Fréttayfirlit: júlí 2003

Íslendingur sem týndist á hraðbáti í Norðursjó kominn í leitirnar

Fimmtudagur 10. júlí 2003.   Íslenskur maður sem týndist á hraðbáti í Norðursjó er nú kominn í leitirnar heill á húfi.   Björgunarstjórnstöðin í Stavanger hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 22:48 í gærkvöldi og tilkynnti að hraðbáts með einum manni innanborðs væri saknað í Norðursjó.  Maðurinn, sem er íslenskur, hafði lagt af stað frá Husnes suður af Bergen í Noregi og var í samfloti með seglskútunni Elding en þar eru einnig Íslendingar um borð.  Er komið var að borpallinum Frigg í Norðursjó ákvað maðurinn að sigla í kringum hann og lagði af stað í þá ferð kl. 18 er hann hafði tekið eldsneyti frá skútunni.  Ætlaði hann að hitta félaga sína á seglskútunni u.þ.b. klst. síðar.  Er hann kom ekki til baka eins og ætlað var létu félagar hans á Eldingu vita að hans væri saknað.  Flugvélar, þyrlur og skip tóku þátt í leitinni sem stóð í alla nótt og fram undir hádegi í dag.   Í morgun hafði björgunarstjórnstöðin í Stavanger samband og bað stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að koma upplýsingum um leitina á framfæri við ættingja mannsins hér á landi.  Um kl. 11:52 var svo tilkynnt að hann hefði fundist heill á húfi u.þ.b. 50 sjómílum frá þeim stað er hann ráðgerði að hitta félaga sína eða 45 sjómílur austur af Shetlandseyjum.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti slasaðan rússneskan sjómann

Mánudagur 7. júlí 2003. Umboðsmaður rússneska togarans Marshal Krylov hafði samband við Landhelgisgæsluna í gærkvöldi og lét vita að togarinn væri á leið til Reykjavíkur með slasaðan skipverja.  Togarinn var þá staddur 240 sjómílur suðvestur af  Reykjavík.  Skipverjinn var með opið lærbrot og því óskað eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar sækti hann enda eins sólarhrings sigling til næstu hafnar.  Læknir í áhöfn TF-LIF taldi nauðsynlegt að maðurinn yrði sóttur. Áhöfn TF-LIF var kölluð út kl. 21:54 og fór þyrlan í loftið kl. 23:03.  Áhöfn flugvélar Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, var einnig kölluð út til að vera til taks á flugvelli ef á þyrfti að halda. TF-LIF kom að togaranum kl. 0:47 og fór sigmaður með börur niður í skipið til að sækja hinn slasaða. Hífingum var lokið kl. 1:08.  Þyrlan lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús kl. 3:00. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Þyrla Landhelgisgæslunnar send til aðstoðar franskri eins hreyfils flugvél

Mánudagur 7. júlí 2003. Flugmálastjórn hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 8:44 í morgun vegna franskrar eins hreyfils flugvélar sem lent hafði í vanda vestur af Reykjanesi þegar mótorar hennar misstu afl.  Tveir menn voru í vélinni en hún er af gerðinni PA-46.  Vélin var á leið frá Frakklandi til Bandaríkjanna en fyrirhugað var að taka eldsneyti á Íslandi.  Óskaði Flugmálastjórn eftir að þyrla færi til móts við flugvélina eins fljótt og hægt væri.  Áhöfn TF-LIF var strax kölluð út og einnig óskað eftir þyrlum varnarliðsins.  Í framhaldinu hafði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar samband við Tilkynningarskylduna til að afla upplýsinga um skip á svæðinu. Flugmálastjórn upplýsti kl. 9:00 að TF-FMS, flugvél flugmálastjórnar, væri farin til móts við frönsku flugvélina og að hún héldi nokkurn veginn hæð og hraða. TF-LIF fór í loftið kl. 9:19.  Ákveðið var að TF-LIF héldi sig 20 sjómílur vestur af Garðskaga og fylgdi vélinni til Reykjavíkur.  Um kl. 10:06 tilkynnti TF-LIF að franska flugvélin væri lent heilu og höldnu á Reykjavíkurflugvelli.  TF-LIF lenti þar kl. 10:13. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

Tveir menn fluttir með þyrlu til Reykjavíkur eftir útafakstur

Sunnudagur 6. júlí 2003. Neyðarlínan hafði samband við Landhelgisgæsluna kl. 9:01 í morgun og óskaði eftir þyrlu til að sækja tvo menn sem lent höfðu í útafakstri milli Bjarkarlundar og Flókalundar.Áhöfn TF-LIF  var kölluð út kl. 9:03 og fór hún í loftið kl. 9:33.  Ferðinni var heitið á flugvellinn áKambsnesi við Búðardal en þangað átti að flytja hina slösuðu með sjúkrabifreið.  Er þyrlan lenti á Kambsnesi kl. 10:04 var sjúkrabifreiðin ókomin.  TF-LIF fór í loftið með hina slösuðu innanborðs kl. 10:48 og lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús kl. 11:21. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Fjöldi sprengja hefur fundist á Vogaheiði

Sameiginleg fréttatilkynning frá utanríkisráðuneytinu og Landhelgisgæslu Íslands Eins og fram kom í fréttum fann barn virka sprengju úr sprengjuvörpu á Vogaheiði 12. apríl sl.  Síðan hefur sprengjudeild Landhelgisgæslunnar, í samráði við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins rannsakað svæðið við Háabjalla og Snorrastaðatjarnir.  Bandaríski herinn notaði svæðið frá 1952-1960 til að æfa skotárásir með sprengjuvörpum, fallbyssum, skriðdrekum og öðrum vopnum sem landherir nota. Frá 12. apríl hefur sprengjudeild Landhelgisgæslunnar fundið og eytt yfir 70 virkum sprengjum á fyrrum skotæfingasvæðinu.  Samanlagt innihalda þessar sprengjur 60 kíló af TNT og öðrum sprengiefnum.  Meirihluti sprengjanna fannst nálægt útivistarsvæðinu við Snorrastaðatjarnir.  Um er að ræða allt frá 60 mm. sprengjum úr sprengjuvörpum til 105 mm. fallbyssukúla sem m.a. eru notaðar til að ráðast á skriðdreka.  Þetta eru hættulegar sprengjur sem geta valdið slysum og dauða ef hreyft er við þeim. Árið 1986 og 1996 gerði varnarliðið umfangsmikla yfirborðsleit að sprengjum á svæðinu.  Við leitina fundust alls 600 virkar sprengjur.  Í kjölfar þess voru sett upp aðvörunarskilti á svæðinu sem gert er ráð fyrir að verði endurnýjuð á næstunni. Samtímis verður svæðið rannsakað betur til að gera það öruggt yfirferðar.  Hernaðarsprengjur eru hannaðar til að bana fólki og eyðileggja eignir.  Sprengjurnar á Vogaheiði eru ekki frábrugðnar þeim að neinu leyti.  Þrátt fyrir að þær séu komnar til ára sinna eru þær jafn virkar og þær voru í upphafi, jafnvel enn hættulegri.  Landhelgisgæslan varar fók við að snerta eða taka upp hluti sem grunur leikur á að séu sprengjur.  Réttu viðbrögðin eru að merkja staðinn, yfirgefa svæðið og láta lögreglu eða Landhelgisgæsluna vita tafarlaust. Meðfylgjandi eru myndir af sprengjum sem fundust við Snorrastaðatjarnir.  Þeim hefur nú verið eytt. Mynd:  Landhelgisgæslan / sprengjudeild Mynd: Snævarr Guðmundsson / Myndin var tekin á Vogaheiði rétt eftir að sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar sprengdu í loft upp ósprungnar sprengjur sem fundist höfðu við Snorrastaðatjarnir. Mynd:  Landhelgisgæslan / sprengjudeild

Sjúkraflug TF-SIF til Kollafjarðar á Barðaströnd

Þriðjudagur 1. júlí 2003   Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 12:34 og óskaði að beiðni læknisins í Búðardal eftir þyrlu í viðbragðsstöðu vegna konu á sjötugsaldri sem var talin alvarlega veik.   Áhöfn TF-SIF var þegar kölluð út og óskað eftir að hún væri tilbúin til flugs ef á þyrfti að halda.   Læknirinn hringdi í stjórnstöð kl. 12:42 og bað um að þyrlan færi af stað.  Áhöfnin var þá kölluð út til flugs og fór TF-SIF í loftið kl. 12:55. Lent var í Kollafirði á Barðaströnd þar sem konan var stödd og hún flutt á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi en þangað var þyrlan komin kl. 14:39.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands