Norskur loðnuskipstjóri áfrýjar dómi Héraðsdóms Austurlands

Skipstjórinn á norska loðnuveiðiskipinu Inger Hildur hefur áfrýjað til Hæstaréttar dómi fyrir fiskveiðibrot sem hann hlaut í Héraðsdómi Austurlands 12. nóvember á síðasta ári.  Skipstjórarnir á norsku loðnuveiðiskipunum Tromsoyebuen og Torson voru of seinir að lýsa yfir áfrýjun og hafnaði Hæstiréttur beiðni þeirra um áfrýjunarleyfi á þeim forsendum.

 

Samkvæmt tilkynningum til Landhelgisgæslunnar og afladagbókum voru skipin að veiðum innan grænlensku lögsögunnar þegar þau voru samkvæmt fjareftirliti innan íslensku lögsögunnar. Reyndar hafði einn skipstjórinn, á Inger Hildur, að eigin sögn fyrir mistök skráð í afladagbók staðsetningu innan íslensku lögsögunnar.

 

Íslendingar og Norðmenn hafa gert samning um gagnkvæmt fjareftirlit.  Fjareftirlitið virkar þannig að þegar norsku skipin sigla inn í íslenska efnahagslögsögu, fær stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sjálfvirkt sendar upplýsingar úr fjareftirlitskerfi Norðmanna.  Upplýsingarnar koma því frá Noregi.

 

Þar sem skipstjórum á Tromsoyebuen og Torson tókst ekki í tæka tíð að lýsa yfir áfrýjun, hafa dómar Héraðsdóms Austurlands verið sendir til Fangelsismálastofnunar til afgreiðslu og mun sýslumaðurinn á Seyðisfirði væntanlega sjá um að ganga í tryggingafé sem lagt var fram á sínum tíma.  Samkvæmt dómunum var afli Tromsoyebuen, alls 850 tonn, gerður upptækur og nam andvirði hans kr. 6.375.000.  Skipstjóranum var gert að greiða kr. 2,5 milljónir í sekt í Landhelgissjóð.  Skipstjóranum á Torson var einnig gert að greiða 2,5 milljónir í sekt í Landhelgissjóð og sæta upptöku á afla, 950 tonnum af loðnu, og nam andvirði hans kr.  7.125.000.

 

Það sem er sérstakt við þessa dóma er að þetta er í fyrsta skipti sem dæmt er á grundvelli upplýsinga úr fjareftirlitskerfi og er ekki vitað um aðra slíka dóma erlendis.   Í dómum Héraðsdóms Austurlands segir:

 

,,Hafa verður í huga í máli þessu, að ákærði hefur ekki verið staðinn að ólöglegum veiðum í venjulegum skilningi, heldur byggist ákæra á gögnum, sem fengin eru frá hinu sjálfvirka fjareftirlitskerfi.”

 

Mál skipstjórans á Inger Hildur verður væntanlega flutt í Hæstarétti í október á þessu ári.  Skipaður verjandi hans er Sigurmar K. Albertsson hrl.

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands