Þyrlur Landhelgisgæslunnar í þrjú útköll um helgina

TF-SYN og TF-GNÁ , þyrlur Landhelgisgæslunnar, sinntu þremur útköllum um helgina.

25.6.2018 Kl: 9:05

Á tíunda tímanum á laugardag hélt TF-SYN, þyrla Landhelgisgæslunnar, í hefðbundið gæsluflug á Faxaflóa. Skömmu eftir flugtak var óskað eftir aðstoð þyrlunnar vegna manns sem fallið hafði af hestbaki í Borgarfirði. Þyrlan lenti þá aftur á Reykjavíkurflugvelli þar sem læknir var sóttur og hélt að því búnu á slysstað. Þyrlan flutti hinn slasaða á Landspítalann í Fossvogi.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk tilkynningu frá Neyðarlínunni klukkan 12:30 í gær um að maður hafi fallið fyrir björg við Miðgjá á sunnanverðum Arnarstapa og væri í sjónum. TF-SYN, þyrla Landhelgisgæslunnar, var þegar í stað kölluð út auk þess sem báturinn Gestur hélt úr Arnarstapahöfn til björgunarstarfa. Auk þess voru önnur skip í grenndinni beðin um að halda á staðinn. Skömmu síðar var maðurinn hífður um borð í bátinn Gest, kaldur og örmagna en á lífi. Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti við Arnarstapa og flutti manninn á sjúkrahús í Reykjavík.

Í gærkvöldi hélt TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar, í sjúkraflug á Patreksfjörð þar sem óskað var eftir að maður sem hafði fyrr um daginn fallið við fossinn Dynjanda yrði fluttur á sjúkrahús í Reykjavík. Þyrlan lenti Reykjavíkurflugvelli á tíunda tímanum í gærkvöldi og þaðan var sjúklingurinn fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann.