Fréttayfirlit: febrúar 2003

Sjúkraflug TF-LÍF vegna alvarlegs bílslyss við Rauðasand

Föstudagur 28. febrúar 2003. Lögreglan á Patreksfirði hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 22:57 í gærkvöldi og óskaði eftir þyrlu til að sækja alvarlega slasaðan mann sem lent hafði í bílslysi við Rauðasand.  Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út og fór TF-LÍF í loftið kl. 23:27.  Lent var við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 01:41. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Varðskipsmenn skipta um öldudufl

Meðfylgjandi myndir voru nýlega teknar vestur af Blakksnesi á Vestfjörðum er skipverjar á varðskipinu Tý unnu við að skipta um öldudufl.  Duflin hafa þann tilgang að mæla ölduhæð og eru upplýsingar úr þeim sett á heimasíðu Siglingastofnunar þar sem sjómenn geta séð, áður en þeir halda í siglingu, hver ölduhæðin er á þeim hafsvæðum sem duflin eru staðsett á. Það er mikið öryggisatriði fyrir sjómenn að hafa þessar upplýsingar.   Skipta þarf duflunum út á nokkurra mánaða fresti þar sem rafhlöður þeirra hafa takmarkaðan endingartíma. Landhelgisgæslan sér um að skipta um duflin fyrir Siglingastofnun.  Starfsmenn Siglingastofnunar sjá um að yfirfara þau og skipta um rafhlöður í þeim.  Komið hefur fyrir að skip sigla á duflin og þau skemmast eða þau týnast. Sem dæmi má nefna að ölduduflið við Garðskaga slitnaði eitt sinn upp og fannst fyrir rest inni á Breiðafirði.   Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Siglingastofnunar er hæð öldu mæld frá öldudal að næsta öldutoppi.  Notuð eru tvö gildi fyrir öldu, kennialda sem er 2,7 m. og meðaltalssveiflutími í sek.    Öldudufl eru staðsett við Garðskaga, Blakksnes, Straumnes, Malarhorn, Grímseyjarsund, Hornafjörð, Surtsey, Grindavík og Kögur.     Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands     Mynd:Landhelgisgæslan/Jón Páll Ásgeirsson stýrim.  Guðjón Óli Sigurðsson háseti hreinsar ölduduflið sem verið var að skipta út.  Mikill gróður sest á duflin með tímanum. Mynd: Landhelgisgæslan/Tómas Pálsson háseti á v/s TÝ.  Duflið tilbúið í léttbát varðskipsins Týs.  Frá vinstri eru Guðjón Óli Sigurðsson háseti, Jón Árni Árnason bátsmaður og Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður.            

Tveir menn björguðust er Draupni GK-39 hvolfdi 9 sjómílur frá Hópsnesi

Miðvikudagur 26. febrúar 2003. Flugstjórn hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 12:33 og tilkynnti að flugvélar hefðu numið neyðarsendingar yfir Suð-Vesturlandi.  Stuttu síðar hafði Tilkynningarskylda íslenskra skipa samband og lét vita að mótorbátsins Draupnis GK-39 væri saknað en sjálfvirkar tilkynningar voru hættar að berast frá honum.  Talið var að báturinn hafi síðast verið staddur 9 sjómílur suð-suð-austur af Hópsnesi.  Áhöfn TF-LÍF var kölluð út kl. 12:41 og fór hún í loftið 17 mín. síðar, kl. 12:58.  Eftir stundarfjórðung fann hún gúmmíbjörgunarbát með tveimur mönnum í á svæðinu.  Mótorbáturinn Mummi GK-121 var staddur 100 metra frá gúmmíbjörgunarbátnum og var ákveðið að láta skipbrotsmennina fara um borð í Mumma þar sem það var talið öruggara en að hífa mennina um borð í þyrluna.  TF-LÍF var í hangflugi yfir staðnum á meðan kannað var hvort skipbrotsmennirnir væru heilir á húfi og hélt síðan til Reykjavíkur þar sem hún lenti kl. 13:43.  Mótorbáturinn Mummi sigldi til Grindavíkur með mennina tvo og björgunarbátur Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Oddur V. Gíslason, náði að draga Draupni GK-39 til hafnar. Hann hafði marað á hvolfi í sjónum skammt frá staðnum þar sem gúmmíbjörgunarbáturinn fannst.Draupnir er 8 tonna plastbátur, smíðaður 1977 og gerður út frá Grindavík.  Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

Kafarar Landhelgisgæslunnar hreinsuðu veiðarfærin úr skrúfu Hrafns GK-111

Laugardagur 22. febrúar 2003. Er varðskip hafði dregið Hrafn GK-111 til Hafnarfjarðar í gær, var hafist handa við að hreinsa veiðarfærin úr skrúfunni.  Sex kafarar Landhelgisgæslunnar unnu frá kl. 16:12 í gær til kl. 5:37 í morgun, eða í rúmlega 13 klst., við að hreinsa skrúfuna.  Hrafn hafði misst botnvörpuna og þegar reynt var að slæða hana upp, skaut henni undir skipið og festist hún þá í skrúfunni.  Hrafn hélt til veiða að nýju fljótlega eftir að kafarar höfðu lokið störfum.  Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands   Mynd: Jón Páll Ásgeirsson stýrim. á v/s TÝ.  Á myndinni eru Baldur Árnason háseti á TÝ og Friðrik Friðriksson varðstjóri í stjórnstöð en báðir starfa einnig sem kafarar hjá LHG. Mynd: Jón Páll Ásgeirsson stýrim. á v/s TÝ. Hrafn GK-111 að koma inn til Hafnarfjarðar.        

Varðskip aðstoðar togarann Hrafn GK-111

Fimmtudagur 20. febrúar 2003. Haft var samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 1:14 í nótt vegna togarans Hrafns GK-111 sem var með veiðarfæri í skrúfunni 90 sjómílur vestnorðvestur frá Látrabjargi.  Varðskip var í 8 klst. fjarlægð frá skipinu og hélt þegar í stað til aðstoðar. Kafari er um borð í varðskipinu en ekki var unnt að kafa niður að skrúfu togarans eins og aðstæður voru.  Varðskipið er nú á leið til Hafnarfjarðar með Hrafn GK-111 í drætti. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Útkall vegna slyss við Kárahnjúkagöng

Miðvikudagur 19. febrúar 2003.Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 3:25 og tilkynnti um slys við Kárahnjúkagöngin en þar hafði grjót hrunið yfir mann í gangamunnanum.  Þá var læknir á leiðinni með sjúkrabíl á slysstað.  Kl. 3:51 óskaði læknirinn eftir þyrlu þar sem vegir á svæðinu væru erfiðir yfirferðar og það gæti tekið hann eina og hálfa til tvær klukkustundir að komast á  leiðarenda.     Þyrluáhöfn var kölluð út kl. 3:55 og fór TF-LÍF í loftið kl. 5:12.  Eftir að læknir hafði komist til sjúklingsins með sjúkrabílnum var það sameiginlegt mat hans og læknis í áhöfn þyrlunnar að maðurinn væri ekki það mikið slasaður að þyrlan þyrfti að sækja hann.  Ákveðið var að flytja hann með sjúkrabíl til Egilsstaða.  TF-LÍF sneri til baka til Reykjavíkur kl. 6:23 og lenti 7:46.  Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands

Mannbjörg varð er mjölflutningaskipið Trinket strandaði í innsiglingunni til Grindavíkur - Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar setti nýtt met í viðbragðsflýti

Mánudagur 17. febrúar 2003 Mannbjörg varð er mjölflutningaskipið Trinket tók niðri í slæmu veðri í innsiglingunni til Grindavíkur um hádegisbilið í dag.  Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út en er hún kom á staðinn hafði björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Oddi V. Gíslasyni frá Grindavík, tekist að koma taugum í skipið og draga það til hafnar. Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli var einnig í viðbragðsstöðu.Reykjavíkurradíó hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 12:49 og tilkynnti um vélarvana skip sem ætti í erfiðleikum í innsiglingunni til Grindavíkur.  Þá var búið að kalla út björgunarsveitir á Suðurnesjum.  Neyðarlínan hringdi mínútu síðar og gaf samband við hafnarstjórann í Grindavík sem óskaði eftir þyrlu til aðstoðar vegna skipsins sem hafði tekið niðri í innsiglingunni. Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út, þ.e. kl. 12:54 og fór TF-LÍF í loftið 11 mínútum síðar eða kl. 13:05. Þar með var sett nýtt met í viðbragðsflýti samkvæmt upplýsingum flugdeildar Landhelgisgæslunnar. Um er að ræða mjölflutningaskip á vegum Eimskip sem kallast Trinket en það er 1574 brt. að stærð. Um borð voru 6 skipverjar. Hafnarstjórinn í Grindavík tilkynnti kl. 13:13 að tekist hefði að koma taugum í skipið og draga það til hafnar. TF-LÍF hélt til Reykjavíkurflugvallar kl. 13:22 og lenti þar kl. 13:31. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði vélsleðakonu við Landmannalaugar

Sunnudagur 16. febrúar 2003.   Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 12:36 vegna konu sem lent hafði í erfiðleikum á vélsleða skammt norður af Landmannalaugum.  Sleðinn hafði lent í krapa og var talið að hann væri að sökkva en konan stóð uppi á sleðanum.  Haft var samband við björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem voru staddar í 10 km. fjarlægð frá konunni en vegna aðstæðna á staðnum var ljóst að þær næðu ekki til hennar í tæka tíð.   Áhöfn TF-LÍF var þá kölluð út.    Á Reykjavíkurflugvelli var mjög slæmt veður, allt að 25 m. á sek. en þyrlan fór í loftið kl. 13:32.  Er kl. var 14:43 tókst áhöfn þyrlunnar að ná konunni um borð og var hún heil á húfi.  Vegna veðurofsans voru efasemdir um að þyrlan næði að fljúga til Reykjavíkur og hafði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar því samband við Flugbjörgunarsveitina á Hellu og óskað eftir að hún hefði tiltæka stóra bíla til að skorða þyrluna af ef hún þyrfti að lenda þar. Það reyndist ekki nauðsynlegt og lenti þyrlan á Reykjavíkurflugvelli kl. 15:35.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands  

XXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXx

Miðvikudagur 12. febrúar 2003. Það var mat læknis, er risaolíuskipið Dundee kallaði eftir aðstoð vegna slasaðs sjómanns, að ekki þyrfti að sækja hinn slasaða með þyrlu.  Flugveður var slæmt og áverkar mannsins ekki það alvarlegir að nauðsynlegt væri að flytja hann á sjúkrahús í hasti.  Hins vegar var það talið heppilegra, að sækja manninn við fyrsta tækifæri, heldur en að segja skipstjóra olíuskipsins að sigla áleiðis til hafnar.  Risaolíuskipið Dundee er einbotna skip og ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir íslenskt þjóðarbú ef slíkt olíuskip yrði fyrir óhappi við Íslands strendur. Því var tekin ákvörðun um að sækja hinn slasaða heldur en að fá olíuskipið nær landi. 

Heimsókn samgöngunefndar Alþingis til Landhelgisgæslu Íslands

Miðvikudagur 12. febrúar 2003. Meðfylgjandi myndir voru teknar nýlega er fulltrúar samgöngunefndar Alþingis heimsóttu Landhelgisgæsluna og kynntu sér starfsemi hennar. Mynd Sigurður Ásgrímsson: Adrian King sprengjusérfræðingur sýnir fulltrúum samgöngunefndar ýmsar gerðir heimatilbúinna sprengja og verkfæri sem notuð eru til sprengjueyðingar.  Frá vinstri: Adrian King, Kristján L. Möller alþm., Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri, Þorgerður Gunnarsdóttir alþm., Guðmundur Hallvarðsson alþm. og formaður samgöngunefndar, Ágúst Geir Ágústsson nefndarritari og Sigurður Steinar Ketilsson yfirmaður gæsluframkvæmda. Mynd: Sigurður Ásgrímsson.  Hafsteinn Hafsteinsson, Kristján L. Möller, Þorgerður Gunnarsdóttir, Guðmundur Hallvarðsson og Ágúst Geir Ágústsson ásamt Jónasi Þorvaldssyni starfsmanni Landhelgisgæslunnar en hann er í sérstökum hlífðarbúningi sem sprengjusérfræðingar klæðast við störf sín.

TF-SIF í 500 tíma skoðun

Þriðjudagur 11. febrúar 2003. Um þessar mundir eru flugvirkjar Landhelgisgæslunnar að framkvæma svokallaða 500 tíma skoðun á  minni þyrlu stofnunarinnar TF SIF.  Slitfletir, gangverk, þar með talið aflvélar, þyrilblöð, gírkassar og burðarvirki vélarinnar eru yfirfarin og lagfærð eftir því sem nauðsyn krefur.  Skoðun sem þessi er framkvæmd  á u.þ.b. tveggja ára fresti. Gert er ráð fyrir að skoðunin muni taka  3-4 vikur.  Að henni lokinni verður vélin prófuð og henni reynsluflogið til að ganga úr skugga um að öll kerfi hennar starfi eðlilega. SIF er af gerðinn Aerospatiale SA365N.  Hún kom til landsins ný árið 1985 og er því nokkuð komin til ára sinna.  Vélinni hefur verið flogið um 6.000 flugstundir á þeim tíma.  Sjá meðfylgjandi myndir úr flugskýli Landhelgisgæslunnar. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Flak Northrop-flugvélarinnar á botni Skerjafjarðar friðlýst

Þriðjudagur 11. febrúar 2003. Fornleifavernd ríkisins hefur gefið út friðlýsingarskjal þar sem flak Northrop flugvélarinnar sem fannst í Skerjafirði 27. ágúst 2002 er friðlýst.  Friðlýsingin felur í sér köfunarbann yfir flakinu og í 20 metra radíus í kringum það.  Friðlýsingin gildir þar til annað verður ákveðið af Fornleifavernd ríkisins í samráði við Landhelgisgæslu Íslands og dómsmálaráðuneyti.  Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar hafa haft yfirumsjón með köfun við flakið og rannsókn á því. Þeir hafa aflað sér margvíslegra heimilda um það m.a. frá Northrop Gruman verksmiðjunum, flugsafninu í Kaliforníu og breska og norska sendiráðinu. Eins og áður hefur komið fram fannst vélin með fjölgeislamæli sem bandaríski sjóherinn lánaði Landhelgisgæslunni síðasta sumar.  Einu merkingarnar sem hafa fundist á vélinni eru norskir einkennislitir undir vængjum og númer á olíukæli.  Flugvélin var í notkun á stríðstímum og því má reikna með sprengjum í eða við flakið.  Ekki hefur verið staðfest hvort áhöfn vélarinnar fórst er hún sökk á sínum tíma og hvort líkamsleifar eru í vélinni. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands Mynd: Hrafnhildur Steinarsdóttir LHG.  Á myndinni eru starfsmenn LHG, Sigurður Ásgrímsson og Adrian King sprengjusérfræðingar, Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi og Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður Fornleifaverndar. Mynd Adrian King: Kafarar og sprengjusérfræðingar að störfum um borð í Baldri er unnið var að rannsókn flugvélarflaksins á botni Skerjafjarðar. Þrívíddarmynd unnin uppúr mæligögnum úr fjölgeislamælinum af flugvélarflakinu á botni Skerjafjarðar

Sjúkraflug þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, í oliuskipið Dundee

Mánudagur 10. febrúar 2003. Síðastliðna nótt barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar ósk um aðstoð frá Alþjóðlegu fjarlækningamiðstöðinni í Róm (International Radio Medical Centre) vegna slasaðs manns um borð í risaolíuskipinu Dundee sem áætlað var að yrði statt 60 sjómílur suður af Reykjavík um kl. 8 í morgun. Slasaði maðurinn er pólskur og var sagður tvírifbeinsbrotinn.  Þyrlulæknir í áhöfn TF-LÍF var gefið samband við skipið og var ekki talið að maðurinn væri í lífshættu.  Eftir að veður hafði gengið nokkuð niður kl. 12:33 fór TF-LÍF í loftið og var komin að skipinu kl. 13:25.  Greiðlega gekk að ná hinum slasaða um borð í þyrluna þrátt fyrir erfið veðurskilyrði en við hífingu var skyggni um 3 km. og vindhraði 35 hnútar ( 19 m. á sek.).  TF-LÍF lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 14:29 en þar beið sjúkrabíll eftir hinum slasaða og var hann fluttur á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Olíuskipið Dundee er 156.408 brúttótonn, 332 metrar að lengd, 58 metrar að breidd og mesta djúprista þess er 28.1 metri.  Skipið er skráð í Monróvíu í Líberíu. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  Mynd: Flugdeild LHG.  Risaolíuskipið Dundee.

Sjúkraflug TF-LÍF til Stykkishólms

Föstudagur 7. febrúar 2003. Læknir á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 9:31 vegna hjartveiks manns sem þurfti að komast tafarlaust á sjúkrahús í Reykjavík.  TF-LÍF fór í loftið kl. kl. 9:56 og var komin til Stykkishólms kl. 10:26.  Þaðan var haldið af stað kl. 11 og lent á Reykjavíkurflugvelli kl. 11:33.  Þar beið sjúkrabíll sem flutti sjúklinginn á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut. Ekki er vitað um líðan sjúklingsins að svo stöddu. Flugið tókst vel en ókyrrð var í lofti yfir Snæfellsnesi, skýjað og éljagangur. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

Æfingar með þyrlum Varnarliðsins

Þriðjudagur 4. febrúar 2003. Nýlega æfði þyrla Varnarliðsins björgun með varðskipinu Ægi en slíkar æfingar eru haldnar reglulega og þá að frumkvæði Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.  Þyrlur Varnarliðsins nota nú svipaðar aðferðir og þyrlusveit Landhelgisgæslunnar við hífingar úr skipum.  Árið 2001 fóru starfsmenn Landhelgisgæslunnar í kynningarheimsókn til Varnarliðsins og var þá meðal annars fjallað um þann mismun sem er á aðferðum þyrlusveitanna við björgun.  Þá hafði þyrlusveit Landhelgisgæslunnar ekki fengið nætursjónauka og vildi læra af þyrlusveit Varnarliðsins í þeim efnum.  Þyrlusveit Varnarliðsins vildi á móti kynna sér þá tækni sem Landhelgisgæslumenn nota við hífingar úr skipum, þ.e. hífing með tengilínu. Nú hefur Landhelgisgæslan fengið nætursjónaukana og þyrlur Varnarliðsins farnar að nota svipað vinnulag og Landhelgisgæslan við hífingar. Gott samstarf er á milli Landhelgisgæslunnar og Varnarliðsins. Sjá meðfylgjandi myndir af björgunaræfingu sem Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á v/s Ægi tók.  Nánari upplýsingar um þær aðferðir sem notaðar eru við móttöku þyrlu um borð í skipum má finna á vef Landhelgisgæslunnar í dálkinum fræðsla. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands Mynd: Þyrla Varnarliðsins sveimar yfir varðskipinu Ægi. Mynd: Börurnar komnar um borð í varðskipið. Mynd:  Allt klárt fyrir hífingu. Mynd: Tengilínan er notuð svo að þyrlan þurfi ekki að vera yfir skipinu allan tímann.  Bannað er að festa tengilínuna við skipið. Mynd: Tengilínunni kastað frá borði.        

Sjúkraflug TF-LÍF vegna umferðarslyss á sunnanverðu Snæfellsnesi

Sunnudagur 2. febrúar 2003. Læknir í Borgarnesi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 17:41 og tilkynnti um umferðarslys á þjóðveginum skammt frá bænum Hömluholti í Eyja- og Miklaholtshreppi á sunnanverðu Snæfellsnesi.  Tvær bifreiðar höfðu skollið saman og var talið að tveir væru alvarlega slasaðir en fjórir minna slasaðir.  Þá voru sjúkrabifreiðar á leið á slysstað frá Borgarnesi og Stykkishólmi.  Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út og fór TF-LÍF í loftið kl. 18:13.  Þyrla Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli var einnig í viðbragðsstöðu. TF-LÍF lenti við afleggjarann að Laugagerðisskóla en vegna ókyrrðar í lofti var ekki hægt að lenda við slysstaðinn.  Sjúkrabílar komu síðan til móts við þyrluna með hina slösuðu.  Eftir að læknir í áhöfn TF-LÍF hafði kannað ástand þeirra var ákveðið að flytja eina konu með þyrlunni en aðrir voru fluttir með sjúkrabíl á næsta sjúkrahús eða fengu að fara heim eftir skoðun læknis. Konan sem flutt var með þyrlunni hafði verið ökumaður annars bílsins.  Að sögn læknis á Landspítala Háskólasjúkrahúsi í Fossvogi var hún ekki talin alvarlega slösuð en var lögð inn á sjúkrahúsið til eftirlits. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Ólafsvík var mikil hálka og skafrenningur á slysstað. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands