Varðskip Landhelgisgæslunnar með Sólborgu RE-270 í togi á leið til Reykjavíkur

  • Vaktstöð siglinga / stjórnstöðin 2007

Þriðjudagur 20. mars 2007.

Varðskip Landhelgisgæslunnar er nú með dragnótarbátinn Sólborgu RE-270 í togi á leið til Reykjavíkur en báturinn varð vélarvana í dag um 0.8 sjómílur frá landi.

Um tvöleytið í dag fékk vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar (VSS) upplýsingar frá útgerð dragnótarbátsins Sólborgar RE-270 um að Sólborgin væri vélarvana með bilaða kúplingu undan Sandvíkinni. Sólborgin er 115 tonna dragnótarbátur og gerður út frá Reykjavík. Skipstjóri Sólborgar ætlaði að taka inn snurvoðina og halda til Sandgerðis og var óskaði útgerðin eftir upplýsingum um björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í Sandgerði. Ekki var formlega óskað eftir aðstoð en útgerðin var beðin um að láta VSS fylgjast með framvindunni.

Varðstjórar í VSS höfðu þegar samband við varðskip og létu vita um Sólborgu og hélt varðskipið þegar í átt til bátsins.  Í framhaldinu var ákveðið að kalla einnig út björgunarskipið Vörð í Sandgerði.

 Eir, þyrla Landhelgisgæslunnar, var í æfingarflugi er þetta gerðist og var óskað eftir að áhöfn þyrlunnar kannaði aðstæður á svæðinu.  Síðan var hún send til Reykjavíkur til að sækja spilmann og sigmann ef á þyrfti að halda.  Flugstjórinn lét vita að ölduhæð væri 3-4 metrar á svæðinu og vindur um 15 metrar á sekúndu.

Er hringt var um borð í Sólborgu um kl. 14:30 upplýsti skipstjóri að veður hefði snarlagast og allt væri í lagi um borð en báturinn var þá 0,8 sjómílur frá landi. Veðurstofan hafði spáð suðvestan hvassviðri síðdegis í dag og var talið nauðsynlegt að koma bátnum til aðstoðar þar sem hann rak hægt í átt að landi undan sjávarfallastraumum.

Haft var samband við flutningaskipið Laxfoss sem var í grenndinni við Sólborgu og óskað eftir að það héldi kyrru fyrir á svæðinu þar til varðskipið nálgaðist.

Klukkan 15:25 fengust upplýsingar um að Sólborgin hefði látið akkeri falla og það héldi en þá var Sólborgin 0,5 sjómílur undan Hafnarbergi.

Áhöfn Laxfoss hafði samband við VSS kl. 15:49 og lét vita að skipið væri í 0,6 sjómílna fjarlægð frá Sólborgu og að það sæist til hennar. Laxfoss beið til kl. 16:20 en þá var varðskip komið á svæðið.  Frekari aðstoð Varðar, björgunarskips Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í Sandgerði, var þá afþökkuð og jafnframt var þyrla Landhelgisgæslunnar tekin úr viðbragðsstöðu.

Varðskipið var komið með Sólborgu í tog kl. 17 og er á leiðinni til Reykjavíkur með bátinn. Þangað er um 40 sjómílna sigling frá Hafnarberginu og því má búast við að varðskipið komi með Sólborgu til hafnar seint í kvöld. 

Vaktstöð siglinga / stjórnstöðin 2007
Mynd úr myndasafni/ Jóhann Baldursson. Starfsmenn vaktstöðvar siglinga að störfum.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.