TF-LIF sótti veikan skipverja

Þyrlan lenti á Höfn og tók eldsneyti áður en hún sótti skipverjann.

  • TF-LIF-LIF

6.12.2019 Kl: 13:41

Áhöfnin á TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, sótti síðdegis í gær veikan skipverja sem staddur var á fiskiskipi um 70 sjómílur austur af Djúpavogi. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst hjálparbeiðni frá skipstjóra fiskiskipsins á þriðja tímanum í gær en þá var TF-LIF á flugi áleiðis til Hafnar í Hornafirði. Þyrlan lenti á Höfn og tók eldsneyti áður en hún sótti skipverjann. Hífingar gengu vel, sérstaklega miðað við aðstæður. Kolniðamyrkur var þegar þyrlan kom að skipinu og fór skutur þess allt að átta metra upp og niður þegar sigmaður Landhelgisgæslunnar fór um borð. Þyrlan Eir var sömuleiðis kölluð út en hún var til taks á Höfn í Hornafirði á meðan áhöfnin á TF-LIF sótti skipverjann. Hann var svo fluttur á Höfn en þar beið sjúkraflugvél Mýflugs sem flaug með manninn til Reykjavíkur.