TF-GNA sótti veikan skipverja​

Skipverjinn var hífður um borð í TF-GNA og fluttur með sjúkraflugvél Mýflugs frá Egilsstöðum.

8.12.2018 Kl: 17:00

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst beiðni um aðstoð frá línuskipi sem statt var 57 sjómílur aust-suðaustur af Langanesi um hádegisbilið í dag vegna veiks skipverja um borð. Eftir samráð við þyrlulækni var talið nauðsynlegt að sækja skipverjann og lagði TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar, af stað frá Reykjavík klukkan 12:47. Eftir tveggja tíma flug hafði þyrlan viðkomu á Egilsstöðum til að taka eldsneyti áður en leið hennar lá inn á Héraðsflóadjúp. Á meðan sigldi línuskipið nær landi til móts við þyrluna og klukkan 15:30 var skipverjinn hífður um borð í TF-GNA. Þaðan tók við hálftíma flug á Egilsstaði og þar beið sjúkraflugvél Mýflugs sem flutti sjúklinginn til Reykjavíkur.