Þyrla varnarliðsins sótti slasaðan spænskan sjómann

Fimmtudagurinn 23. maí 2002.

Haft var samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 10 í morgun vegna slyss um borð í spænska skuttogaranum Pescaberbes Dos.  Skipverjinn sem hringdi var í miklu uppnámi og ekki vel talandi á ensku þannig að í fyrstu var talið að þrír skipverjar væru mjög alvarlega slasaðir, jafnvel látnir. Hafði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar þá samband við björgunarmiðstöðina í Madrid sem fékk réttar upplýsingar um slysið frá skipverjum og kom þeim til Landhelgisgæslunnar. Þá kom í ljós að einn skipverji var slasaður á öxl og olnboga. 

Slysið átti sér stað er dráttartaug slitnaði milli spænska togarans og olíuskipsins Kyndils en verið var að undirbúa afgreiðslu á olíu til togarans á úthafskarfamiðunum 220 sjómílur suðvestur af Reykjanesi.  Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafði samband við varnarliðið og óskaði eftir þyrlu til að sækja skipverjann.  Tvær björgunarþyrlur fóru í loftið um kl. 12:44 og var búið að hífa hinn slasaða um borð í aðra þeirra kl. 14:40.  Þyrlan lenti á Keflavíkurflugvelli þar sem hún var orðin eldsneytislítil en hinn slasaði var fluttur með sjúkrabíl á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands.