Þoka hamlar björgun alvarlega veiks rússnesks sjómanns

Föstudagur 28. júní 2002.

Um kl. 20:10 í gærkvöldi var óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslu Íslands vegna alvarlega veiks sjómanns um borð í rússneska togaranum AFANASIEV sem var staddur á úthafskarfamiðunum á Reykjaneshrygg.  Rússneskur læknir var um borð og taldi hann nauðsynlegt að sækja manninn með þyrlu.  Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út en þar sem mikil þoka var á svæðinu var ekki hægt að senda þyrluna af stað.  Áhöfn TF-LIF er búin að vera í viðbragðsstöðu í nótt vegna málsins.

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, flaug yfir svæðið í nótt en komst ekki að togaranum vegna svartrar þoku.  Togarinn er á leið til Íslands og Landhelgisgæslan er reiðubúin að sækja sjúklinginn um leið og veðuraðstæður leyfa. 

Í morgun hafði Landhelgisgæslan samband við björgunarsveit Varnarliðsins og er hún einnig reiðubúin í sjúkraflug ef á þarf að halda.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands