Orkustjórnunarkerfi í nýtt varðskip

  • Nr_29

Björn Bjarnason Dómsmálaráðherra og Jón Ágúst Þorsteinsson framkvæmdastjóri Marorku gengu í dag frá samningi um innleiðingu Maren orkustjórnunarkerfi Marorku í nýtt varðskip Landhelgisgæslunnar. Nýja varðskipið er fyrsta skip sinnar tegundar búið Maren orkustjórnunarkerfi en við það opnast ný og spennandi tækifæri fyrir Marorku.

IMG_1960

Nýtt varðskip Landhelgisgæslunnar verður með fullkominn stjórnbúnað, tvær aðalvélar og fjórar ljósavélar og verður rafmagnsframleiðsla alls allt að 5.400 kW. Mikilvægt er að rekstur skipsins verði sem hagkvæmastur og liður í því er að nota vélar á sem hagkvæmastan hátt. Með Maren orkustjórnunarkerfinu fæst betri orkunýting sem auk hagræðingar felur í sér minni mengun og losun CO2. Samningurinn felur í sér kaup á búnaði, þjálfun og kennslu áhafnar og þjónustusamningi til tveggja ára en með því móti er tryggt að búnaðurinn nýtist sem best.

Nr_29
Björn Bjarnason og Jón Ágúst Þorsteinsson við undirritun samnings um orkustjórnunarkefi í nýtt varðskip.

Maren orkustjórnunarkerfið er þróað, framleitt og markaðsett af Marorku. Marorka er íslenskt hátækni sprotafyrirtæki með starfsemi í 5 löndum. Meðal viðskiptavina Marorku í dag eru margar af helstu skipaútgerðum bæði hér heima og erlendis. Auknar kröfur útgerða um betri orkunýtingu og sparnað í olíunotkun hefur stutt sókn Marorku og hvatt til áframhaldandi rannsókna og uppbyggingar fyrirtækisins frá stofnun þess 2002.


 

Nánari upplýsingar veita:
Dr. Jón Ágúst Þorsteinsson,
framkvæmdastjóri Marorku
Sími: 582 8001 / 664 9201

Landhelgisgæslan
Sólmundur Már Jónsson
Simi: 545 2033
Netfang: solmundur@lhg.is


Maren 2 orkustjórnunarkerfi Marorku - er heildstætt kerfi sem samanstendur af vélbúnaði, mælabúnaði og hugbúnaði.

Það er hið eina sinnar tegundar í heiminum og er ætlað fyrir fiskiskip og flutningaskip. Sérstaða þess felst í flóknum stærðfræðilegum aðferðum sem notaðar eru til að lágmarka orkunotkun skips, óháð aðstæðum sem skipið er í eða kröfum sem til þess eru gerðar.

Lausnir Marorku hafa vakið mikla athygli hér heima sem erlendis og fyrirtækið hefur unnið fyrir mörg leiðandi fyrirtæki í Evrópu og Kanada. Árangur fyrirtækisins hefur náðst með þrotlausri þróunarvinnu og árangursríku samstarfi við ólíka aðila og með mikilvægum styrkjum til rannsókna og vöruþróunar.