Fréttayfirlit: maí 2002

Þyrla varnarliðsins sótti slasaðan spænskan sjómann

Fimmtudagurinn 23. maí 2002. Haft var samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 10 í morgun vegna slyss um borð í spænska skuttogaranum Pescaberbes Dos.  Skipverjinn sem hringdi var í miklu uppnámi og ekki vel talandi á ensku þannig að í fyrstu var talið að þrír skipverjar væru mjög alvarlega slasaðir, jafnvel látnir. Hafði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar þá samband við björgunarmiðstöðina í Madrid sem fékk réttar upplýsingar um slysið frá skipverjum og kom þeim til Landhelgisgæslunnar. Þá kom í ljós að einn skipverji var slasaður á öxl og olnboga.  Slysið átti sér stað er dráttartaug slitnaði milli spænska togarans og olíuskipsins Kyndils en verið var að undirbúa afgreiðslu á olíu til togarans á úthafskarfamiðunum 220 sjómílur suðvestur af Reykjanesi.  Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafði samband við varnarliðið og óskaði eftir þyrlu til að sækja skipverjann.  Tvær björgunarþyrlur fóru í loftið um kl. 12:44 og var búið að hífa hinn slasaða um borð í aðra þeirra kl. 14:40.  Þyrlan lenti á Keflavíkurflugvelli þar sem hún var orðin eldsneytislítil en hinn slasaði var fluttur með sjúkrabíl á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands.  

Landhelgisgæslan tekur þátt í BRIGHT EYE

Sameiginleg leitar- og björgunaræfing NATO ríkja, kölluð BRIGHT EYE, stendur nú yfir. Í henni felst að æfa samstarf nágrannaríkja innan NATO á sviði leitar og björgunar og prófa samskipti björgunarstjórnstöðva þeirra. Sá hluti æfingarinnar sem Íslendingar taka þátt í hófst í gærmorgun og lýkur seinnipartinn í dag. Flugmálastjórn stjórnar þeirri æfingu. Við æfinguna hafa komið við sögu leitarflugvél og varðskip frá Landhelgisgæslunni, leitarflugvélar frá Flugmálastjórn og varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli auk björgunarþyrlu og varðskips frá frá Færeyjum. Þyrlur varnarliðsins eru einnig í viðbragðsstöðu.  Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti norskan sjómann

Um kl. 14:35 á annan í Hvítasunnu hafði norski línubáturinn Froyanes samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um Reykjavíkurradíó vegna slasaðs manns um borð.  Báturinn var þá staddur 120 sjómílur suðvestur af Reykjanesi.  Óskað var eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar til að sækja manninn.  TF-SIF  fór í loftið kl. 15:16 og var hinn slasaði kominn um borð í þyrluna kl. 16:23.  Lent var við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 16:27. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

Úrskurður tollstjórans í Reykjavík v. nætursjónauka

Tollstjórinn í Reykjavík hefur kveðið upp úrskurð vegna kæru Landhelgisgæslu Íslands um greiðslu aðflutningsgjalda af nætursjónaukum.  Í úrskurðinum, sem dagsettur er 30. apríl 2002, segir að skv. 100 gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, skuli hafna kröfu Landhelgisgæslu Íslands um niðurfellingu aðflutningsgjalda af nætursjónaukum og greiða skuli virðisaukaskatt af þeim. Úrskurðinum má skjóta til fjármálaráðuneytisins innan 60 daga kærufrests.   Landhelgisgæslan hafði án árangurs óskað eftir fjárveitingum til kaupa á nætursjónaukum þegar ráðist var í að gangast fyrir söfnun fyrir þeim.  Reiknað er með að heildarkostnaður með öllum búnaði og þjálfun sé u.þ.b. 36,4 milljónir en þá er gert ráð fyrir að nætursjónaukar verði teknir í notkun í báðum þyrlum Landhelgisgæslunnar.     Eftirtaldir aðilar hafa gefið fé til kaupa á nætursjónaukum:Stýrimannaskólinn í Reykjavík, fjórtán milljónir, Sjóvá Almennar hf. eina milljón, Rauði krossinn eina milljón og fimmtíu þúsund og dómsmálaráðuneytið hefur lagt fram sjö milljónir.  Samtals hafa safnast tuttugu og þrjár milljónir og fimmtíu þúsund.  Enn vantar því þrettán milljónir þrjú hundruð og fimmtíu þúsund krónur.  Stefnt er að því að taka nætursjónaukana í notkun næsta haust.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands.

Veikur sjómaður sóttur um borð í Valdimar GK-195

Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands kl. 6:10 í morgun og gaf samband við línuskipið Valdimar GK-195 vegna veiks sjómanns um borð.  Læknir í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kallaður út og taldi hann ástæðu til að sækja manninn með þyrlu.  Aðrir í áhöfn TF-SIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, voru í framhaldi af því kallaðir út og fór þyrlan í loftið um kl. sjö.  Valdimar GK-195 var staddur 13 sjómílur NV af Patreksfirði er neyðarkallið barst og var þyrlan komin þangað um áttaleytið.  Vel gekk að ná manninum um borð og lenti þyrlan við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 9:16.

Ný vefsíða Landhelgisgæslu Íslands

Ný vefsíða Landhelgisgæslunnar hefur verið opnuð.  Vefsíðan er byggð á forritinu Vefþór frá Hugviti sem er þannig úr garði gert að vefstjóri getur með auðveldari hætti en áður sett inn á hana tilkynningar, fréttir og annað efni.  Reikna má með að heimasíðan verði líflegri og skemmtilegri fyrir vikið. Fréttir verða settar á upphafssíðu jafnóðum og fréttatilkynningar eru sendar til fjölmiðla.    Upplýsingar um hlutverk og starfsemi Landhelgisgæslunnar er að finna á heimasíðunni.  Þar er einnig fræðsluefni varðandi leit og björgun, móttöku þyrlu og sprengjur sem Landhelgisgæslan sér um að fjarlægja og eyða.    Á heimasíðunni er einnig að finna umfjöllun um Sjómælingar Íslands sem eru deild innan Landhelgisgæslunnar en hún gefur reglulega út Tilkynningar til sjófarenda sem eru aðgengilegar þar.  Þar er einnig að finna myndir af skipakosti og loftförum Landhelgisgæslunnar.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands