Fréttir

Sprengjuæfing með öryggisvörðum og lögreglu á Keflavíkurflugvelli - 31.3.2004

Miðvikudagur 31. mars 2004. Nýlega héldu sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar sprengjuæfingu með öryggisvörðum og lögreglu á Keflavíkurflugvelli. Slíkar æfingar eru haldnar með reglulegu millibili fyrir starfsfólk á flugvellinum og eru nauðsynlegur liður í þjálfun öryggisstarfsmanna og lögreglu til að bregðast við hugsanlegum hryðjuverkum. Sjá meðfylgjandi myndir sem Gunnar J. Ó. Flóvenz öryggisfulltrúi flugfélagsins Bluebird Cargo tók af sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar á meðan á æfingunni stóð. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Mynd:  Þáttakendur á námskeiðinu fylgjast með hluta æfingarinnar. Mynd:  Sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar undirbýr notkun vélmennis við störf sín. Mynd:  Sprengjusérfræðingar og lögreglumenn vinna saman að því að skipuleggja aðgerðir vegna yfirvofandi hættu. Mynd: Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar undirbúa sig og ná í verkfæri til að nota í næsta verkefni. Mynd:  Sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar rannsakar grunsamlega hluti inni á flugvallarsvæðinu. Lesa meira

Banaslys í Akraneshöfn - 30.3.2004

Þriðjudagur 30. mars 2004. Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 15:22 vegna slyss í Akraneshöfn en þar hafði fólksbíll farið út af bryggjukantinum og lent í höfninni með tvær manneskjur innanborðs. TF-LIF fór í loftið kl. 15:31 með tvo kafara frá Landhelgisgæslunni og fjóra frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.  Lent var á sementsbryggjunni á Akranesi kl. 15:37 en bíllinn hafði farið fram af henni. Um kl. 15:49 höfðu kafarar náð tveimur manneskjum upp á  yfirborðið, hjónum sem verið höfðu í bílnum, en þau voru úrskurðuð látin skömmu síðar.  Kafarar höfðu einnig sett taug í bílinn og var búið að hífa hann upp á bryggjuna kl. 16. Lögregla rannsakar tildrög slyssins. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.                 Lesa meira

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti mann sem lent hafði í bifreiðarslysi við Vatnsfellsvirkjun - 28.3.2004

Sunnudagur 28. mars 2004.   Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, sótti í dag mann sem lent hafði í bifreiðarslysi við Vatnsfellsvirkjun og flutti hann á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.   Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 14:43 og tilkynnti að alvarlegt umferðarslys hefði átt sér stað við Vatnsfellsvirkjun sem er við suðurenda Þórisvatns.  Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út og fór TF-LIF í loftið kl. 15:18.    Þegar þyrlan lenti við Vatnsfellsvirkjun var læknir kominn á staðinn og var maðurinn fluttur um borð í þyrluna í fylgd aðstandanda sem einnig lenti í slysinu en slapp ómeiddur.  Þyrlan fór í loftið frá slysstað kl. 16:30 og lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 17:20.   Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Lesa meira

Sjúkraflug TF-SIF vegna bílslyss á Hrútafjarðarhálsi - 27.3.2004

Laugardagur 27. mars 2004.   Lögreglan á Blönduósi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 6:28 gegnum Neyðarlínuna vegna umferðarslyss á Hrútafjarðarhálsi.  Læknir á staðnum óskaði eftir þyrlu til að sækja mann sem hafði slasast.    Áhöfn TF-SIF var þegar kölluð út, með bráðaútkalli, og fór þyrlan í loftið kl. 7 í morgun.  Lent var á þjóðveginum efst í Norðurárdal um kl. 7:30 þar sem sjúkrabíll beið með hinn slasaða.  Tíu mínútum síðar var haldið aftur af stað til Reykjavíkur og lenti þyrlan við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 8:15.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Lesa meira

Sjúkraflug til Ísafjarðar - 26.3.2004

Föstudagur 26. mars 2004.   Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti í dag veikt ungabarn til Ísafjarðar og flutti það ásamt móður þess til Reykjavíkur.   Læknir á Ísafirði hringdi í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á fimmta tímanum í dag og óskaði eftir aðstoð vegna veiks ungabarns.  Eftir samráð við lækni í áhöfn TF-LIF var ákveðið að sækja barnið.   TF-LIF fór í loftið kl. 17:41 og var komin til Ísafjarðar kl. 19:35.  Þar var barnið flutt um borð ásamt móður þess og var haldið aftur af stað til Reykjavíkur kl. 19:57.   Þyrlan lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli kl. 21:35 en þar beið sjúkrabíll sem flutti móður og barn á Landspítalann við Hringbraut.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Lesa meira

Varðskipið Týr flutti slasaðan sjómann til Hafnar í Hornafirði - 21.3.2004

Sunnudagur 21. mars 2004. Skipstjórinn á netabátnum Erlingi SF-65 tilkynnti kl. 15:15 á alþjóðlegri neyðarrás skipa, rás 16, að hann væri með slasaðan skipverja um borð. Hönd hans hafði klemmst á netaspili. Báturinn var þá staddur út af Tvískerjum. Óskað var eftir aðstoð varðskipsins Týs við að koma skipverjanum til Hafnar í Hornafirði en þar beið sjúkraflugvél sem flytja átti hann til Reykjavíkur. Léttbátur varðskipsins Týs var notaður til að flytja skipverjann, stýrimann netabátsins, um borð í varðskipið. Um borð í léttbátnum var lærður sjúkraflutningsmaður úr áhöfn varðskipsins.  Búið var að flytja stýrimanninn um borð í varðskipið Tý kl. 15:34. Er varðskipið var komið út af Hornafirði kl. 17:35 var léttbátur sendur frá varðskipinu með stýrimanninn til Hafnar en þangað kom léttbáturinn kl. 17:50.   Þar beið sjúkrabíll sem flutti hinn slasaða út á flugvöll. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.       Lesa meira

TF-LIF flutti slasaða vélsleðakonu á sjúkrahús - 20.3.2004

Laugardagur 20. mars 2004. Um kl. 19:00 gaf Neyðarlínan samband við Flugbjörgunarsveitina sem var við æfingar nálægt skálanum Strút norðan Mýrdalsjökuls.  Þar hafði kona lent í vélsleðaslysi en ekki var talið ráðlegt að flytja hana landleiðina þar sem hún hafði hlotið hryggáverka. TF-LIF fór í loftið kl. 19:33 og var komin á slysstað kl. 20:17   Þá voru Flugbjörgunarsveitarmenn búnir að undirbúa hina slösuðu undir flutning. Þyrlan fór frá slysstað með hina slösuðu kl. 20:26 og lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús kl. 21:05. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Lesa meira

Baldvin Þorsteinsson EA-10 á leið til Noregs - 18.3.2004

Fimmtudagur 18. mars 2004. Stjórnendur Samherja hafa nú ákveðið að láta norska dráttarbátinn Normand Mariner draga Baldvin Þorsteinsson EA-10 til Noregs þar sem skemmdir á skipinu verða kannaðar og lagfærðar. Sjá meðfylgjandi mynd sem Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður á varðskipinu Tý tók af skipunum í gær. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Lesa meira

Björgun Baldvins Þorsteinssonar heppnaðist í nótt - 17.3.2004

Miðvikudagur 17. mars 2004. Björgun fjölveiðiskipsins Baldvins Þorsteinssonar úr strandi heppnaðist í nótt.  Um miðnættið byrjuðu ýtur í landi og norski dráttarbáturinn Normand Mariner að snúa skipinu.  Það tók um 20-25 mínútur og gekk vel. Að því loknu var byrjað að toga í skipið.  Dráttarbáturinn togaði með 170 tonna álagi þegar mest var. Baldvin Þorsteinsson losnaði af sandrifinu utan við ströndina rétt fyrir kl. tvö í nótt.  Útgerð Baldvins Þorsteinssonar, Samherji, hefur lagt mikið fé og vinnu í að bjarga skipinu og hefur Landhelgisgæslan átt gott samstarf við útgerðina.  Að vonum ríkti mikil gleði á strandstað í nótt.  Dráttarbáturinn er á leið til Eskifjarðar með Baldvin Þorsteinsson í togi. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Lesa meira

TF-SIF flutti tildráttartaug yfir í norska björgunarskipið að nýju - 16.3.2004

Þriðjudagur 16. mars 2004.   Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, flaug austur á strandstað Baldvins Þorsteinssonar kl. 7 í morgun og lenti þar um áttaleytið.    Fyrsta verkefni þyrlunnar var að flytja fjóra skipverja um borð í Baldvin Þorsteinsson. Að því loknu var hafist handa við að ferja tildráttartaug frá landi yfir í dráttarskipið Normand Mariner.  Það gekk vel eins og í fyrra skiptið og tók alls 30 mínútur. Varðskip var á staðnum og voru léttbátar þess til reiðu ef eitthvað brygði út af. Þeir voru einnig notaðir til dýptarmælinga fyrir norska dráttarskipið.   Þar næst voru þrír skipverjar til viðbótar fluttir yfir í Baldvin Þorsteinsson.  Að síðustu var flogið yfir svæðið og myndir teknar af skipinu til að auðveldara væri að ákveða í hvaða átt væri heppilegast að draga skipið.   Áhöfn þyrlunnar beið nokkra stund til að sjá hvort taugin sem búið var að flytja héldi og að því loknu hélt þyrlan af stað til Reykjavíkur.  TF-SIF lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 13:50.   Sjá myndir sem Jón Tómas Vilhjálmsson flugvirki/spilmaður í áhöfn TF-SIF  tók er flogið var yfir strandstað í morgun.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.     Lesa meira

Ekki tókst að bjarga fjölveiðiskipinu Baldvin Þorsteinssyni á flóðinu í nótt - 15.3.2004

Mánudagur 15. mars 2004. Björgun Baldvins Þorsteinssonar misheppnaðist í nótt þar sem festingar gáfu sig og slitnaði á milli skipanna.  Sjá meðfylgjandi myndir sem Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður á varðskipinu Tý tók á strandstað 13. og 14. mars sl.    Mynd: Dráttarbáturinn Normand Mariner og fjölveiðiskipið Baldvin Þorsteinsson í gær er verið var að draga tógið í land í gær. Mynd: TF-SIF yfir Normand Mariner með tógrúllu sem verið var að ferja um borð í skipð. Myndin var tekin 13. mars sl.       Lesa meira

Maður lést eftir slys við Kárahnjúkavirkjun - 15.3.2004

Mánudagur 15. mars 2004. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og tilkynnti að maður hefði slasast eftir grjót féll á hann. Ákveðið var að senda TF-SIF á vettvang eftir að þyrlulæknir hafði fengið upplýsingar um ástand mannsins. Þyrlan fór í loftið kl. 4:17 en var afturkölluð kl. 4:28 er tilkynnt var að maðurinn væri látinn. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.   Lesa meira

Reynt verður að draga Baldvin Þorsteinsson af strandstað á flóðinu í kvöld - 14.3.2004

Sunnudagur 14. mars 2004. Áhöfn TF-SIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar hefur haldið til í Vík í Mýrdal frá því sl. föstudag og hefur sinnt margvíslegum verkefnum á strandstað Baldvins Þorsteinssonar EA-10. Í morgun fór TF-SIF í loftið frá Vík kl. 6:45 og var haldið beint á strandstað við Meðallandsfjörur.  Til að byrja með var einn stýrimaður fluttur frá varðskipi yfir í norska dráttarbátinn Normand Mariner og maður frá Hampiðjunni, sem verið hafði við vinnu um borð í dráttarbátnum, fluttur í land.  Stýrimaðurinn var fluttur um borð í dráttarskipið til að sjá um samskipti við þyrluna TF-SIF. Þar næst voru 5 skipverjar fluttir yfir í Baldvin Þorsteinsson. Að því loknu dró TF-SIF tildráttartaug frá dráttarbátnum í land.  Það verkefni tók um 40 mínútur og var lokið kl. 9:30.  Þetta er nokkuð flókin aðgerð sem ekki hefur verið framkvæmd áður hér við land og gekk afskaplega vel að mati áhafnar TF-SIF. Næst voru 5 skipverjar til viðbótar fluttir yfir í Baldvin Þorsteinsson en skipverjarnir hafa unnið við að festa aðaldráttartaugina í skipið og undirbúa það undir björgun. Nú er björgunarstóll tengdur við skipið og hluti af skipverjum verður fluttur í land með honum áður en reynt verður að draga skipið á flot. Eftir að skipverjarnir höfðu verið fluttir um borð í Baldvin Þorsteinsson flutti TF-SIF lensidælur um borð í skipið en þær geta komið að gagni ef losa þarf loðnu úr lestum skipsins eða ef leki kemur að því. Að lokum var farin ein ferð út í dráttarbátinn með búnað og stýrimaður frá varðskipinu fluttur aftur til baka.  TF-SIF lenti í Vík kl. 13:50 og var komin til Reykjavíkur kl. 15:17.   Þyrla Varnarliðsins hefur einnig tekið þátt í undirbúningi björgunarinnar, bæði í gær og fyrradag en þá voru þyrlurnar að flytja búnað út í dráttarskipið bæði frá landi og frá varðskipunum. Tvö varðskip Landhelgisgæslunnar eru á strandstað og munu þau aðstoða við björgunarstörf. Áhafnir þeirra hafa tekið þátt í undirbúningi fyrir björgun m.a. með því að leggja til dráttarbúnað sem notaður var til að koma aðaldráttartaug norska skipsins í land.  Einnig hafa áhafnir varðskipanna séð um dýptarmælingar fyrir dráttarskipið.  Léttbátur varðskipsins hefur m.a. verið notaður í þeim tilgangi.  Væntanlega verður byrjað að draga Baldvin Þorsteinsson af strandstað á flóðinu sem verður um ellefuleytið í kvöld. Sjá meðfylgjandi myndir sem Jón Erlendsson flugvirki í áhöfn TF-SIF tók í dag.  Á þeim má sjá Baldvin Þorsteinsson EA-10 á strandstað, norska dráttarbátinn Normand Mariner og á síðustu myndinni sjást varðskipin og dráttarbáturinn úr þyrlunni þegar þyrlan er að flytja tildráttartaugina í land.     Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlafulltrúi. Lesa meira

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, og þyrla Varnarliðsins notaðar á strandstað á Meðallandsfjörum - 12.3.2004

Föstudagur 12. mars 2004. Í morgun kom í ljós að bilun er í kringum afísingarbúnað í stélskrúfu TF-LIF og því er líklega ekki hægt að nota hana frekar í tengslum við björgun fjölveiðiskipsins Baldvins Þorsteinssonar EA-10.  Það fer þó eftir því hversu langan tíma björgunarstörfin taka.Búið er að senda gírkassa vélarinnar af stað til Noregs þar sem fyrirtækið Astec Helicopter Service sér um lagfæringar.  Ekki er legið með varahluti af þessu tagi hér á landi enda eru þeir mjög dýrir og nauðsynlegt að sérfræðingar frá viðurkenndri viðhaldsstöð geri við þá, þ.e. viðhaldsstöð sem framleiðandi gírkassans hefur viðurkennt.  Sennilega tekur viðgerð a.m.k. fjóra daga. Gírkassin sem slíkur kostar 37-38 milljónir en ekki er ljóst hversu kostnaðarsöm viðgerð á honum verður.  Landhelgisgæslan er með samning við Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli um gagnkvæma aðstoð og upplýsingagjöf og samþykkti Varnarliðið strax að senda þyrlu í verkefnið á strandstað á Meðallandsfjörum í stað TF-LIF.  Tvær þyrlur verða því á svæðinu, TF-SIF og þyrla Varnarliðsins.  Verkefni þeirra verða m.a. að flytja búnað og línur milli skipa. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Mynd: flugvirkjar við vinnu í flugskýli Landhelgisgæslunnar. Myndin er tekin í fyrra er 500 tíma skoðun TF-SIF stóð yfir. Lesa meira

Strand Ingimundar SH-335 - 12.3.2004

Föstudagur 12. mars 2004. Neyðarlínan gaf samband við skipstjóra Ingimundar SH-335  kl. 19:39 og tilkynnti að skipið væri strandað við Vesturboða í mynni Grundarfjarðar en ekki væri óskað eftir aðstoð þyrlu.   Togarinn Hringur SH-535 var þá staddur í 2.6 sjómílna fjarlægð og hélt þegar í átt að Ingimundi.  Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar lét Tilkynningarskylduna og Reykjavíkurradíó þegar vita.  Tilkynningarskyldan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 20:02. Þá hafði skipstjóri Hrings tilkynnt að ekki væri um neyðarástand að ræða og að hann hefði sjósett léttbátt til að halda í átt að Ingimundi.  Á svæðinu var sunnanátt og vindhraði um 13 metrar á sekúndu.  Einnig lét Tilkynningarskyldan vita að björgunarbáturinn Björg frá Rifi, harðbotnabátur frá Ólafsvík og togbáturinn Helgi SH-135 væru á leið á strandstað. Um kl. 20:08 lét Tilkynningarskyldan stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vita að Ingimundur væri farinn að hreyfast af strandstað og sex mínútum síðar lét Tilkynningarskyldan vita að Ingimundur væri laus af strandstað og málið því leyst. Skipstjóri Ingimundar hafði samband kl. 20:37 og lét vita að skipið væri á leið frá Grundarfirði til Njarðvíkur og að skipið virtist ekki hafa orðið fyrir skemmdum. Fyrirhugað var að togarinn Hringur fylgdi Ingimundi út Breiðafjörð til vonar og vara. Varðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar lagði á það áherslu að vel væri fylgst með hugsanlegum skemmdum á Ingimundi.  Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Lesa meira

Ellefu skipverjar Baldvins Þorsteinssonar fluttir með þyrlu um borð í skipið - 10.3.2004

Miðvikudagur 10. mars 2004. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti í dag 11 skipverja Baldvins Þorsteinssonar um borð í skipið til að kanna aðstæður og undirbúa það undir björgunaraðgerðir. Sjá meðfylgjandi myndir sem áhöfn TF-LIF tók við það tækifæri. Talið var óhætt að senda hluta áhafnarinnar niður í skipið til að undirbúa það fyrir flutning og kanna ástand þess.  Þyrlan var skammt undan.     Flugbjörgunarsveit Slysavarnarfélagsins Landsbjargar reiðubúin með tankbílinn svo hægt sé að bæta eldsneyti á þyrluna eftir þörfum.  Í sumum tilfellum er nauðsynlegt að hafa lítið eldsneyti á þyrlunni til að létta hana og þá er mikilvægt að hafa eldsneytisbirgðir í grenndinni. Lesa meira

Áhöfn TF-LIF bjargaði 16 manna áhöfn Baldvins Þorsteinssonar EA-10 eftir að skipið strandaði nærri Skarðsfjöruvita - 9.3.2004

Þriðjudagur 9. mars 2004.   Áhöfn TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar bjargaði í morgun 16 manna áhöfn loðnuskipsins Baldvins Þorsteinssonar EA-10 frá Akureyri sem strandaði um 3 sjómílur norð-austur af Skarðsfjöruvita.   Skipstjórinn hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 3:12 í nótt og lét vita að skipið væri með nótina í skrúfunni um 1.8 sml. undan landi.  Um borð var 16 manna áhöfn.  Þá var loðnuskipið  Bjarni Ólafsson AK-70 að reyna að koma línu yfir í Baldvin.  Veður var SSA 7-11 metrar á sek. og nokkuð brim við ströndina. Fimm önnur skip voru innan við 1 sjómílu frá Baldvin Þorsteinssyni.   Um kl. 3:22 hafði varðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar aftur haft samband við skipið og fékk þær upplýsingar að illa gengi að koma línu á milli skipanna.    Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 3:28 eftir samráð við yfirmann gæsluframkvæmda.  Í framhaldinu af því var varðskipið Týr, Tilkynningarskylda íslenskra skipa, strandstöðvar  og Varnarliðið upplýst um ástandið.   Aftur var haft samband frá skipinu kl. 3:46 og látið vita að lína hefði slitnað milli skipanna og verið væri að reyna aftur.  Tilkynnt var stuttu síðar að hliðarskrúfur kæmu ekki að gagni og ekkert gengi að ná línu á milli skipanna.    Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kom þessum upplýsingum á framfæri við Varnarliðið, Tilkynningarskylduna og strandarstöðvar.  Óskað var eftir að Varnarliðið sendi þyrlu til aðstoðar og Neyðarlínan beðin um að koma boðum til lögreglu.     Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli kl. 4:26.  Veður var það slæmt á Keflavíkurflugvelli að þyrla Varnarliðsins gat ekki haldið strax af stað.  Skipið hafði þá tekið niðri.  Haft var samband við útgerð skipsins og upplýst um ástand og horfur.   Um kl. 4:35 hafði skipstjóri Baldvins Þorsteinssonar samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og lét vita að taugin milli skipanna hefði slitnað.  Skipstjórinn hafði aftur samband kl. 4:48 og gaf upp staðsetningu og var þeim upplýsingum komið áfram til viðkomandi aðila, Tilkynningarskylduna, varðskipið Tý og TF-LIF.   Skipstjórinn var í stöðugu sambandi við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar meðan á þessu stóð og ræddi leiðir til að verja skipið og tryggja öryggi áhafnar sem best. Skipstjóranum var ráðlagt að skipverjar færu ekki í gúmmíbáta við þessar aðstæður. Lagt var til að toghlerar skipsins yrðu settir út til að stýra skipinu gegnum brimgarðinn og láta bæði akkerin falla þegar komið væri í gegnum hann og um leið slaka á toghlerunum þannig að skipið snérist upp í sjó og vind til að verjast áföllum.   Skipstjórinn tilkynnti kl. 5 að akkeri hefðu verið látin falla og skipið væri komið inn fyrir ytri brimgarðinn.   Þessum upplýsingum var komið á framfæri við Tilkynningarskylduna og aðra hlutaðeigandi aðila.   Um kl. 5:13 heyrðist á rás 16 gegnum fjarhlustun frá strandastöðvunum að Baldvin Þorsteinsson hefði stöðvast og ekki bryti mikið á honum.   Varnarliðið hafði samband kl. 5:30 og tilkynnti að þyrla væri að fara af stað en yrði væntanlega ekki á staðnum fyrr en kl. 7:30 í fyrsta lagi.   Varðskipið Týr tilkynnti kl. 5:39 að TF-LIF væri hjá Skógum og yrði væntanlega komin á staðinn  kl. 6:10.   Áhöfn Baldvins Þorsteinssonar var þá látin vita um áætlaðan komutíma þyrlunnar.  Þá voru bæði akkeri skipsins og hlerar úti.   Fyrstu björgunarsveitir voru komnar á staðinn kl. 6.  Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LIF var komin á strandstað kl. 6:10 og var þá hafist var handa við að koma áhöfninni úr skipinu og var búið að bjarga öllum skipverjum frá borði kl. 7.  Þyrlan flaug síðan til Víkur með áhöfnina fyrir utan skipstjóra og fjóra skipverja sem urðu eftir á strandstað ásamt björgunarsveitarmönnum.    Í áhöfn þyrlunnar eru Hafsteinn Heiðarsson flugstjóri, Sigurður Heiðar Wiium flugmaður, Þengill Oddsson læknir, Auðunn Kristinsson stýrimaður/sigmaður og Jón Erlendsson flugvirki/spilmaður.   Varðskip er væntanlegt á strandstað um hádegisbilið.   Baldvin Þorsteinsson EA-10 er gerður út af Samherja á Akureyri.  Skipið er 2968 brúttótonn, smíðað í Flekkefjord í Noregi árið 1994.     Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlafulltrúi   P.S. Fréttatilkynning þessi var endurskoðuð og henni breytt samkvæmt upplýsingum stjórnstöðvar eftir að formleg skýrsla hennar hafði verið gefin út enda voru ekki allar upplýsingar fyrirliggjandi í skriflegu formi er upphafleg fréttatilkynning var gefin út kl. 7 um morguninn. Lesa meira

