Talsverður viðbúnaður hjá Landhelgisgæslunni er boð bárust frá neyðarsendi

  • TF-LIF_8434_1200

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar bárust boð um kl. 12:00 á hádegi í dag að neyðarsendir væri í gangi inni á hálendi Íslands um 75 kílómetra suður af Akureyri. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafði þá þegar samband við TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar sem stödd var í eftirlitsflugi við Húnaflóa og fór þyrlan strax á vettvang. Jafnframt var lögreglunni á Norðurlandi eystra gert viðvart sem og Slysavarnafélaginu Landsbjörg sem áætlaði að senda björgunarbifreiðar áleiðis á svæðið.

Eftirgrennslan starfsmanna í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar leiddi í ljós að um var að ræða neyðarsendi sem skráður er í Bandaríkjunum. Hafði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar samband við björgunarstjórnstöð á vegum bandaríska flughersins sem sér um vöktun og skráningu á bandarískum neyðarsendum. Upplýsti hún að sendirinn væri í vörslu gönguhóps sem væri á ferð um Ísland og að hópurinn hefði ekki nein önnur fjarskiptatæki meðferðis svo vitað væri.

Um klukkan 12:55 kom TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar að fjórum bandarískum ferðamönnum á Dragaleið sem er við Sprengisandsleið norðaustur úr Hofsjökli. Kom í ljós að ekki var um göngufólk að ræða eins og Landhelgisgæslan hafði fengið upplýsingar um heldur var um að ræða bílstjóra og farþega bifreiðar sem ekki voru búnir til langvarandi göngu eða útivistar á hálendinu. Ferðamennirnir voru allir heilir á húfi en höfðu villst af leið í gærkvöldi eftir að hafa ekið af þjóðvegi 1 og inn í Eyjafjörð án þess að átta sig á því. Þeir óku allt þar til þeir komust ekki lengra þar sem bifreið þeirra varð eldsneytislaus. Vegna myrkurs ákváðu þeir að hafast við í bifreið sinni uns birta tæki. Er birta tók sáu ferðamennirnir skála rétt hjá þar sem bifreiðin hafði stöðvast og ákváðu að leita þar skjóls. Þeir veltu því fyrir sér að ganga lengra til suðurs en létu sem betur fer af þeim áformum og brugðu á það ráð að gangsetja gervihnattarneyðarsendinn sem sendi boð til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar.

Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti fólkið til Akureyrar en björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar héldu á staðinn og komu bifreiðinni af vettvangi.