Úrskurður tollstjórans í Reykjavík v. nætursjónauka

Tollstjórinn í Reykjavík hefur kveðið upp úrskurð vegna kæru Landhelgisgæslu Íslands um greiðslu aðflutningsgjalda af nætursjónaukum.  Í úrskurðinum, sem dagsettur er 30. apríl 2002, segir að skv. 100 gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, skuli hafna kröfu Landhelgisgæslu Íslands um niðurfellingu aðflutningsgjalda af nætursjónaukum og greiða skuli virðisaukaskatt af þeim. Úrskurðinum má skjóta til fjármálaráðuneytisins innan 60 daga kærufrests.

 

Landhelgisgæslan hafði án árangurs óskað eftir fjárveitingum til kaupa á nætursjónaukum þegar ráðist var í að gangast fyrir söfnun fyrir þeim.  Reiknað er með að heildarkostnaður með öllum búnaði og þjálfun sé u.þ.b. 36,4 milljónir en þá er gert ráð fyrir að nætursjónaukar verði teknir í notkun í báðum þyrlum Landhelgisgæslunnar.  

 

Eftirtaldir aðilar hafa gefið fé til kaupa á nætursjónaukum:
Stýrimannaskólinn í Reykjavík, fjórtán milljónir, Sjóvá Almennar hf. eina milljón, Rauði krossinn eina milljón og fimmtíu þúsund og dómsmálaráðuneytið hefur lagt fram sjö milljónir.  Samtals hafa safnast tuttugu og þrjár milljónir og fimmtíu þúsund.  Enn vantar því þrettán milljónir þrjú hundruð og fimmtíu þúsund krónur.  Stefnt er að því að taka nætursjónaukana í notkun næsta haust.

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Landhelgisgæslu Íslands.