Sjómannadeginum fagnað í blíðskaparveðri

Starfsfólk Landhelgisgæslunnar tók þátt í hátíðarhöldunum víða um land

Stykkishólmur var einn þeirra staða þar sem starfsfólk Landhelgisgæslunnar fagnaði sjómannadeginum með heimamönnum. Áhöfn sjómælingabátsins Baldurs var meðal annars viðstödd þegar blóm voru lögð annars vegar við minnisvarða í kirkjugarðinum um drukknaða sjómenn og hins vegar minnisvarða við höfnina um látna sjómenn. Þá sótti áhöfnin sjómannamessu í Stykkishólmskirkju. Þá fylgdist áhöfnin með viðburðum og leikjum við höfnina þar sem þyrlan TF-LIF og björgunarsveitin Berserkir sýndu björgun úr sjó.


Baldur í Stykkishólmi um helgina. Mynd: Guðmundur Birkir Agnarsson

Þyrlur Landhelgisgæslunnar voru annars á ferð og flugi um helgina. Á sjómannadaginn heimsótti TF-LIF Akranes, Hafnarfjörð og Reykjavík og sýndi áhöfnin sjóbjörgun í samvinnu við björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Á laugardaginn fór TF-LIF til Hafnar í Hornafirði og Vestmannaeyja þar sem efnt var til svipaðra sjóbjörgunaræfinga með björgunarsveitum á staðnum og þyrlan TF-SYN var einnig á ferðinni. Í Eyjum var líka varðskipið Týr en Eyjamönnum og gestum þeirra gafst kostur á að skoða skipið á laugardaginn og njóta leiðsagnar áhafnarinnar.


Frá athöfninni í Fossvogskirkjugarði

Að venju stóð starfsfólk Landhelgisgæslunnar heiðursvörð við árlega minningarathöfn um drukknaða og týnda sæferendur við minnisvarðann Minningaröldur sjómannadagsins í Fossvogskirkjugarði og sótti svo sjómannamessu í Dómkirkjunni. Forseti Íslands og ráðherrar í ríkisstjórninni voru viðstaddir athöfnina. Þá las fulltrúi LHG ritningarlestra í fjölmennri hátíðarguðsþjónustu á Hrafnistu í Reykjavík. 



Frá athöfninni í Fossvogskirkjugarði