Þyrlan kölluð út vegna gruns um neyðarblys

TF-LIF og björgunarsveitir leituðu nærri Þorlákshöfn en ekkert fannst

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst á tólfta tímanum gærkvöld ábending um að flugeldur hefði sést á himni. Sá sem tilkynnti var í Þorlákshöfn, hann lýsti ljósinu sem appelsínugulu og hefði það svifið rólega eins og fallhlífarflugeldur yfir haffletinum vestur af bænum. Ástæða þótti til að kanna málið betur og útiloka að sjófarendur ættu í vandræðum. Haft var samband við nærstadda báta en þeir höfðu ekki orðið varir við nein blys á lofti. Þá var lögreglu gert viðvart, svo og björgunarsveitum á svæðinu, og þyrlan TF-LIF kölluð út. Tveir harðbotna björgunarbátar frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg leituðu á svæðinu vestur frá Þorlákshöfn að Herdísarvík og þyrlan flaug nokkrum sinnum yfir svæðið. Minni bátar og sæþotur (jetski) voru einnig notaðir við leitina. Eftir nánari útreikninga var talið líklegast að ljósið hefði verið í nágrenni fjallsins Latur í Ögmundarhrauni, skammt vestan við Þorlákshöfn, og var ákveðið að minnka leitarsvæðið með tilliti til þess. Þyrlan fínkembdi fjöruna í kringum staðinn og flaug í þeim tilgangi í aðeins 100 feta hæð og á 5-25 hnúta hraða. Eftir rúmlega tveggja klukkustunda leit töldu björgunaraðilar að þeir væru búnir að leita af sér allan grun um að nokkur væri í vanda staddur. Þótt óvíst væri um uppruna ljóssins var því ákveðið að hætta leitinni. TF-LIF lenti á Reykjavíkurflugvelli laust fyrir klukkan hálfþrjú í nótt.

Flugáhafnir Landhelgisgæslunnar sinntu annars ýmsum verkefnum um helgina. Síðdegis á föstudag var TF-LIF kölluð út vegna manns sem hafði hrapað í Hljóðaklettum í Jökulsárgljúfrum. Þegar ljóst var að maðurinn væri látinn var aðstoð þyrlunnar afturkölluð. Í framhaldinu var óskað eftir því að þyrlan héldi til Grundarfjarðar vegna konu sem hafði hrapað í klettum ofarlega í hlíðum Kirkjufells. Konan var látin þegar þyrlan kom á slysstaðinn. Sigmaður þyrlunnar var látinn síga niður á slysstaðinn og bjó hann um konuna í sjúkrabörum. Hún var svo hífð um borð. Lent var við rætur fjallsins og var hin látna færð yfir í sjúkrabíl.

Á föstudagskvöldið var TF-LIF svo kölluð aftur út vegna göngumanns sem hafði fótbrotnað illa neðarlega á Fimmvörðuhálsi. Þyrlan var komin á slysstaðinn á Kattarhryggjum rétt upp úr klukkan sjö og fóru læknir og sigmaður til hins slasaða til meta ástand hans. Var hann svo hífður um borð og fluttur á Landspítalann í Fossvogi.

Snemma á laugardagskvöldið var óskað eftir aðstoð þyrlunnar vegna reiðhjólaslyss við Skeiðaafleggjara í Árnessýslu. Fimm væru slasaðir, þar af einn alvarlega. Fjörutíu mínútum eftir að áhöfnin var kölluð út var TF-LIF komin á slysstaðinn en lögregla hafði þá rýmt um 200 metra langan kafla á veginum vegna lendingarinnar. Tveir hinna slösuðu voru færðir um borð í þyrluna, þar á meðal sá sem hlotið hafði alvarlegustu meiðslin. Hún lenti svo við Landspítalann í Fossvogi um hálfníuleytið.