Myndir frá strandstað Baldvins Þorsteinssonar EA-10 - 9.3.2004

Þriðjudagur 9. mars 2003. Meðfylgjandi myndir tók Jón Erlendsson flugvirki og spilmaður í áhöfn TF-LIF af strandstað Baldvins Þorsteinssonar EA-10 um tvöleytið í dag. TF-LIF var þá á leið til Reykjavíkur eftir vel heppnaða björgun áhafnar skipsins.       Lesa meira

Heimkoma áhafnar TF-LIF eftir vel heppnaða björgunaraðgerð - 9.3.2004

Þriðjudagur 9. mars 2004.   Á meðfylgjandi mynd má sjá áhöfn TF-LIF eftir heimkomuna í dag eftir björgun áhafnar Baldvins Þorsteinssonar EA-10 í morgun.  Eins og kunnugt er var 16 manns bjargað úr skipinu sem strandaði í grennd við Skarðsfjöruvita.      Í áhöfninni eru frá vinstri: 1. Hafsteinn Heiðarsson flugstjóri, Jón Erlendsson flugvirki/spilmaður, Auðunn F. Kristinsson stýrimaður/sigmaður, Sigurður Heiðar Wiium flugmaður og Þengill Oddsson læknir.     Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri var mættur út á flugvöll til að taka á móti áhöfninni og þakkaði henni fyrir vel heppnaða björgunaraðgerð.  Á myndinni heilsar hann nafna sínum Heiðarssyni, flugstjóra TF-LIF.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.   Lesa meira

Nýr flugstjóri þjálfaður - 6.3.2004

Miðvikudagur 5. mars 2004. Nýlega tók áhöfn björgunarbátsins Ásgríms S. Björnssonar, sem er í eigu Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, þátt í æfingu með þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-SIF.  Tilgangur æfingarinnar var að þjálfa Sigurð Ásgeirsson verðandi flugstjóra í flugdeild Landhelgisgæslunnar í aðflugi að skipum og hífingum úr þeim.  Meðfylgjandi er myndasyrpa sem tekin var á meðan á æfingunni stóð.  Það var Einar Örn Jónsson í áhöfn björgunarbátsins sem tók myndirnar.  Á einni myndinni má sjá Sigurð Ásgeirsson flugstjóra í flugstjórasætinu en hann naut leiðsagnar Benónýs Ásgrímssonar yfirflugstjóra.  Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Mynd: Áhöfn björgunarbátsins. Þar á meðal er Ásgrímur Ásgrímsson deildarstjóri sjómælingadeildar hjá Landhelgisgæslunni en hann er skipstjóri björgunarbátsins í frítíma sínum.     Mynd: Sigurður Ásgeirsson einbeittur í flugstjórasætinu. Mynd: Magnús Örn Einarsson skipstjórnarmaður hjá Landhelgisgæslunni og sigmaður. Mynd: Björn Haukur Pálsson skipstjórnarmaður hjá Landhelgisgæslunni og Borgþór Hjörvarsson sem er í áhöfn björgunarskipsins. Lesa meira

Fimmtán loðnuskip að veiðum undan Ingólfshöfða - 5.3.2004

Föstudagur 5. mars 2004. TF-SYN, flugvél Landhelgisgæslunnar, fór í eftirlitsflug yfir loðnumiðin í gær. Alls voru fimmtán skip á miðunum undan Ingólfshöfða, 11 íslensk og 4 færeysk. Sjá myndir sem Tómas Helgason flugstjóri TF-SYN tók af skipunum. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.     Lesa meira

Nýjar útgáfur hafnakorta hjá Sjómælingum Íslands - 5.3.2004

Föstudagur 5. mars 2004.   Eins og fram hefur komið hefur Landhelgisgæslan haft afnot af fjölgeislamæli frá hafrannsóknarstofnun bandaríska sjóhersins undanfarin sumur og eru afurðir mælinga með honum að skila sér frá Sjómælingum Íslands, sem eru deild innan Landhelgisgæslunnar.   Samkvæmt upplýsingum Árna Þórs Vésteinssonar deildarstjóra kortadeildar hafa verið gerðar nýjar útgáfur af 5 hafnakortum.  Í öllum höfnunum höfðu orðið breytingar vegna framkvæmda, annað hvort vegna nýrra hafnarmannvirkja eða breytinga á dýpi eða hvoru tveggja.   Hafnakortið af Grindavík var uppfært í samræmi við mælingar sem gerðar voru bæði í innsiglingunni og höfninni með fjölgeislamæli. Á liðnum árum hafa verið miklar framkvæmdir í Grindavík, nýir brimvarnargarðar byggðir og ný innsiglingarrenna gerð. Á Sauðárkróki var búið að lengja viðlegukant og einnig hafði Siglingastofnun mælt dýpi í höfninni. Sandburður er viðvarandi vandamál í innsiglingunni og samkvæmt nýjustu mælingum hefur grynnkað eitthvað þess vegna.   Þá hafa hafnakortin af Húsavík, Raufarhöfn og Þórshöfn verið uppfærð í samræmi við fjölgeislamælingar. Dæmi um breytingar á hafnakortunum sem af því leiðir eru að á Húsavík fannst ekki grynning sem í kortinu var sýnd skammt suðaustan innsiglingarlínu og hún því tekin út.   Á Raufarhöfn fannst hinsvegar grynning sömuleiðis skammt frá innsiglingarlínu og á Þórshöfn komu í ljós skemmdir á bryggju eins og skýrt var frá í fjölmiðlum nýverið.  Vinna við tvær nýjar útgáfur til viðbótar stendur yfir en það eru kort af höfnunum í Sandgerði og Vopnafirði.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.     Mynd: Ný útgáfa hafnakorts af Grindavík   Lesa meira

Sjómannaskólanemar heimsækja varðskipið Tý - 5.3.2004

Föstudagur 5. mars 2003.    Nemendur Sjómannaskólans (skipstjórnar- og vélstjórnarnemar) heimsóttu varðskipið Tý 3. og 4. mars sl. og kynntu sér búnað og tæki um borð undir leiðsögn stýrimanna Týs.   Sjá meðfylgjandi myndir sem Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður á varðskipinu tók við það tilefni.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.       Mynd: Nemendur skoða stjórnrúm aðalvéla um borð í Tý undir leiðsögn Björns Ingvarssonar vélstjóra.     Mynd: Gunnar Örn stýrimaður á Tý fræðir nemendur um búnað í brúnni.     Lesa meira

Fjölgeislamælir nýtist við að kanna skemmdir á hafnarmannvirkjum - 3.3.2004

Miðvikudagur 3. mars 2004.   Hafrannsóknastofnun bandaríska sjóhersins hefur enn eitt árið samþykkt að veita Landhelgisgæslunni afnot af fjölgeislamæli til notkunar við mælingar næsta sumar.  Fjölgeislamælirinn er kominn til landsins og verður settur í sjómælingabátinn Baldur þegar hann fer í slipp eftir páska.   Fjölgeislamælirinn hefur sannað gildi sitt á margan hátt.  Hann gefur heildstæða mynd af hafsbotninum ólíkt eingeislamæli sem hingað til hefur verið notaður.    Við úrvinnslu mælinga sem gerðar voru með fjölgeislamæli í höfninni á Þórshöfn sl. sumar kom í ljós að jarðvegur hefur hrunið undan innra bryggjuhorni á hafskipabryggjunni á Þórshöfn.  Ómögulegt er að segja hvaða afleiðingar það hefði haft ef skemmdin hefði ekki komið í ljós strax en nú gefst möguleiki á að lagfæra hana og koma í veg fyrir enn meira hrun undan bryggjuþekjunni.Mælingar með fjölgeislamæli voru einnig gerðar í höfnunum á Raufarhöfn, Húsavík og Vopnafirði. Við skoðun á gögnum frá Raufarhöfn kom í ljós klettur rétt sunnan við beygjuna í innsiglingarrennunni á Raufarhöfn.  Ekki var vitað um þennan klett áður en dýpið niður á hann er 5.5. metrar.   Ýmislegt fleira hefur komið í ljós við notkun fjölgeislamælisins sem ekki getur þó talist fela í sér siglingahættu.    Sjá meðfylgjandi þrívíddarmyndir sem sjómælingamenn hafa unnið upp úr mælingagögnum úr fjölgeislamælinum.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.   Mynd/Landhelgisgæslan: Hér má sjá skemmd á bryggjuhorni á hafskipabryggjunni á Þórshöfn. Mynd/Landhelgisgæslan:  Á þessari mynd má sjá klettinn sem kom í ljós rétt sunnan við innsiglingarrennuna á Raufarhöfn. Lesa meira

Kafarar Landhelgisgæslunnar fundu hníf sem leitað var að vegna líkfundarmálsins - 3.3.2004

Þriðjudagur 3. mars 2004. Varðskipið Ægir kom til Neskaupstaðar upp úr hádeginu í fyrradag þar sem óskað hafði verið eftir aðstoð kafara Landhelgisgæslunnar við leit að eggvopni vegna rannsóknar á líkfundi í höfninni nýlega. Köfun hófst kl. hálf fjögur eftir að leitarsvæði hafði verið afmarkað. Þegar köfun var hætt kl. 18:08 hafði hnífurinn, sem leitað var að, ekki fundist. Í gær hófst köfun kl. 9 um morguninn.  Eftir að aðstæður og upplýsingar höfðu verið endurmetnar var nýtt leitarsvæði afmarkað.  Á ellefta tímanum fannst hnífur sem líklegt er talið að sé eggvopnið sem leitað var að.  Hnífurinn var afhentur lögreglu. Sjá meðfylgjandi myndir sem teknar voru af áhöfn varðskipsins Ægis.  Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Mynd/LHG: Léttbátur varðskipsins Ægis var notaður af köfurum Landhelgisgæslunnar. Sjónarhorn áhafnar Ægis. Mynd/LHG: Friðrik Hermann Friðriksson kafari leitaði í höfninni ásamt Jónasi Karli Þorvaldssyni og Jóhanni Erni Sigurjónssyni. Mynd/LHG: Frá vinstri Halldór Gunnlaugsson skipherra, Jónas K. Þorvaldsson, Jóhann Örn Sigurjónsson og Friðrik Hermann Friðriksson kafarar hjá Landhelgisgæslunni og Jónas Wilhelmsson yfirlögregluþjónn Fjarðarbyggðar.   Lesa meira

Leit að björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar árangurslaus - 3.3.2004

Miðvikudagur 3. mars 2004. Áhöfn TF-SYN, flugvélar Landhelgisgæslunnar, fékk það verkefni í dag að leita að björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem tók út af flutningaskipinu Skaftafelli seint í gærkvöldi. Tilgangur leitarinnar var bæði að reyna að bjarga verðmætum og koma í veg fyrir siglingahættu sem stafað getur af svo stórum hlutum á reki. Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar notuðu leitarforrit til að reikna út hugsanlegt rek og staðsetningu bátsins miðað við veður og sjólag. TF-SYN fór í loftið kl. 11:33. Svæðið sem leitað var á var frá Hópsnesi við Grindavík og austur að Knarrarósi.  Leitað var u.þ.b. 9 sjómílur út frá ströndinni. TF-SYN lenti aftur við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 14:57 eftir árangurslausa leit.  Tómas Helgason flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni tók meðfylgjandi myndir í fluginu.  Önnur þeirra er af Selvogsvita en hin af áhöfn TF-SYN í þessu tiltekna flugi. Á áhafnarmyndinni eru Tómas Helgason og Pétur Steinþórsson flugmenn, Einar H. Valsson og Magnús Örn Einarsson stýrimenn. Sem útkikksfólk komu 4 frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Þórður Bergsson, Hallbjörn Magnússon, Elísabet S. Kristjánsdóttir og Pétur Kristjánsson. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.   Lesa meiraÞetta vefsvæði byggir á Eplica