Tveir skipherrar bornir til grafar

Sigurjón Hannesson og Ólafur Valur Sigurðsson, fyrrverandi skipherrar, jarðsungnir í vikunni

Í dag verður borinn til grafar Sigurjón Hannesson, fyrrverandi skipherra hjá Landhelgisgæslunni. Hann andaðist á Landspítalnum 24. júní, 82 ára að aldri. 

Sigurjón fæddist 13. febrúar 1935 á Seyðisfirði. Hann byrjaði sjómennsku ungur að aldri en árið 1958 réðist hann til Landhelgisgæslunnar. Eftir það starfaði Sigurjón nær óslitið á varðskipum Landhelgisgæslunnar og skipherra frá 1973. Sigurjón fékk á sínum tíma heiðursmerki fyrir björgun áhafnar Notts County, sem strandaði á Snæfjallaströnd í febrúar 1968. Sigurjón og Pálmi Hlöðversson, þá skipverjar á Óðni, drýgðu hetjudáð þegar þeir fóru á litlum slöngubáti í foráttuveðri og björguðu mönnunum. Sigurjón hlaut riddarakross Fálkaorðunnar 1976 fyrir landhelgisstörf. Eftirlifandi eiginkona Sigurjóns er Maggý Björg Jónsdóttir og eignuðust þau Jóhann og Ólaf Gísla. Útför Sigurjóns verður gerð frá Guðríðarkirkju í Grafarholti klukkan þrjú í dag og bera starfsmenn Landhelgisgæslunnar kistu hans til grafar.  

Á morgun verður Ólafur Valur Sigurðsson jarðsettur en hann var skipherra hjá Landhelgisgæslunni um margra ára skeið. Hann andaðist á Landspítalanum 13. júní á 87. aldursári. 

Thorvaldur-kennari,-Oli-Valur-og-Gudmundur

Ólafur Valur (fyrir miðju) í brú varðskipsins Týs ásamt Guðmundi heitnum Kjærnested skipherra og öðrum manni. 

Ólafur fæddist í Reykjavík 12. desember 1930, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík, farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1959 og skipstjóraprófi á varðskip 1965. Ólafur hóf sjómennsku á öndverðum sjötta áratugnum og skömmu síðar réðist hann til Landhelgisgæslunnar. Frá 1959-1985 var hann stýrimaður á ýmsum varðskipum, lengst af á Tý, eftir það var hann skipherra. Ólafur Valur starfaði að félagsmálum, var meðal annars formaður Stýrimannafélags Íslands 1968-1975, og ritaði greinar um margvísleg málefni. Þá hlaut hann margar viðurkenningar fyrir björgunarstörf og hönnun siglingatækja. Ólafur Valur var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Ingibjörg Jónasdóttir (f. 1932, d. 2011). Seinni kona hans var Sigurást Gísladóttir (f. 1930, d. 2004). Sambýliskona hans til tíu ára var Jónína Steinunn Þorsteinsdóttir (f. 1936). Útför Ólafs Vals Sigurðssonar verður gerð frá Hallgrímskirkju á morgun, þriðjudaginn 4. júlí, klukkan eitt. Starfsfólk Landhelgisgæslunnar tekur þátt í athöfninni. 


Starfsfólk Landhelgisgæslunnar minnist þeirra Sigurjóns og Ólafs Vals með hlýju og þakklæti og vottar ástvinum þeirra innilega samúð. Blessuð sé minning þeirra Sigurjóns Hannessonar og Ólafs Vals Sigurðssonar.