Þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út vegna neyðarboðs frá þyrlu

  • TF-LIF_8586_1200

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst klukkan 19:45 í kvöld tilkynning í gegnum gervihnattatungl að neyðarboð hefði borist frá þyrlu sem stödd var á Hengilssvæðinu. Þá þegar voru tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar kallaðar út og var þyrla farin í loftið skömmu seinna. Stuttu eftir að neyðarboð hafði borist til Landhelgisgæslunnar náðu farþegar um borð í þyrlunni að hringja í Neyðarlínuna og gefa upp nákvæmari staðsetningu þyrlunnar og upplýsingar um ástand fólks um borð.

Um 35 mínútum eftir að fyrsta neyðarboðið barst, eða um 20:20 var áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar búin að finna þyrluna og rétt um tíu mínútum síðar hafði hún náð að taka alla farþegana fimm um borð. Var þá björgunarsveitum og slökkviliði snúið til baka. Flaug þyrla Landhelgisgæslunnar með farþegana á sjúkrahús í Reykjavík. Önnur þyrla frá Landhelgisgæslunni mun verða rannsóknarnefnd samgönguslysa og lögreglu til aðstoðar á vettvangi fram eftir kvöldi.