EL GRILLO - Sprengjuleit

EL GRILLO – SPRENGJULEIT

Sprengjuleit Danska sjóhersins og sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar gengur vel.  Kafarar leita nú kerfisbundið að sprengjum í flakinu til að gera það eins öruggt og hægt er áður en Norski verktakinn hefur vinnu við olíuhreinsun.

Um leið og köfun fer fram er einnig notast við fjarstýrðan kafbát sem leitar flakið, bæði með myndavélum og sonar.  Í gær þegar verið var að kanna svæðið fyrir framan stýrishús El Grillo með kafbátnum, kom í ljós lítill en stöðugur olíuleki úr einum af tönkum skipsins.  

Þó svo að leitin sé rétt hafin, hafa þegar fundist margar 20 mm sprengikúlur og nokkrar rakettur (Parachute and Cable Rockets).  Þessum rakettum er skotið upp til að torvelda loftárasir á skipið, en þær draga upp stálvír með fallhlíf á endanum sem helst á lofti í um 7 sekúndur.  Vírnum er ætlað að lenda á árásarflugvélinni sem dregur hann þá að sér en á endanum er lítil sprengja sem springur við snertingu.

Áætlað er að leitin standi fram yfir næstu helgi og endi með því að lyfta aðalfallbyssu skipsins upp á yfirborðið, en það er 4 þumlunga fallbyssa sem staðsett er á afturdekki.  Fallbyssan verður afhenti bæjaryfirvöldum á Seyðisfirði til viðbótar öðrum hlutum sem þegar eru komnir á land úr El Grillo, eftir að gengið hefur verið úr skugga um að hún sé óskaðleg.



AK