Varðskipsmenn æfa reykköfun

Margvíslegar æfingar eru fastur liður í starfi varðskipsmanna

Varðskipið Þór er nú við eftirlit og önnur störf á miðunum í kringum landið. Undanfarna daga hefur skipið verið á Þingeyri. Þótt skipið sé bundið við bryggju situr áhöfnin ekki auðum höndum. Þegar hefur verið efnt til reykköfunaræfingar um borð og í gær æfðu tveir kafarar skipsins leitarköfun í Þingeyrarhöfn.

Slíkar æfingar eru mikilvægur liður í að viðhalda þjálfun og þekkingu skipverjanna á að bregðast við erfiðum aðstæðum hvar sem er. Oft eru þær haldnar í samstarfi við slökkvilið eða aðra viðbragðsaðila á þeim stöðum sem varðskipin eru hverju sinni. Dæmi um það er æfing sem haldin var á haustdögum í Fjarðabyggð. Þá fóru ellefu skipverjar af Þór til Mjóeyrar í Reyðarfirði til æfingar í reykköfun með Slökkviliði Fjarðarbyggðar. Sjö reykkafarar fóru í yfirtendrunargám og fylgdust með upptökum elds og æfðu rétt handtök við að slökkva eldinn. Einnig var farið yfir helstu þætti eins og yfirtendrun og þróun elds í lokuðu rými.

20161117_151555_resized

Frá æfingunni í Fjarðabyggð

Daginn eftir kom Slökkvilið Fjarðarbyggðar um borð í varðskipið Þór og æfðu reykköfun með varðskipsmönnum. Búið var að breyta lest varðskipsins þannig að, settar voru upp hindranir og rýmið fyllt af reyk, einnig var myrkur og aðstæður gerðar erfiðari fyrir vikið. Hvert reykköfunarteymi bjargaði einum einstaklingi út úr rýminu. Æfingin var liður í menntun og þjálfun fyrir verðandi Slökkviliðsmenn í Fjarðarbyggð. Kennurum nemana þótti æfingin vel upp sett og reyndi töluvert á reykköfunarteymin.

Eftir æfinguna skoðuðu slökkviliðsmenn aðstæður í lestinni eftir að hún var reyklosuð, til að skoða þær hindranir sem þeir höfðu farið yfir í leit að einstaklingum sem bjarga átti út úr rýminu.

20161116_140231_resized

Eldurinn logaði glatt í yfirtendrunargámnum