Fréttayfirlit: júní 2002

Samverði 2002 lýkur í dag

Sunnudagur 30. júní 2002. Skipulag æfingarinnar Samvörður 2002 hefur gengið upp að mestu leyti þrátt fyrir að veður hafi á köflum sett strik í reikninginn hvað þyrluflug varðar. Stjórnendur og þátttakendur hafa þannig fengið þjálfun í að bregðast við breyttum aðstæðum og mál manna að af æfingunni megi draga mikilvægan lærdóm.Fjölmiðlafólki, innlendu og erlendu, var boðið að kynnast æfingunni af eigin raun í gær.  Farið var í þyrluflug frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja  með Chinook þyrlu þjóðvarðliðs Pensylvaníu.  Sýnd var rústabjörgun í fiskvinnsluhúsi niður við höfn þar sem aðstæður höfðu verið gerðar eins raunverulegar og mögulegt var. Þangað komu forstjóri Landhelgisgæslunnar og aðmírállinn á Keflavíkurflugvelli til að kynna sér aðstæður en þeir eru framkvæmdastjórar æfingarinnar.  Varnarmálaráðherra Belgíu var með þeim í för og heilsaði upp á samlanda sína sem voru þar að störfum.  Í Vestmannaeyjum bar einnig að líta hús sem hafði hrunið og fjölda hlutverkaleikenda sem höfðu fengið fyrirmæli um hvaða áverka þeir höfðu orðið fyrir og var búið að farða þá í samræmi við það.  Leikhæfileikar hinna slösuðu vöktu athygli enda var hluti þeirra félagar í leikfélagi í leikfélagi í Vestmannaeyjum og þjáðust af mikilli innlifun.  Fengu slasaðir flutning til Þorlákshafnar þar sem gert var að sárum þeirra.  Sumir týndu þó lífinu og var m.a. eitt bráðlifandi lík með fjölmiðlafólki í för er haldið var til Þorlákshafnar með þyrlu eftir heimsókn til Vestmannaeyja í gær. Í dag hefur verið lögð áhersla á að ljúka verkefnum og ákveðið hefur verið að hraða samantekt og flutningi þátttakenda frá Vestmannaeyjum vegna óhagstæðrar veðurspár.  Samkvæmt skipulaginu á æfingunni formlega að ljúka um kl. 18 í dag.Landhelgisgæslan vill koma á framfæri þakklæti til allra þátttakenda sem hafa lagt sitt af mörkum til að gera æfinguna sem veglegasta þ.e. undirbúningsaðilum, skipuleggjendum, þáttakendum í björgunarstörfum og hlutverkaleikendum.  Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Þoka hamlar björgun alvarlega veiks rússnesks sjómanns

Föstudagur 28. júní 2002. Um kl. 20:10 í gærkvöldi var óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslu Íslands vegna alvarlega veiks sjómanns um borð í rússneska togaranum AFANASIEV sem var staddur á úthafskarfamiðunum á Reykjaneshrygg.  Rússneskur læknir var um borð og taldi hann nauðsynlegt að sækja manninn með þyrlu.  Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út en þar sem mikil þoka var á svæðinu var ekki hægt að senda þyrluna af stað.  Áhöfn TF-LIF er búin að vera í viðbragðsstöðu í nótt vegna málsins.Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, flaug yfir svæðið í nótt en komst ekki að togaranum vegna svartrar þoku.  Togarinn er á leið til Íslands og Landhelgisgæslan er reiðubúin að sækja sjúklinginn um leið og veðuraðstæður leyfa.  Í morgun hafði Landhelgisgæslan samband við björgunarsveit Varnarliðsins og er hún einnig reiðubúin í sjúkraflug ef á þarf að halda. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Leitað að týndum manni á Skjálfanda

