Fréttayfirlit: janúar 2003

Ný hafnakort gefin út fyrir Grundarfjörð og Þórshöfn

Fimmtudagur 30. janúar 2003. Nýverið luku Sjómælingar Íslands, sem eru deild innan Landhelgisgæslunnar, gerð tveggja nýrra hafnakorta. Kortin eru af hafnarsvæði Grundarfjarðar og Þórshafnar.  Þau tilheyra flokki hafnakorta sem útgáfa hófst á 1997 er gefið var út hafnakort fyrir Fáskrúðsfjörð. Kortin, sem orðin eru 21 talsins, eru unnin með hugbúnaði frá kanadíska fyrirtækinu CARIS sem nú er almennt notaður við sjókortagerðina.  Þau eru prentuð hjá Landhelgisgæslunni jafnóðum og pantanir berast í blaðstærð A3 í mælikvarðanum 1:10.000.  Upplýsingar um sjókort er að finna í kortaskrá Sjómælinga Íslands en finna má tengil inn á hana neðst á forsíðu heimasíðu Landhelgisgæslunnar. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands. Mynd: Hafnakort fyrir Þórshöfn. Mynd: Hafnakort fyrir Grundarfjörð.

Sjómælingamenn á námskeiði í úrvinnslu dýptarmælingagagna

Fimmtudagur 30. janúar 2003. Sjómælingamenn Landhelgisgæslunnar og tveir starfsmenn hafrannsóknarstofnunar bandaríska sjóhersins hafa undanfarið setið námskeið í úrvinnslu dýptarmælingagagna.  Eins og fram kom í frétt á heimasíðunni þann 9. ágúst í fyrra, fékk Landhelgisgæslan lánaðan fjölgeislamæli hjá bandaríska sjóhernum og hafði hann til umráða þar til fyrstu vikuna í október sl.  Hingað til hefur Landhelgisgæslan eingöngu haft eingeislamæli til sjómælinga. Munurinn á slíkum mæli og fjölgeislamæli er sá að eingeislamælirinn mælir einn punkt á hafsbotni í einu en fjölgeislamælirinn sýnir heildstæða botnmynd. Kostir við notkun fjölgeislamælis eru miklir á grunnsævi þar sem hætta er á skipsströndum ef mönnum sést yfir eina mishæð á botninum. Úrvinnsla mælingagagna úr fjölgeislamælinum er frábrugðin úrvinnslu slíkra gagna úr eingeislamæli og reyndist nauðsynlegt, bæði fyrir sjómælingamenn Landhelgisgæslunnar og hafrannsóknarstofnunar bandaríska sjóhersins, að fá kennslu í notkun sérhæfðs hugbúnaðar til úrvinnslu gagnanna. Til að draga úr kostnaði sameinuðust þessir tveir aðilar um að halda námskeið hér á landi og kom leiðbeinandi frá alþjóða hugbúnaðarfyrirtækinu CARIS sem sérhæfir sig í framleiðslu hugbúnaðar til mælinga og kortagerðar. Æfingaverkefni námskeiðsins var úrvinnsla mælingagagna sem safnað var síðastliðið sumar með fjölgeislamælinum yfir og umhverfis Klettinn í Húllinu, suð-vestur af Reykjanestá.  Við úrvinnsluna kom í ljós að Kletturinn er einungis efsti hlutinn af umfangsmiklu neðansjávarklettabelti.  Þessi nýja tækni felur í sér byltingu hvað varðar öflun upplýsinga um hafsbotninn og framsetningu þeirra. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands Mynd: Sigurður Ásgrímsson deildarstjóri tæknideild LHG:  Nemendurnir , Björn Haukur, Skip, Scott, Ágúst, og Ásgrímur ásamt Veronique leiðbeinanda. Til hliðar, á tjaldinu, má sjá móta fyrir Klettinum í Húllinu sem var æfingaverkefni námskeiðsins.

Þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út vegna strands Berglínar

Miðvikudagur 29. janúar 2003.Kl. 09:17 heyrðu starfsmenn stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar tilkynningu frá Berglínu GK-300 á rás 16 þar sem upplýst var að drepist hefði á vélum togarans í innsiglingunni til Sandgerðis.  Reykjavíkurradíó ræsti þegar út björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Hannes Hafstein, og fleiri bátar komu til aðstoðar. Í fyrstu var ekki talið að um alvarlega hættu væri að ræða vegna fjölda báta sem komu til aðstoðar.  Tilraunir til að draga togarann mistókust hins vegar í fyrstu þar sem línur slitnuðu og akkerisfestar gáfu sig.Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 10:05 er togarinn var strandaður og ljóst að um neyðarástand var að ræða.  Varnarliðinu var einnig gert viðvart og það var reiðubúið að koma til aðstoðar ef með þyrfti.  Stuttu eftir að TF-LÍF var komin á loft, kl. 10:17, kom Berglín vélum í gang og sigldi út úr strandinu með aðstoð björgunarskipsins Hannesar Hafstein sem nú fylgir Berglínu til Keflavíkur. TF-LÍF fór á staðinn og fullvissaði áhöfn þyrlunnar sig um að hennar aðstoðar væri ekki þörf áður en haldið var til Reykjavíkur.  TF-LÍF lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 10:54.  Skipstjóri Berglínar telur að enginn leki hafi komið að bátnum.Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Æfingar áhafna varðskipa hjá Slysavarnarskóla sjómanna

Þriðjudagur 28. janúar 2003.   Undanfarnar vikur hafa áhafnir varðskipanna Týs og Ægis sótt öryggisfræðslu hjá Slysavarnaskóla sjómanna.  Það er skilyrði fyrir lögskráningu sjómanna á skip að þeir hafi lokið slíku námskeiði og síðan þarf að sækja þá fræðslu á fimm ára fresti. Æfð var björgun úr sjó, reykköfun og eldvarnir. Áhafnir Ægis og Týs eru fyrstu skipsáhafnir sem fara á endurfræðslunámskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna.  Hluti námskeiðsins var haldinn á æfingasvæði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins við Úlfarsfell en þar var æfð reykköfun og slökkvistarf.    Á meðfylgjandi myndum má sjá starfsmenn Landhelgisgæslunnar  og leiðbeinendur frá Slysavarnaskóla sjómanna við æfingar og fl.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands   Mynd: Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á v/s Ægi:  Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna ásamt Halldóri Gunnlaugssyni skipherra hjá Landhelgisgæslunni   Mynd: Guðmundur St. Valdimarsson bátsm. á v/s Ægi.  Halldór Almarsson yfirleiðbeinandi í Slysavarnaskóla sjómanna ræðir við Lindu og Söru Lind, háseta í áhöfn Ægis.    Mynd: Jón Páll Ásgeirsson stýrim. á Tý.  Áhöfn v/s Týs í verklegri æfingu í björgunargöllum.   Mynd: Jón Páll Ásgeirsson stýrim. á Tý.  Björgunarnótin ,,Hjálpin" notuð við björgunarstörf.   Mynd: Jón Páll Ásgeirsson stýrim. á Tý.  ,,Skipbrotsmönnum" bjargað.  Björgunarnótin ,,Hjálpin" notuð. Leiðbeinandi frá Slysavarnaskóla sjómanna ásamt Jóni , Jóni Árna, Hauki og Birgi.   Mynd: Jón Páll Ásgeirsson, stýrim. á Tý.  Steinunn og Jónas eftir reykköfun í gámi.   Mynd: Jón Páll Ásgeirsson, stýrim. á Tý.  Eftir reykköfun í gámi: Sigursteinn, Haukur Davíð, Björn og Thorben.   Mynd: Guðmundur St. Valdimarsson bátsm. á Ægi.  Áhöfn v/s Ægis á bóklegum þætti námskeiðsins  

