Rússneskir togarar á Reykjaneshrygg

Flugvélin TF-SIF í eftirlitsflugi á NEAFC-svæðinu sunnan lögsögumarkanna

Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF fór í hefðbundið gæsluflug á Reykjaneshrygg í gær, bæði til að fylgjast með skipum í íslensku efnahagslögsögunni en líka á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar (NEAFC), sunnan við lögsögumörkin.

Sex rússnesk fiskiskip reyndust að úthafskarfaveiðum um 28-30 sjómílur utan við lögsögumörkin. Þetta gat áhöfn TF-SIF ráðið af AIS-merkjum sem skipin sendu frá sér, en sökum þess hve lágskýjað var á svæðinu var ekki unnt að fljúga sjónflug yfir skipin. Auk þessara sex skipa voru tveir rússneskir togarar á leið til löndunar í Hafnarfirði.


Rússarnir hafa verið iðnir við kolann (eða öllu heldur úthafskarfann) undanfarnar vikur því fyrir rúmum mánuði birtist hér á vefnum frétt um eftirlitsflug TF-SIF. Þá voru ellefu rússneskir togarar að veiðum rétt handan við lögsögumörkin. Myndin af rússneskum togara á tölvuskjá flugvélarinnar sem fylgir þessari frétt var tekin í þeim leiðangri.