Föstudagur 28. júní 2002. Kl. 11:00. Um kl. 1:48 í nótt hafði lögreglan á Húsavík samband við stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands vegna manns sem hafði farið út á sjó á kajak frá Flateyjardal um þrjúleytið í gær og ekkert hefur spurst til síðan.  Hann hafði ætlað að vera kominn heim til sín um kl. 20.  Óskað var eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar við leit að manninum. Þar sem flugáhafnir Landhelgisgæslunnar voru bundnar í öðru verkefni var haft samband við flugstjórn og var flugvél Flugmálastjórnar send af stað til leitar. Sérstök beiðni lögreglunnar á Húsavík um aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar til leitar að manninum kom um fimmleytið í morgun og þá þegar var flugvél Flugmálastjórnar, TF-FMS, á svæðinu við leit að beiðni Landhelgisgæslunnar.  Flugmálastjórnarvélin hefur meiri flughraða en þyrlur og meira flugþol. Hún var því heppilegri kostur en þyrla eins og aðstæður voru. Í morgun var einnig haft samband við danska eftirlitsskipið Vædderen sem tekur þátt í æfingunni Samvörður 2002 og er þyrla frá skipinu á leið til Húsavíkur til leitar og er áætlað að hún verði á leitarsvæðinu um kl. 11.  Samvinna Landhelgisgæslunnar og danska sjóhersins byggist á sérstökum samstarfssamningi um leit og björgun. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Skipstjóri Afanasiev afþakkar aðstoð þyrlu varnarliðsins

Föstudagur 28. júní 2002Er þyrla varnarliðsins átti eftir 30 mínútna flug að rússneska togaranum Afanasiev barst skeyti frá skipstjóra togarans til Landhelgisgæslunnar og aðstoð við flutning sjúklings afþökkuð.  Þyrlu varnarliðsins var þá snúið við.  Hjá Landhelgisgæslunni er verið að rannsaka hvort upphaflega var ástæða til að kalla eftir þyrlu.  Útkall vegna sjúklingsins varð til þess að þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var ekki tiltæk í önnur verkefni og senda varð þyrlu danska sjóhersins í leit að manni á Skjálfanda í hennar stað. Einnig olli þetta röskun á þátttöku Landhelgisgæslunnar í æfingunni Samverði 2002.  Skipstjóri togarans Afanasiev hefur óskað eftir hafnsögubáti til að koma til móts við skipið og sækja sjúklinginn.Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

Samvarðaræfinging hefur gengið vel í dag

Föstudagur 28. júní 2002. Þrátt fyrir að veður hafi sett strik í reikninginn hefur Samvarðaræfingin gengið vel í dag.  Brugðist hefur verið við breyttum aðstæðum og talsvert hefur reynt á stjórnendur og skipuleggjendur æfingarinnar.  Í Vestmannaeyjum er unnið að rústabjörgun og slökkviliðsstörfum.  Í Þorlákshöfn var sett á svið hópslys á níunda tímanum.  Um var að ræða óvænta atburðarás í æfingunni sem m.a. reyndi á skipulag almannavarna í Ölfushreppi.  Sett var á svið rútuslys norður af Þorlákshöfn.  Viðbragðsaðilar í almannavarnaskipulagi Ölfushrepps komu að aðgerðum og fólk var flutt í móttökustöð og eistneskan og belgískan tjaldspítala sem komið hefur verið upp.  Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands

Norðmenn mokfiska á Íslandsmiðum

Fimmtudagur 27. júní 2002. Fimmtíu og níu norsk loðnuskip hafa tilkynnt sig inn í efnahagslögsöguna, til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar, síðan loðnuveiðar hófust 20. júní sl.  Þar af  hafa fimmtíu og fimm skip tilkynnt um afla.  Leyfður heildarafli norskra skipa innan íslensku efnahagslögsögunnar er 48.587 tonn en í dag hafa þau þegar veitt 35.980 tonn og eru þá aðeins 12.607 tonn til skiptanna.  Í dag eru alls 12 norsk loðnuskip að veiðum innan íslensku efnahagslögsögunnar.  Loðnuveiði hefur verið góð að undanförnu á Vestfjarðamiðum. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Norskur loðnuskipstjóri áfrýjar dómi Héraðsdóms Austurlands

Skipstjórinn á norska loðnuveiðiskipinu Inger Hildur hefur áfrýjað til Hæstaréttar dómi fyrir fiskveiðibrot sem hann hlaut í Héraðsdómi Austurlands 12. nóvember á síðasta ári.  Skipstjórarnir á norsku loðnuveiðiskipunum Tromsoyebuen og Torson voru of seinir að lýsa yfir áfrýjun og hafnaði Hæstiréttur beiðni þeirra um áfrýjunarleyfi á þeim forsendum.   Samkvæmt tilkynningum til Landhelgisgæslunnar og afladagbókum voru skipin að veiðum innan grænlensku lögsögunnar þegar þau voru samkvæmt fjareftirliti innan íslensku lögsögunnar. Reyndar hafði einn skipstjórinn, á Inger Hildur, að eigin sögn fyrir mistök skráð í afladagbók staðsetningu innan íslensku lögsögunnar.   Íslendingar og Norðmenn hafa gert samning um gagnkvæmt fjareftirlit.  Fjareftirlitið virkar þannig að þegar norsku skipin sigla inn í íslenska efnahagslögsögu, fær stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sjálfvirkt sendar upplýsingar úr fjareftirlitskerfi Norðmanna.  Upplýsingarnar koma því frá Noregi.   Þar sem skipstjórum á Tromsoyebuen og Torson tókst ekki í tæka tíð að lýsa yfir áfrýjun, hafa dómar Héraðsdóms Austurlands verið sendir til Fangelsismálastofnunar til afgreiðslu og mun sýslumaðurinn á Seyðisfirði væntanlega sjá um að ganga í tryggingafé sem lagt var fram á sínum tíma.  Samkvæmt dómunum var afli Tromsoyebuen, alls 850 tonn, gerður upptækur og nam andvirði hans kr. 6.375.000.  Skipstjóranum var gert að greiða kr. 2,5 milljónir í sekt í Landhelgissjóð.  Skipstjóranum á Torson var einnig gert að greiða 2,5 milljónir í sekt í Landhelgissjóð og sæta upptöku á afla, 950 tonnum af loðnu, og nam andvirði hans kr.  7.125.000.   Það sem er sérstakt við þessa dóma er að þetta er í fyrsta skipti sem dæmt er á grundvelli upplýsinga úr fjareftirlitskerfi og er ekki vitað um aðra slíka dóma erlendis.   Í dómum Héraðsdóms Austurlands segir:   ,,Hafa verður í huga í máli þessu, að ákærði hefur ekki verið staðinn að ólöglegum veiðum í venjulegum skilningi, heldur byggist ákæra á gögnum, sem fengin eru frá hinu sjálfvirka fjareftirlitskerfi.”   Mál skipstjórans á Inger Hildur verður væntanlega flutt í Hæstarétti í október á þessu ári.  Skipaður verjandi hans er Sigurmar K. Albertsson hrl.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Þyrla Landhelgisgæslunnar leitar að neyðarsendi

Þriðjudagur 25. júní 2002. Um ellefuleytið fóru Landhelgisgæslunni að berast tilkynningar frá skipum, flugvélum og gervihnetti um sendingar frá neyðarsendi skips.  Gervihnattastaðsetning var í nágrenni Reykjavíkur.  TF-SIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, var send til leitar og nam sendingarnar yfir skemmtiferðaskipinu Delphin sem var í Reykjavíkurhöfn.  Áhöfn skipsins gat ekki fundið hvaðan neyðarsendingarnar bárust og óskaði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar því eftir aðstoð Póst- og fjarskiptastofnunar.  Starfsmaður stofnunarinnar fór um borð, fann sendinn og slökkti á honum.  Þar með var málinu lokið. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Tilraun til ásiglingar á léttbát varðskipsins ÆGIS

Laugardagur 15. júní 2002. Landhelgisgæslunni barst listi frá Siglingastofnun um að fjöldi skemmtibáta væri án haffæris og því í farbanni.  Vegna þessa var eftirlitsbátur varðskipsins ÆGIS sendur inn á Kollafjörð til eftirlits.  Eftirlitsbáturinn kom að nokkrum skemmtibátum úti í Þerney og þar af voru tveir án haffæris skv. lista Siglingastofnunar.  Ákveðið var að fara á svæðið og tilkynna skipstjórum bátanna að þeir mættu ekki vera á sjó og kanna málið betur.  Þegar viðræðum við umráðamenn bátanna var lokið, varð stýrimaður varðskipsins þess var að einn skemmtibátanna sigldi af stað og stefndi á mikilli ferð á eftirlitsbát varðskipsins.  Með snarræði tókst að forða ásiglingu með því að beita fyllsta vélarafli eftirlitsbátsins og bægja þannig hættunni frá. Að mati stýrimanns varðskipsins mátti litlu muna að þarna yrði stórslys.  Eftirlitsbáturinn veitti skemmtibátnum eftirför til að reyna að ná tali af skipstjóra en honum tókst að komast undan. Skipherra varðskipsins hringdi tvisvar í hann en hann hunsaði fyrirmæli en hélt þó að lokum til hafnar þar sem lögregla tók á móti honum.  Málið er í rannsókn hjá lögreglu.  Landhelgisgæslumenn hafa ekki lent í ásiglingartilraun síðan á þorskastríðsárunum og er málið litið alvarlegum augum af hálfu Landhelgisgæslunnar. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Loðnuvertíðin 2002-2003 hófst á miðnætti

Fimmtudagur 20. júní 2002.   Á miðnætti hófust loðnuveiðar á vertíðinni 2002-2003.  Alls hafa 47 erlend loðnuskip tilkynnt sig inn í íslensku efnahagslögsöguna.   Þar af eru 35 norsk skip tilbúin til veiða og 8 á biðlista, tvö færeysk og eitt grænlenskt skip.  Samkvæmt reglugerð um loðnuveiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands á loðnuvertíðinni 2002-2003, er Norðmönnum ekki heimilt að hafa fleiri en 35 skip að veiðum samtímis innan lögsögunnar á tímabilinu 20. júní – 30. nóvember 2002 og ekki skulu fleiri en 10 færeysk skip stunda loðnuveiðar í lögsögunni samtímis.   Norðmenn mega veiða alls 48.587 lestir innan fiskveiðilögsögu Íslands á þessari loðnuvertíð, Færeyingar 30.000 lestir en Grænlendingar mega veiða það magn sem þeim er úthlutað af grænlenskum stjórnvöldum.  Í reglugerðinni er að finna nánari skilyrði fyrir veiðum og takmarkanir hvað varðar tíma og staðsetningu.   Athygli vekur hversu mörg erlend skip eru þegar komin á miðin þrátt fyrir að aflafréttir hafi ekki borist.  Ekki er kunnugt um neinar veiðar skipanna enn sem komið er.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands

Samvörður og pollamótið í Eyjum

Skipulagning æfingarinnar Samvörður 2002 hefur staðið yfir í eitt og hálft ár. Landhelgisgæslan hefur verið í góðu samstarfi við sýslumanninn í Vestmannaeyjum, bæjaryfirvöld, skipuleggjendur pollamótsins og framkvæmdastjóra íþróttamiðstöðvarinnar. Þegar tímasetning Samvarðaræfingarinnar í Vestmannaeyjum var valin, var gert ráð fyrir að pollamótið yrði haldið næstu helgi á eftir. Seinna var tímasetningu pollamótsins breytt án vitneskju Landhelgisgæslunnar sem skipuleggur Samvörð 2002 ásamt varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar höfðu áhyggjur af þessu og ræddu við skipuleggjendur pollamótsins og aðra aðila sem að málinu koma í Vestmannaeyjum. Niðurstaðan er sú að skipulagning Samvarðar 2002 miðast við að pollamótið sé haldið á sama tíma og hafa bæði innlendar og erlendar björgunarsveitir verið látnar vita af því mótshaldi og óskað eftir að sérstakt tillit verði tekið til þess. Ýmsar ráðstafanir hafa verið gerðar. Helstu viðburðir almannavarnaæfingarinnar Samvarðar 2002 hafa verið skipulagðir þannig að þeir verði sem lengst frá mótsstaðnum. Sérstakt kort um leyfilegar akstursleiðir björgunarbifreiða hefur verið gefið út til þátttakenda æfingarinnar svo að sem minnst truflun verði. Þá hefur verið hætt við að láta þyrlur lenda á eiðinu eins og ráð var fyrir gert í upphafi og þess í stað lenda þær á flugvellinum. Þetta skekkir forsendur æfingarinnar að nokkru leyti, því að hún miðast annars við þá ímynduðu staðreynd að flugvöllurinn hafi lokast vegna hraunflæðis. Þetta er gert til að tryggja öryggi sem best vegna pollamótsins. Ekkert flug verður leyft yfir íþróttavöllunum þar sem mótið fer fram.Í upphafi var reiknað með að erlendir þátttakendur fengju gistiaðstöðu í íþróttahúsum bæjarins. Eftir að dagsetning pollamótsins var færð yfir á sama tíma og Samvörður 2002, var ákveðið að leigja sali úti í bæ fyrir erlendu þátttakendurna og aðeins hluti af íslenskum björgunarsveitarmönnum fær gistiaðstöðu í íþróttahúsi. Þeir verða að ganga frá íþróttahúsinu að æfingasvæði Samvarðar þar sem akstur björgunarsveitabifreiða er bannaður nálægt íþróttahúsinu. Eins og nefnt hefur verið er það gert í því skyni valda sem minnstri truflun á mótshaldinu. Eftir að fréttir bárust af skipulagi Samvarðar 2002 í Vestmannaeyjum höfðu margir áhyggjur af því að flugvellinum og höfninni yrði lokað á meðan á æfingunni stendur.  Þrátt fyrir að æfingin byggi á þeirri forsendu, mun svo ekki verða í raunveruleikanum.  Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Áhöfn Guðrúnar Gísladóttur bjargaðist er skipið strandaði við Noreg

Þriðjudagur 18. júní 2002.   Áhöfn frystiskipsins Guðrúnar Gísladóttur KE-15 bjargaðist giftusamlega er skipið strandaði á skeri við Lofoten-eyjarnar í Norður Noregi en skipið var á leið til löndunar í bænum Leksnes er atburðurinn átti sér stað.  Björgunarmiðstöðin í Bodö tilkynnti björgunarstjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands um atburðinn kl. 9:26 í morgun.    Áhöfn Guðrúnar Gísladóttur sá sér ekki annað fært en að yfirgefa skipið og komust skipverjar, alls 20 manns, í gúmmíbjörgunarbáta.  Um kl. 10:12 bárust fregnir frá Bodö um að allir skipverjar væru komnir um borð í skip norsku strandgæslunnar.  Dráttarbátur er væntanlegur á strandstað um kl. 15:00.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands

Æfing sprengjusérfræðinga haldin samhliða Samverði 2002

Þriðjudagur 18. júní 2002. Á kynningarfundi sem haldinn var í utanríkisráðuneytinu í dag vegna almannavarnaræfingarinnar Samvarðar 2002 var sagt frá æfingu sprengjusérfræðinga sem haldin verður á varnarsvæðinu samhliða Samvarðaræfingunni. Æfingin hefur hlotið heitið ,,Northern Challenge" og hefur sprengjudeild Landhelgisgæslunnar skipulagt hana. Þátttakendur verða frá Eistlandi, Bretlandi, Danmörku og Bandaríkjunum auk Íslands.Sprengjudeild Landhelgisgæslu Íslands sér nú alfarið um sprengjueyðingu fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli en sprengjudeildin þar var lögð niður í kjölfarið á sérstökum samningi þar sem Landhelgisgæslan tók að sér þá starfsemi. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Samvörður 2002

Almannavarnaæfingin Samvörður 2002, verður haldin á Íslandi dagana 24. - 30. júní næstkomandi. Framkvæmdastjóri æfingarinnar af Íslands hálfu er Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri Landhelgisgæslunnar. Æfingin er hluti af alþjóðlegu öryggis- og varnarmálasamstarfi Atlantshafsbandalagsins og er þriðja Samvarðaræfingin sem haldin er á Íslandi. Markmið slíkra æfinga er að styrkja og samhæfa aðgerðir herja og borgaralegra stofnana aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og samstarfsríkja þess á sviði friðargæslu og björgunarstarfa og æfa viðbrögð við náttúruhamförum.Alls munu 550 Íslendingar taka þátt Samverði 2002, á einn eða annan hátt, en það verða m.a. starfsmenn Landhelgisgæslunnar, Flugmálastjórnar, Rauða kross Íslands, Almannavarna ríkisins, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, lögreglu, slökkviliðs og almannavarnanefnda. Þá mun fjöldi sjálfboðaliða frá deildum Rauða krossins og Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu taka þátt en björgunarsveitir leggja til bíla, báta, leitarhunda og fl.Erlendir þátttakendur verða u.þ.b. 500 talsins. Yfirmaður varnarliðsins í Keflavík er framkvæmdastjóri æfingarinnar af hálfu NATO og annarra erlendra þjóða sem taka þátt í henni en varnarliðið mun m.a. leggja til þyrlubjörgunarsveit og stórar flutningaþyrlur Bandaríkjahers. Frá Eistlandi, Belgíu og Litháen koma björgunarsveitir og sjúkraflokkar, frá Uzbekistan og Rúmeníu koma björgunarsveitir og Danir koma með tvö varðskip og þyrlur. Aðrar þjóðir sem taka þátt í æfingunni eru Austurríki, Þýskaland, Írland, Kanada, Portúgal, Holland, Noregur, England, Pólland, Svíþjóð og Slóvakía. Landhelgisgæslan og Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli hafa í sameiningu skipulagt Samvörð 2002 en undirbúningur svo fjölmennrar og umfangsmikillar æfingar er töluverður og hefur í raun staðið í rúmt ár. Þrjár undirbúningsráðstefnur með fulltrúum innlendra og erlendra þátttakenda hafa verið haldnar á því tímabili.Æfingin er þrískipt og hefst með málþingi í Reykjavík 24. júní en þar munu sérfræðingar á sviði jarðvísinda og björgunarstarfa halda fyrirlestra. Samtímis verða fyrirlestrar um öryggismál haldnir í Keflavík fyrir undirmenn sveita þátttökuríkjanna. Annar hluti æfingarinnar felst í þjálfun erlendra björgunarsveita úti á landi 25-27. júní. Sérfræðingar frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu munu sjá um þann þátt. Á sama tíma verður haldin stjórnstöðvaræfing en hún felst í samhæfingu stjórnstöðvar Samvarðar við aðrar stjórnstöðvar sem að æfingunni koma.Vettvangsæfingin, sem er aðalæfingin, fer fram 28.-30. júní. Meginverkefnið er að bjarga fólki frá eyju þar sem eldgos og jarðskjálftar ógna lífi þess, í þessu tilviki frá Vestmannaeyjum. Bregðast þarf við ýmsum áföllum eins og skemmdum á byggingum, lokun hafnar og flugvallar vegna hraunflæðis, öskufalls og klettahruns. Jafnframt þarf að slökkva elda, bjarga fólki úr skemmdum húsum, hlúa að slösuðum og sjúkum og öðru flóttafólki. Fólkið verður flutt með þyrlum og skipum í öruggt skjól í Þorlákshöfn.Fjölmiðlum verður boðið að fylgjast með æfingunni sem kynnt verður nánar þegar nær dregur. Upplýsingamiðstöð Samvarðar 2002 verður í upplýsingaskrifstofu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli í samstarfi við utanríkisráðuneytið, Landhelgisgæsluna og NATO og fyrirhugað er að opna heimasíðu þar sem m.a. verður hægt að nálgast upplýsingar um markmið æfingarinnar, þátttakendur og dagskrá. Boðað er til sérstaks kynningarfundar fyrir fjölmiðla, þriðjudaginn 18. júní, klukkan 14.30, í utanríkisráðuneytinu í gluggasal á 2. hæð.  

Kvenfélagið Aldan gefur eina milljón til kaupa á nætursjónaukum

Kvenfélagið Aldan hefur gefið eina milljón króna til kaupa á nætursjónaukum fyrir þyrlur Landhelgisgæslunnar. Til verkefnisins hafa eftirtaldir gefið auk kvenfélagsins Öldunnar: Þyrlusjóður Stýrimannaskólans í Reykjavík, fjórtán milljónir, Sjóvá-Almennar hf.  eina milljón, Rauði krossinn eina milljón og fimmtíu þúsund og dómsmálaráðuneytið hefur lagt fram sjö milljónir króna. Samtals hafa því safnast tuttugu og fjórar milljónir og fimmtíu þúsund en áætlaður heildarkostnaður er 36 milljónir.  Stefnt er að því að taka nætursjónaukana í notkun næsta haust. Nætursjónaukarnir munu verða notaðir af þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar við leit og björgun á sjó og landi.  Nætursjónaukarnir gera það að verkum að flugmenn og aðrir í áhöfnum vélanna geta séð í myrkri.  Það eykur notkunarmöguleika þyrlanna til muna og veldur því að flugmenn geta flogið þeim að nóttu til við aðstæður sem ekki var áður kleyft að athafna sig við.  Sem dæmi má nefna að björgunarflug í fjalllendi á óupplýstum svæðum hefur hingað til verið nánast óframkvæmanlegt.  Ljóst er að tæki þessi valda gjörbyltingu við leit og björgun. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Slösuð kona á Esjunni sótt með þyrlu

Laugardagur 8. júní 2002. Um kl. 13:44 hafði Neyðarlínan samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vegna konu sem hafði slasast í hlíðum Esjunnar. Konan hafði verið ásamt hópi fólks í fjallgöngu. Slysið vildi þannig til að konan var að fara yfir skafl, missti fótanna, rann niður talsverðan bratta og féll niður í grýtt fjalllendið. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, fór í loftið kl. 14:09 og lenti eins nálægt slysstaðnum og mögulegt var um kl. 14:20. Talsverð ókyrrð var í lofti og erfitt að athafna sig. Þar fóru læknir, sigmaður og lögreglumaður frá borði og gengu niður að slysstaðnum. Þangað komu einnig björgunarmenn úr neyðarsveit slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Þyrlan fór í loftið að nýju og lenti fyrir neðan slysstaðinn. Bjuggu björgunarmenn um hina slösuðu á börum og gengu með hana niður brattann að þyrlunni. Þyrlan lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi um kl. 15:37. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Síða 1 af 2