Samvörður og pollamótið í Eyjum

Skipulagning æfingarinnar Samvörður 2002 hefur staðið yfir í eitt og hálft ár. Landhelgisgæslan hefur verið í góðu samstarfi við sýslumanninn í Vestmannaeyjum, bæjaryfirvöld, skipuleggjendur pollamótsins og framkvæmdastjóra íþróttamiðstöðvarinnar.

Þegar tímasetning Samvarðaræfingarinnar í Vestmannaeyjum var valin, var gert ráð fyrir að pollamótið yrði haldið næstu helgi á eftir. Seinna var tímasetningu pollamótsins breytt án vitneskju Landhelgisgæslunnar sem skipuleggur Samvörð 2002 ásamt varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar höfðu áhyggjur af þessu og ræddu við skipuleggjendur pollamótsins og aðra aðila sem að málinu koma í Vestmannaeyjum. Niðurstaðan er sú að skipulagning Samvarðar 2002 miðast við að pollamótið sé haldið á sama tíma og hafa bæði innlendar og erlendar björgunarsveitir verið látnar vita af því mótshaldi og óskað eftir að sérstakt tillit verði tekið til þess.

Ýmsar ráðstafanir hafa verið gerðar. Helstu viðburðir almannavarnaæfingarinnar Samvarðar 2002 hafa verið skipulagðir þannig að þeir verði sem lengst frá mótsstaðnum. Sérstakt kort um leyfilegar akstursleiðir björgunarbifreiða hefur verið gefið út til þátttakenda æfingarinnar svo að sem minnst truflun verði. Þá hefur verið hætt við að láta þyrlur lenda á eiðinu eins og ráð var fyrir gert í upphafi og þess í stað lenda þær á flugvellinum. Þetta skekkir forsendur æfingarinnar að nokkru leyti, því að hún miðast annars við þá ímynduðu staðreynd að flugvöllurinn hafi lokast vegna hraunflæðis. Þetta er gert til að tryggja öryggi sem best vegna pollamótsins. Ekkert flug verður leyft yfir íþróttavöllunum þar sem mótið fer fram.

Í upphafi var reiknað með að erlendir þátttakendur fengju gistiaðstöðu í íþróttahúsum bæjarins. Eftir að dagsetning pollamótsins var færð yfir á sama tíma og Samvörður 2002, var ákveðið að leigja sali úti í bæ fyrir erlendu þátttakendurna og aðeins hluti af íslenskum björgunarsveitarmönnum fær gistiaðstöðu í íþróttahúsi. Þeir verða að ganga frá íþróttahúsinu að æfingasvæði Samvarðar þar sem akstur björgunarsveitabifreiða er bannaður nálægt íþróttahúsinu. Eins og nefnt hefur verið er það gert í því skyni valda sem minnstri truflun á mótshaldinu.

Eftir að fréttir bárust af skipulagi Samvarðar 2002 í Vestmannaeyjum höfðu margir áhyggjur af því að flugvellinum og höfninni yrði lokað á meðan á æfingunni stendur.  Þrátt fyrir að æfingin byggi á þeirri forsendu, mun svo ekki verða í raunveruleikanum. 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands