Veikur sjómaður sóttur um borð í Valdimar GK-195

Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands kl. 6:10 í morgun og gaf samband við línuskipið Valdimar GK-195 vegna veiks sjómanns um borð.  Læknir í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kallaður út og taldi hann ástæðu til að sækja manninn með þyrlu.  Aðrir í áhöfn TF-SIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, voru í framhaldi af því kallaðir út og fór þyrlan í loftið um kl. sjö.

 

Valdimar GK-195 var staddur 13 sjómílur NV af Patreksfirði er neyðarkallið barst og var þyrlan komin þangað um áttaleytið.  Vel gekk að ná manninum um borð og lenti þyrlan við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 9:16.