó alltaf fyrir og þetta væri gert gegn gjaldi og kæmi því ekki niður á fjárhag stofnunarinnar.

22. júlí 2002.   Í fréttum Ríkissjónvarpsins kom fram að sjómenn væru mjög ósáttir við þá ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, að leggja varðskipinu Óðni en með því ættu að sparast um 32 milljónir króna í rekstri Landhelgisgæslunnar og þar með yrðu aðeins tvö varðskip sem annast ættu gæslu í 200 sjómílna lögsögunni.

28. júlí 2002.   Fréttaflutningur vegna greinar Guðbrands Jónssonar þyrluflugmanns í Morgunblaðinu þar sem hann véfengir rannsókn á því þegar minni þyrla Landhelgisgæslunnar skemmdist í eftirlitsflugi við Snæfellsnes 25. maí í fyrra. Guðbrandur hélt því fram, eftir skoðun á gögnum málsins, að þyrluflugmenn Landhelgisgæslunnar hafi verið í lágflugi þegar þetta átti sér stað og skemmdir hafi hlotist með því að eitt blaðið fór í fjallshlíðina.  Menn hafi verið að leika sér og séu að fela strákapörin með þeim skýringum sem gefnar hafa verið. Einnig hélt hann því fram að rannsóknarniðurstöður sýndu fram á samtryggingu ríkisstofnana sem séu fela það sem raunverulega gerðist.

Í fréttum Ríkissjónvarpsins var fjallað um þetta mál.  Þar kom m.a. fram:

Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri Landhelgisgæslunnar vísaði öllum fullyrðinum Guðbrands á bug og sagði ekkert í grein hans rétt nema hugsanlega dagsetningar.  Þormóður Þormóðsson, formaður rannsóknarnefndar flugslysa hafnaði einnig kenningum Guðbrands.  Hann sagði að öllum gögnum hefði borið saman við vitnisburði þyrluáhafnarinnar, þar á meðal voru hljóðritanir af samtölum áhafnar, samskiptum við flugumferðarstjórn og hljóðum vélarinnar.  GPS-tæki sem sýndi flug vélarinnar, hraða, hæð og flugstefnu.  Einnig ratsjármynd flugsins.  Farið sem Guðbrandur telur vera eftir þyrluspaða segir Þormóður að hafi verið gert við rannsóknina til að merkja stað þar sem brak fannst úr þyrlunni.  Um brotið úr þyrluspaðanum sagði hann ekki óeðlilegt að það hefði bognað og rispast þegar það þeyttist af á ógnarhraða og lenti á jörðinni.  Þá sagði Þormóður að breskir, franskir og norskir aðilar hefðu komið að rannsókninni og því teygði samsærið sig víða ef um einhvers konar yfirhylmingu væri að ræða.

29. júlí 2002.   Sagt frá því í fréttum Stöðvar 2 að varðskipið Óðinn hafi haldið í ferð um morguninn sem gæti reynst síðasta ferð skipsins fyrir Landhelgisgæsluna.  Í fréttinni var haft eftir Hafsteini Hafsteinssyni forstjóra Landhelgisgæslunnar að þetta sé út af fyrir sig hefðbundið því úthald Óðins hafi alla jafna ekki verið meira á ársgrundvelli og hefur skipinu samkvæmt venju verið lagt að hausti.  Hins vegar sé óvíst um framtíð Óðins þar sem ákveðið hafði verið að fækka varðskipunum um eitt á næsta ári og muni eftirlit á Óðni hætta gangi þær áætlanir eftir.  Hafsteinn sagði aðspurður um þessa ákvörðun dómsmálaráðherra að tvö skip til gæslu svo stórs hafsvæðis sé einfaldlega of lítið.

30. júlí 2002.   Neyðarkall barst um að bátur væri að sökkva og voru björgunarsveitir, lögregla, hafnsögubátur frá Reykjavíkurhöfn og þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út til leitar en svo virðist sem um gabb hafi verið að ræða. Talið er að leitin hafi kostað nokkur hundruð þúsund og fellur kostnaðurinn á þá sem tóku þátt í leitinni.  Lögregla rannsakar nú málið.

2. ágúst 2002. Þyrla Landhelgisgæslunnar tók þátt í leit að tvítugum manni sem ók út í Hvíta við Brúarhlöð.  Félaga hans hafði tekist að komast út úr bifreiðinni eftir að hún lenti í ánni og gera viðvart um slysið. Enn hefur ekki tekist að finna manninn og bifreiðina.

6. ágúst 2002.  Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna umferðarslyss við Fiskilæk í Leirár- og Melasveit í Borgarfirði.  Tveir fólksbílar skullu saman með þeim afleiðingum að farþegi annars bílsins lést en þyrla Landhelgisgæslunnar flutti annan ökumanninn mikið slasaðan á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi. Hinn ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahúsið á Akranesi.

6. ágúst 2002.  Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna slasaðs manns sem hafði brotlent svifdreka sínum í Dyrdal við Hengil um kl. 19 um kvöldið.  Þyrlan flutti manninn á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi en hann er ekki talinn í lífshættu.