TF-LIF fór í tvö útköll

Kona féll af hestbaki í Gilsfirði sem óttast var að hefði hlotið hryggáverka

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst á ellefta tímanum í gærkvöld beiðni frá lögreglu um að þyrla yrði sett í viðbragðsstöðu vegna konu sem féll af hestbaki í Gilsfirði við innanverðan Breiðafjörð. Eftir samráð við lækni á staðnum var ákveðið að senda þyrluna af stað en hætta var talin á að konan hefði hlotið hryggáverka. 

TF-LIF fór í loftið upp úr klukkan ellefu og var þyrlan komin á slysstaðinn um 45 mínútum síðar. Þar var veður gott til lendingar, hægur vindur og háskýjað. Þyrlan hélt svo aftur til Reykjavíkur um miðnættið og lenti hún við Landspítalann í Fossvogi rétt upp úr hálfeitt. 

Fljótlega eftir komuna suður barst stjórnstöð beiðni frá Neyðarlínunni um að þyrla færi til móts við sjúkrabíl sem var að flytja sjúkling frá Ólafsvík til Reykjavíkur. TF-LIF fór í loftið rétt fyrir klukkan hálftvö og lenti hún á þjóðveginum sunnan við Kaldármela um tuttugu mínútum síðar. 

Þyrlan lenti svo á Reykjavíkurflugvelli snemma á þriðja tímanum í nótt og þaðan flutti sjúkrabíll sjúklinginn á Landspítalann við Hringbraut.