Fjörutíu og þrjú ár frá komu varðskipsins Óðins

Mánudagur 27. janúar 2003. Í dag eru liðin 43 ár frá því að varðskipið Óðinn kom til landsins. Árið 1960 var Óðinn talinn veglegt skip en hann er 880 lestir að stærð og ganghraði 18 sjómílur. Það var Eiríkur Kristófersson skipherra sem tók við þessu nýjasta og stærsta gæsluskipi flotans.  Þá var fiskveiðilögsagan 12 sjómílur eða alls 75.000 ferkílómetrar og alls sex varðskip við löggæslustörf á hafinu, Albert, María Júlía, Sæbjörg, Þór og Ægir auk nýja Óðins.   Í dag er fiskveiðilögsagan 200 sjómílur eða alls 754.000 ferkílómetrar.  Nú eru aðeins tvö varðskip við gæslustörf en það er sögulegt lágmark.  Þetta jafngildir því að eitt skip gæti 377.000 ferkílómetra svæðis en við komu Óðins árið 1960 var eitt varðskip fyrir hverja 12.500 ferkílómetra. Í dag eru á varðskipunum 36 manns eða 18 í hverri áhöfn.  Árið 1960 voru hins vegar varðskipsmenn alls 114 en skiptingin var þannig að 27 manna áhafnir voru á þremur skipum og 11 manna áhafnir á öðrum þremur. Á þessum tíma var ein flugvél notuð við eftirlit á hafinu eins og í dag en síðan þá hafa 2 þyrlur bæst við sem aðallega eru notaðar við björgunarstörf og lítillega við eftirlit.  Fyrir 11 árum, á 32. ára afmæli varðskipsins, skrifaði Sigurður Steinar Ketilsson skipherra grein í Gæslutíðindi um Óðinn.  Þar segir m.a.: Hinn 27. janúar 1960 kom til landsins nýtt og fullkomið varðskip til Landhelgisgæslunnar sem hlaut nafnið Óðinn.  Þetta er þriðja varðskip Landhelgisgæslunnar sem ber það nafn. Skipinu var fagnað innilega af miklum mannfjölda og blöktu fánar víða við hún í tilefni af komu skipsins.  Bjarni Benediktsson þáverandi dómsmálaráðherra flutti ávarp af stjórnpalli skipsins, bauð skip og skipshöfn velkomna og árnaði sérstaklega forstjóra Landhelgisgæslunnar og skipherra heilla og sagði að þeir væru fyrirmyndar fulltrúar íslensku Landhelgisgæslunnar.  Forseti Íslands, ráðherrar, alþingismenn, embættismenn, starfsmenn Landhelgisgæslunnar og stjórn SVFÍ skoðuðu skipið í fylgd Péturs Sigurðssonar forstjóra, einnig var skipið almenningi til sýnis.  Í fyrstu ferð skipsins fór það hringinn í kringum landið, var forráðamönnum, velunnurum Landhelgisgæslunnar og almenningi á hinum ýmsu stöðum úti á landi boðið um borð. Landhelgisgæslan hafði gert ráð fyrir að kostnaður við viðhald á vélum Óðins, skv. kröfum flokkunarfélags varðskipanna, Lloyds Register of Shipping, næmi 40-80 milljónum króna á þessu ári.  Við skoðun á fjórum stimplum í aðalvélum skipsins kom í ljós að ástand þeirra var í góðu lagi og var þá ákveðið af flokkunarfélagi skipsins að ekki þyrfti að taka upp fleiri stimpla í vélunum.  Nú lítur út fyrir að kostnaður við að koma Óðni í nothæft ástand verði um 12 milljónir en ef ekkert hefði verið gert við skipið hefði verðgildi þess verið metið til brotajárns. Vegna þessa telur Landhelgisgæslan mun heppilegra að gera Óðinn út áfram, á meðan beðið er eftir nýju varðskipi, heldur en að leggja Óðni og leigja hafrannsóknarskip en það kostar u.þ.b. milljón á dag. Auk þess fylgir því talsverður kostnaður að útbúa skip Hafrannsóknarstofnunar og skrá það til landhelgisgæslustarfa. Takist að koma Óðni í haffært ástand er hægt að nota það áfram og jafnvel selja það.  Vegna þessa telur Landhelgisgæslan æskilegt að þær 24 milljónir, sem fjárveitingavaldið hefur ætlað Landhelgisgæslunni til leigu á hafrannsóknarskipi, fari í að auka skiparekstur stofnunarinnar. Á meðfylgjandi myndum má sjá móttökurnar þegar varðskipið Óðinn kom til landsins 27. janúar 1960 og kort sem sýnir útfærslur fiskveiðilögsögunnar. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Sjúkraflug TF-LÍF með veikan sjómann frá Rifi á Snæfellsnesi

Sunnudagur 26. janúar 2003.  Haft var samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í nótt kl. 3:36 vegna veiks skipverja um borð í línubátnum Valdimari GK-195 en báturinn var þá staddur 11 sjómílur suður af Malarrifi.  Gefið var samband við lækni í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar og taldi hann nauðsynlegt að sækja skipverjann með þyrlu.   Áhöfn TF-LÍF var kölluð út kl. 3:51 og var þyrlan komin í loftið kl. 4:43.  Áhöfnin var búin nætursjónaukum en þeir komu ekki að gagni að þessu sinni þar sem birtuskilyrði voru of léleg svo hægt væri að nota þá.  Það skýrist af því að ekkert tungsljós var og skyggni slæmt vegna veðurs en á svæðinu var mikil rigning og vindur um 15 m. á sek.   Vegna ástands sjúklingsins, veðurs og mikils veltings var ekki talið rétt að hífa sjúklinginn um borð í þyrluna og var því ákveðið að báturinn sigldi til Ólafsvíkur þar sem þyrlan gæti sótt hann.  Þyrlan lenti stuttu síðar á Rifi og fóru stýrimaður og læknir úr áhöfninni til Ólafsvíkur og aðstoðuðu við að undirbúa sjúklinginn undir flutning. TF-LÍF fór frá Rifi kl. 8:30 og lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 9:24.  Þar beið sjúkrabifreið og flutti sjúklinginn á Landspítala Háskólasjúkrahús.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands  

Kafarar Landhelgisgæslunnar aðstoða við leit að týndum sjómanni

Miðvikudagur 22. janúar 2003. Landhelgisgæslan var beðin um aðstoð kl. 16 í gær vegna leitar að skipverja af loðnuskipinu Jónu Eðvalds SF-20 sem gerður er út frá Hornafirði.  Landhelgisgæslan sendi varðskip til Seyðisfjarðar og hófu þrír kafarar varðskipsins leit í höfninni í samráði við lögregluna á staðnum.  Köfun var hætt kl. 21 vegna myrkurs og slæms skyggnis í sjó.  Í morgun hófu kafarar leit að nýju ásamt einum kafara frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg.  Aðstæður eru ekki góðar þar sem mikið dýpi er í höfninni og leitarsvæði stórt.  Kafarar Landhelgisgæslunnar hættu leit í höfninni kl. 17 en hún hefur engan árangur borið. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands Ljósmynd: SA 6/1998. Loðnuskipið Jóna Eðvalds.  Birt með leyfi sjávarútvegsvefs Skerplu.  

Stýrimenn Landhelgisgæslunnar í starfsþjálfun á slysadeild

Mánudagur 20. janúar 2003. Stýrimenn Landhelgisgæslunnar hafa verið í starfsþjálfun á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss.  Stýrimennirnir hafa all flestir sótt sjúkraflutninganámskeið og eru fullgildir sjúkraflutningamenn.  Þeir hafa tekið vaktir á sjúkrabifreiðum höfuðborgarinnar með vissu millibili til þess að fá þjálfun í að bregðast við slysum og veikindum og við bætist þessi starfsþjálfun á slysadeildinni. Í starfi sínu þurfa stýrimenn Landhelgisgæslunnar að vera vel undir það búnir að takast á við slys og veikindi sem verða á hafinu og úti á landi, bæði stýrimenn á varðskipum og í flugdeild. Góð samvinna er milli Landhelgisgæslunnar og slysadeildar Landspítala Háskólasjúkrahúss en þess ber að geta að læknir frá spítalanum er ávallt í áhöfn þyrla Landhelgisgæslunnar í björgunar- og sjúkraflugi. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands Mynd:   Stýrimennirnir Gunnar Örn Arnarson og Jón Páll Ásgeirsson  ásamt læknum af slysadeildinni, þeim Sigurði Kristinssyni (fyrsta lækninum sem fór með varðskipi í Smuguna) og Snorra Björnssyni.  

Sjúkraflug til Snæfellsness í morgun

Fimmtudagur 16. janúar 2003. Læknir á Ólafsvík hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í morgun og óskaði eftir aðstoð vegna alvarlega veiks manns.  Læknir í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar taldi í samráði við lækninn á Ólafsvík að nauðsynlegt væri að flytja manninn með flugi til Reykjavíkur og leggja hann inn á sjúkrahús. Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-SIF fór í loftið kl. 9:30 og var stefnan tekin á Rif en gert var ráð fyrir að lenda þar kl. 10. Á Rifi var snjókoma og skafrenningur, hitastig -4°C og vindhraði 14 metrar á sekúndu. Vegna veðurs og slæms skyggnis tókst ekki í fyrstu tilraun að lenda þyrlunni á flugvellinum á Rifi en gerð var önnur tilraun og lenti þyrlan þar kl. 10:30. Þyrlan fór frá Rifi kl. 10:49 og lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 11:34 þar sem sjúkrabifreið beið þess að flytja sjúklinginn á Landspítala Háskólasjúkrahús. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands Mynd af TF-SIF: Baldur Sveinsson

Sprengjuhleðsla úr tundurdufli fannst í veiðarfærum kúfiskveiðibátsins Fossár

Þriðjudagur 14. janúar 2003. Skipstjóri kúfiskveiðibátsins Fossár ÞH-362 fann torkennilegan hlut í veiðarfærum sínum er hann var að kúfiskveiðum inni á Vöðlavík seinnipart sl. sunnudags.  Þar sem hann grunaði að um tundurdufl væri að ræða hafði hann samband við Landhelgisgæsluna.  Eftir að skipstjórinn hafði lýst hlutnum fyrir sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar kom í ljós að um var að ræða 135 kílóa hleðslu úr bresku tundurdufli frá seinni heimstyrjöldinni.  Breski sjóherinn lagði þúsundir tundurdufla í hafið suðaustur af landinu á styrjaldarárunum.  Það var gert til  að hindra þýsk skip og kafbáta í að komast inn á Norður-Atlantshaf sjóleiðina milli Íslands og Færeyja og ráðast þar á kaup- og herskip bandamanna. Tundurduflið var án hvellhettu og forsprengju en var þó í tiltölulega góðu ástandi.  Eftir rannsókn kom í ljós að tundurduflið innihélt TNT en það helst algerlega virkt þrátt fyrir að hafa verið meira en 60 ár á hafsbotni. Sprengjuhleðslan var flutt frá Fossá yfir í varðskip Landhelgisgæslunnar á sunnudagskvöld og þá gat Fossá haldið áfram ferð sinni.  Varðskipið lagðist við akkeri fyrir utan Neskaupstað aðfaranótt mánudags og beið þar sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar.  Lögreglan aðstoðaði þá í gær við að flytja duflið á eyðingarstað sem lögreglan lokaði á meðan á aðgerðum stóð.  Vegna aðstæðna og nálægðar við byggð var duflið brennt en ekki sprengt.  Sú aðgerð er ekki hættulaus og tekur mislangan tíma eftir því hvaða sprengiefni á í hlut. Í þetta skiptið brann hleðslan á tæpum fimm tímum og lögreglan aflýsti hættuástandi á svæðinu kl. 17:30.  Sjá mynd af sprengjuhleðslunni sem fannst í veiðarfærum Fossár. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

Fyrrverandi skipherrar Landhelgisgæslunnar prófa nýjan stýrisbúnað varðskipa

Fimmtudagur 16. janúar 2003 Forstjóri Landhelgisgæslunnar bauð nýlega fyrrum skipherrum Landhelgisgæslunnar að prófa nýjan stýrisbúnað varðskipanna.  Var farið í stutta ferð um Kollafjörðinn á varðskipinu Ægi áður en það lagði af stað í lengri ferð. Tilgangur ferðarinnar var að gefa þeim kost á að kynna sér breytingar á stjórnhæfni varðskipanna Ægis og Týs eftir að tvö ný stýri voru sett á þau í Póllandi árið 2001. Breytingin var gerð eftir að Rannsóknarnefnd sjóslysa benti á í nefndaráliti árið 1997 ,,að varðskip eins og Ægir sé ekki með fullnægjandi stjórnbúnað til siglingar við erfiðar aðstæður til björgunar þar sem um er að ræða eitt stýrisblað á milli tveggja skrúfa.  Tveggja skrúfu skip þurfi að vera búið tveimur stýrisblöðum, stýrisblaði fyrir aftan hvora skrúfu.” Það kom fram í máli Guðmundar Kjærnested að vissulega hefðu stýrin góða eiginleika en hafði áhyggjur af því að stýrin væru í hættu ef skipin lentu í hafís. Eðlilega þarf að hafa það í huga þegar siglt er við slíkar aðstæður. Starfandi skipherrar Landhelgisgæslunnar eru á einu máli um að orðið hafi gjörbreyting á stjórnhæfni skipanna til batnaðar, enn meiri en tilraunasiglingar í tanki gáfu til kynna. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands Mynd: Halldór B. Nellett skipherra á varðskipinu Ægi ásamt fyrrverandi skipherrum en þeir eru Ólafur Valur Sigurðsson, Sigurður Þ. Árnason, Þröstur Sigtryggsson og Guðmundur Kjærnested.

Hafís á Vestfjarðamiðum

Fimmtudagur 9. janúar 2003. Landhelgisgæslan sér um ískönnunarflug þegar tilefni gefst. Í gær var TF-SYN send í slíkt flug og kom í ljós að hafís er kominn inn fyrir lögsögu út af Vestfjarðamiðum og næst landi er hann 48 sjómílur norðvestur af Straumnesi.  Ísinn er talsvert þéttur og má þar greina stóra borgarísjaka sem eru allt að 400 fet á hæð. Landhelgisgæslan mun fylgjast með hver þróunin verður. Áhöfn TF-SÝN tók meðfylgjandi myndir af ísjökunum í eftirlitsfluginu. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Ice Bear sokkinn

Miðvikudagur 1. janúar 2003. Björgunarmiðstöðin í Færeyjum hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 21:12 og lét vita að norska flutningaskipið Ice Bear væri sokkið 75 sjómílur austur af Hvalbak.  Björgunarmiðstöðin hafði fengið tilkynningu um það frá færeyska dráttarbátnum Goliat sem gera átti tilraun til að bjarga Ice Bear.         Ice Bear sökk á togslóð og er nákvæm staðsetning 64°23,7˜N – 011°18,4˜V. Tryggingafélag Ice Bear hafnaði aðstoð Landhelgisgæslunnar eftir að það hafði náð samningum við útgerð færeyska dráttarbátsins.  Varðskip var þó viðbragðsstöðu og reiðubúið að sigla á staðinn. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands