Fréttir

Glókollur heimsækir varðskipið Ægi - 30.9.2004

Fimmtudagur 30. september 2004. Fugl sem ber heitið Glókollur flaug inn um brúargluggann á varðskipinu Ægi í gærmorgun en ákvað svo að taka flugið til lands í gærkvöldi eftir góða dvöl um borð yfir daginn.  Samkvæmt upplýsingum Ævars Petersen forstöðumanns Reykjavíkurseturs Náttúrufræðistofunar Íslands kemur Glókollur upphaflega frá Evrópu en hann hóf að verpa hér á landi fyrir 8 árum.  Að sögn Ævars fóru þeir að verpa í skógræktarreitum víða um land og síðan hefur nánast orðið sprenging í útbreiðslu þeirra.  Vart eru dæmi um að ný fuglategund hafi breiðst svo ört út hér á landi. Glókollur er minnsti fugl sem verpt hefur hér á landi, minni en Músarindill. Ekki er vitað annað en að Glókollur sé staðfugl því talsvert finnst af honum hér að vetrarlagi.   Það getur þó verið að eitthvað af fuglunum fljúgi til hlýrri landa yfir vetrartímann.  Yfirleitt eru góðar aðstæður hér að vetrarlagi miðað við Norður-Skandinavíu þar sem þeir verpa einnig en þar eru þeir farfuglar.  Á Íslandi, þar sem vetur hafa verið mildir til margra ára, virðast þessir fuglar komast vel af. Glókollur er minnsti fugl Evrópu og vegur aðeins 5-6 grömm.  Á meðfylgjandi myndum, sem Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður tók, má sjá Glókoll en þar hefur hann komið sér vel fyrir hjá Sæunni Maríu Pétursdóttur viðvaningi á varðskipinu Ægi. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Glókollur á höfði Sæunnar Pétursdóttur Glókollur er minnsti fugl Evrópu og vegur aðeins 5-6 grömm. Lesa meira

Breskir flugáhugamenn fljúga með TF-SYN - 30.9.2004

Fimmtudagur 30. september 2004. Í dag komu tveir Bretar, Matt Wise og Pete Towey, í heimsókn til Landhelgisgæslunnar en þeir höfðu óskað eftir því að fá að fljúga með TF-SYN, Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar, vegna sérstaks áhuga á eldri flugvélum. Þar sem vel stóð á var hægt að heimila þeim að fá að sitja í þegar áhöfn TF-SYN fór í gæsluflug í dag.  Matt og Pete eru frændur en feður þeirra störfuðu báðir í flugbransanum, nánar tiltekið hjá fyrirtækinu Smiths, sem hannaði fyrsta sjálfvirka lendingarbúnaðinn að þeirra sögn.  Matt og Pete hafa lengi verið áhugasamir um flug en hvorugur þeirra hefur þó tekið flugpróf. Þeir taka myndir af flugvélum og hafa sett sér það markmið að fljúga í sem flestum flugvélategundum, sérstaklega þeim flugvélum sem komnar eru nokkuð til ára sinna.  Matt vinnur fyrir Air Canada og hefur það auðveldað ferðalög þeirra frænda. Þeir fundu upplýsingar um TF-SYN á heimasíðu á Internetinu sem fjallar um Fokker 27 flugvélar.  Þá kom í ljós að flestar slíkar vélar eru notaðar í fraktflug eða flug með embættismenn eða í farþegaflug í löndum eins og Pakistan og Lýbíu. Matt og Pete voru hæstánægðir með flugferðina og hafa nú bætt F-27-flugi í reynslubankann. Þeir töldu að gott ástand TF-SYN væri til marks um það hversu góða flugvirkja Landhelgisgæslan hefur. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Mynd DS:  Áhöfn TF-SYN, aftari röð frá vinstri Birgir H. Björnsson stýrimaður, Páll Geirdal stýrimaður, Hafsteinn Heiðarsson flugstjóri, Magnús Örn Einarsson stýrimaður og Tómas Helgason flugstjóri. Fremri röð: Matt Wise og Pete Towey. Mynd 2: Flugvirkjarnir Sverrir Erlingsson og Jón Pálsson.  Jón Pálsson hefur starfað hjá Landhelgisgæslunni í 23 ár og þekkir því vel til Fokkersins sem Landhelgisgæslan fékk árið 1977.  Hún var reyndar framleidd árið 1976 en kom ekki strax til landsins þar sem Fokker verksmiðjurnar þurftu að gera sérstakar breytingar á henni vegna þeirrar starfsemi sem hún var ætluð í.  Að sögn Jóns hefur flugvélinni alltaf verið vel við haldið og er hún í mjög góðu ástandi í dag þrátt fyrir háan aldur. Tækjabúnaður vélarinnar sé samt sem áður barn síns tíma eins og eðlilegt sé miðað við þær tækninýjungar sem átt hafa sér stað sl. 28 ár.   Lesa meira

Starfsmenn þyrluáhafnar Landhelgisgæslunnar fá rauð blikkljós í bíla sína - 30.9.2004

Fimmtudagur 30. september 2004. Starfsmenn í þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar hafa fengið rauð ljós í bíla sína til að auðvelda þeim að komast leiðar sinnar í umferðinni.  Þegar þyrluáhafnir eru kallaðar út, þurfa áhafnarmeðlimir að hraða sér út á flugvöll án þess þó að brjóta umferðarreglur. Ljóst er að oftast liggur líf við þegar óskað er eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar. Það getur því verið bagalegt þegar áhafnarmeðlimir lenda í umferðarteppu á leið til flugvallarins. Til þess að ráða bót á þessu ákvað dómsmálaráðuneytið í samráði við Landhelgisgæsluna og lögregluyfirvöld að útvega þyrluáhöfninni þessi rauðu blikkljós. Ljósin sem þyrluáhafnirnar hafa fengið eru ekki eiginleg forgangsljós.  Þau þjóna þeim tilgangi að auka öryggi og óska eftir tillitsemi annarra ökumanna.  Einnig er þá auðveldara fyrir lögregluna að koma auga á þyrlustarfsmenn til að aðstoða þá við að komast leiðar sinnar í neyðartilfellum. Þeir starfsmenn þyrluáhafna sem prófað hafa ljósin segja að þau hafi breytt miklu.  Aðrir ökumenn hafi sýnt þeim meiri tillitsemi og vikið fyrir þeim.  Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Mynd DS: Sigurður Heiðar Wiium með nýju rauðu blikkljósin og merki sem er sett á bíla starfsmanna þyrluáhafnar Landhelgisgæslunnar. Mynd DS: Rauða ljósið er sett á skyggni farþegamegin inni í bílnum og blikkar þegar starfsmenn þyrluáhafna þurfa að komast greiðlega leiðar sinnar í útköll. Bílarnir eru einnig merktir með skilti sem á stendur ,,þyrluvakt".     Lesa meira

Sjúkraflug TF-LIF vegna alvarlegs umferðarslyss í Grímsnesi - 30.9.2004

Fimmtudagur 30. september 2004. Neyðarlínan hringdi í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 15:56 og gaf samband við lögregluna á Selfossi.  Óskað var eftir þyrlu í viðbragðsstöðu vegna alvarlegs umferðarslyss við Vaðnesafleggjarann í Grímsnesi.  Tveir bílar höfðu skollið saman.Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út. Þyrlan fór í loftið kl. 16:11 og var komin á slysstað kl. um kl. 16:30.  Ökumaður annars bílsins var fluttur með þyrlunni en tveir aðrir slasaðir voru fluttir með sjúkrabíl. TF-LIF lenti við slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss kl. 17:05. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.   Lesa meira

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar rannsökuðu flak sprengjuflugvélarinnar Flying Fortress sem fórst á Eyjafjallajökli í seinni heimstyrjöldinni - 27.9.2004

Mánudagur 27. september 2004.   Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar rannsökuðu flak sprengjuflugvélarinnar  ,,Flying Fortress” sl. föstudag.  Flugvélin brotlenti á Eyjafjallajökli í september 1944.  Flugmennirnir höfðu villst af leið í slæmu veðri á leið til Bretlands.  Til allrar hamingju komst öll áhöfnin af.  Einn þeirra kom nýlega í heimsókn til Íslands í boði Árna Alfreðssonar bónda sem býr í grennd við slysstaðinn.   Áður en sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fóru á staðinn, fengu þeir upplýsingar um vopnabúnað flugvélarinnar úr gagnagrunni NATO og frá RAF safninu í Hendon sem er rétt fyrir utan London.  Í vélinni voru 13 * 50 kalíbera (12.7 mm) Browning M2 vélbyssur.  Nafnið ,,Flying Fortress”  (fljúgandi virki) á því vel við.  Sumar byssurnar voru fjarstýrðar en aðrar handvirkar. Þessi varnarbúnaður var mikilvægur fyrir áhöfnina í flugorrustum því að flugher bandamanna fór í sprengjuleiðangra að degi til yfir Evrópu á þessum tíma.   Ekki hefur verið staðfest hvort sprengjur voru í flugvélinni þegar hún hrapaði en það hefur verið talið ólíklegt þar sem hún var að flytja nýþjálfaða flugáhöfn frá Bandaríkjunum til Bretlands er slysið varð.   Sprengjusérfræðingarnir rannsökuðu slysstaðinn með aðstoð Árna Alfreðssonar en hann hefur fylgst með staðnum í gegnum tíðina og rannsakað sögu bæði flugvélarinnar og áhafnar hennar.  Nokkuð magn hættulegra hluta var fjarlægt úr vélinni, þ.á.m. vélbyssur.  Aðrir hættulegir hlutir, sem ekki var talið öruggt að flytja, voru merktir sérstaklega.  Sprengjueyðingarsveitin þarf að fara aðra ferð upp á jökulinn til að ljúka verkefninu.   Frásögn og myndir: Adrian King sprengjusérfræðingur  Þýðing: Dagmar Sigurðardóttir             Árni Alfreðsson bóndi þekkir vel sögu sprengjuflugvélarinnar Flying Fortress og áhafnar hennar.       Lesa meira

Alþjóðlegur siglingadagur haldinn hátíðlegur á Miðbakka - 27.9.2004

Mánudagur 27. september 2004.   Í gær var alþjóðlegur siglingadagur haldinn hátíðlegur á MIðbakkanum í Reykjavík.  Varðskipið Ægir var til sýnis auk hafrannsóknarskipsins Bjarna Sæmundssonar, björgunarskipa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og skólaskipsins Sæbjargar.   Áhöfn TF-SIF sýndi björgun úr sjó og bát ásamt Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.  Sömu aðilar kepptu síðan í flotgallasundi. Landhelgisgæslan varð að lúta í lægra haldi fyrir björgunarsveitarfólki en þar munaði reyndar mjóu.   Nokkur hundruð manns komu að skoða varðskipið Ægir. Sjá meðfylgjandi myndir sem Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður tók við hátíðarhöldin.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.   Mynd: JPA: Áhöfn TF-SIF æfði björgun úr sjó og úr skipi með Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.   Mynd JPA: Flotgallasund. Keppni milli Landhelgisgæslunnar og Slysavarnarfélagins Landsbjargar.   Mynd JPA: Svanhildur starfsmannastjóri komin um borð í Ægi að heilsa upp á starfsfélagana og skoða skipið. Birgir H. Björnsson stýrimaður í gestgjafahlutverkinu.   Mynd DS: Nokkur hundruð gesta heimsóttu varðskipið Ægi.   Mynd JPA.       Lesa meira

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti slasaðan mann eftir bílslys á Bíldudal - 26.9.2004

Sunnudagur 26. september 2004. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, sótti slasaðan mann á Bíldudal í morgun en hann hafði lent í bílslysi.  Þyrlan fór frá Reykjavíkurflugvelli kl. 6:16 og lenti á flugvellinum á Bíldudal kl. 7:30.  Þaðan var haldið til baka með hinn slasaða kl. 7:50 og lenti þyrlan við slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss kl. 8:35. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.   Lesa meira

Slasaður smalamaður sóttur með þyrlu - 26.9.2004

Sunnudagur 26. september 2004. Neyðarlínan hringdi í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 10:57 og gaf samband við björgunarsveitina Lífsbjörg í Álftaveri.  Þar fengust þær upplýsingar að smalamenn hefðu óskað eftir aðstoð þyrlu sem fyrst en ekki var vitað hvers vegna.  Björgunarsveitin ætlaði að afla frekari upplýsinga. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar var þegar látin vita.  Neyðarlínan gaf síðan aftur samband við björgunarsveitina en þá bárust þær upplýsingar að smalamaður hefði slasast við fjallið Strút, rétt vestan við Hólmsárlón.  Hann hafði slasast við fall af fjórhjóli. Þyrlan fór í loftið kl. 11:22 og var komin á staðinn kl. 12:05.  Þaðan var haldið 13 mínútum síðar og lent við slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss í Fossvogi kl. 13:04. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.   Lesa meira

Umfjöllun um varnarmál á Íslandi, Landhelgisgæsluna og varnarliðið í dönskum fjölmiðlum - 24.9.2004

Föstudagur 24. september 2004. Á heimasíðu danska hersins er greint frá því að fjallað verði um Ísland í þættinum ,,Military Talk” á sjónvarpsstöðinni dk4 kl. 22:30 að dönskum tíma í kvöld ( kl. 20:30 að íslenskum tíma).  Í þættinum verður m.a. fjallað um varnarmál Íslands, varnarliðið og Landhelgisgæsluna.  Hægt er að sjá þáttinn á netinu á eftirfarandi slóð með því að smella á dálk hægra megin á síðunni sem merktur er “Military Talk” :http://forsvaret.dk/FTVM/dan/Nyt+og+Presse/24092004-lbv001.htm Á heimasíðunni er athyglisverð umfjöllun um stöðu varnarmála á Íslandi.  M.a. er sagt frá því að Bandaríkjamenn hafi mætt kröftugri andstöðu Íslands gagnvart áætlunum um að flytja F15 orrustuflugvélar heim.  Military Talk fór í heimsókn til Íslands og fór nánar í saumana á varnarmálum þar.  Gestur þáttarins er nýi tengiliður danska sjóhersins á Keflavíkurflugvelli, Michael Kristensen (kommandørkaptajn). Sjá umfjöllun um komu dönsku fjölmiðlamannanna til Landhelgisgæslunnar í ágúst sl. á heimasíðu Landhelgisgæslunnar: http://lhg.is/displayer.asp?cat_id=4&module_id=220&element_id=1440 Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.  Mynd/Jón Erlendsson flugvirki: Kvikmyndatökumaður frá danska hernum, Jeppe, myndar varðskip í Reykjavíkurhöfn úr TF-LIF eftir vel heppnaða æfingu í fjallahífingum í ágúst sl. Lesa meira

Öryggisvika sjómanna sett um borð í Sæbjörgu - 24.9.2004

Föstudagur 24. september 2004. Öryggisvika sjómanna var formlega sett í morgun um borð í Sæbjörgu, skipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, við Reykjavíkurhöfn.  Fyrirhugað var að Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri myndu síga úr þyrlu Landhelgisgæslunnar niður í skipið en vegna veðurs varð að hætta við það.  Samgönguráðherra hélt opnunarræðu þar sem hann sagði m.a. að öryggi sjófarenda væri best tryggt með góðri og stöðugri þjálfun sjómanna og samstilltu átaki stjórnvalda, útgerðar og sjómanna á sviði öryggismála.  Síðan setti hann formlega öryggisviku sjómanna með því að þeyta lúður Sæbjargar. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Mynd DS: Sturla Böðvarsson samgönguráðherra heldur opnunarræðu.  Frá vinstri Unnur Sverrisdóttir lögfr. í samgönguráðuneytinu, samgönguráðherra, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri, Hermann Guðjónsson siglingmálastjóri. Mynd DS: Gestir um borð í Sæbjörgu hlýða á ræðu ráðherra. Mynd DS:  Samgönguráðherra flautar inn öryggisviku sjómanna ásamt skólastjóra slysavarnarskóla sjómanna og skipstjóra Sæbjargar, Hilmari Snorrasyni.   Mynd DS: Kristbjörn Óli Guðmundsson framkvæmdastjóri Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Guðjón Ármann Eyjólfsson fyrrverandi skólastjóri Stýrimannaskólans, Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður og formaður samgöngunefndar, Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri og Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri Landhelgisgæslunnar. Mynd DS: Kristján Þ. Jónsson yfirmaður gæsluframkvæmda ræðir málin við Sturlu Böðvarsson samgönguráðherra. Lesa meira

Öryggisvika sjómanna 24. september - 1. október - Forvarnir auka öryggi - 23.9.2004

Fimmtudagur 23. september 2004.   Í tengslum við alþjóðasiglingadaginn 26. september n. k. er í annað sinn  haldin Öryggisvika sjómanna dagana 24. september – 1. október 2004. Þema hennar er að þessu sinni “Forvarnir auka öryggi”.   Dagskrá vikunnar er í grófum dráttum þessi:   Föstudaginn 24. september, kl. 10:45 leggur Sæbjörg, skólaskip Slysavarna­félagsins Landsbjargar, úr höfn frá Miðbakkanum í Reykjavík. Siglt verður út á Ytri höfnina þar sem Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, og Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri, síga úr þyrlu Landhelgisgæslunnar um borð. Um kl. 11:00 setur ráðherra Öryggisviku sjómanna 2004 og að því loknu verður kynning á dagskrá vikunnar.   Á Alþjóðasiglingadaginn, sunnudaginn 26. september, kl. 13:00 til 16:00 verða hátíðarhöld í tilefni dagsins á Miðbakkanum í Reykjavík. Með hátíðarstjórn fer Guðmundur Hallvarðsson, formaður samgöngunefndar Alþingis.  Þar verða til sýnis varðskip, hafrannsóknarskip, björgunarskip SL og fiskibátar auk þess sem skólaskipið Sæbjörg verður opin gestum. Þar verður m.a. kynning á áætlun um öryggi sjófarenda og kaffisala slysavarnakvenna. Dregið verður í happdrætti og er óvæntur vinningur sem tengist öryggismálum sjómanna.  Miðar verða afhentir á staðnum.   Landhelgisgæslan mun sýna björgun úr sjó með þyrlu kl. 13:30 og  keppt verður  í flotgallasundi milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Landhelgisgæslunnar kl. 14:30.   Föstudaginn 1. október, kl. 10:00 – 18:00 lýkur Öryggisvikunni með ráðstefnu um öryggismál sjómanna í hátíðarsal Sjómannaskólans í Reykjavík. Með fundarstjórn fara Unnur Sverrisdóttir, formaður verkefnisstjórnar áætlunar um öryggi sjófarenda og Guðjón Á. Einarsson, framkvæmdastjóri Félags skipstjórnarmanna. Dagskrá ráðstefnunnar er eftirfarandi: Setning ráðstefnu. Áætlun um öryggi sjófarenda. Siglingastofnun Íslands. Skiparannsóknir Siglingastofnunar Íslands. Siglingastofnun Íslands. Hvað er sjóveiki? Hannes Petersen læknir. Vinnuvistfræði fyrir sjómenn. Magnús H. Ólafsson, sjúkraþjálfari. Kynning á öryggisfulltrúakerfi. Ágúst Þorsteinsson, Öryggiskeðjan ehf. Notkun þjónustu- og þjálfunarhandbóka. Siglingastofnun Íslands. Reynslan af forvörnum í skipum. Gunnar Tómasson, Þorbjörn-Fiskanes hf. Reynslan af forvörnum í flutningaskipum. Eyþór H. Ólafsson, Eimskip. Lokaerindi. Ásbjörn Óttarsson skipstjóri. Umræður og fyrirspurnir. Pallborðsumræður.   Veitingar á ráðstefnunni verða í boði samgönguráðuneytis og Siglingastofnunar Íslands. Meðan á ráðstefnu stendur verður hin glæsilega sýning “Í örugga höfn” höfð uppi í Sjómannaskólanum en þar er um að ræða gamlar og nýjar myndir tengdar sjó og siglingum.   Samgönguráðuneytið, Siglingastofnun Íslands, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Landhelgisgæsla Íslands, Samband íslenskra kaupskipaútgerða, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands og Sjómannasamband Íslands.       Auglýsing á pdf- formi Lesa meira

Varðskipsmenn skipta um öldudufl út af Austfjörðum - 20.9.2004

Mánudagur 20. september 2004. Það er afar mikilvægt fyrir sjófarendur að hafa upplýsingar um ölduhæð á þeim hafsvæðum sem þeir sigla um. Víða hefur öldumælisduflum verið komið fyrir og er hægt að fá upplýsingar um ölduhæð hjá Siglingastofnun og Veðurstofunni. Varðskipsmenn sjá um að skipta út öldumælisduflum með vissu millibili.  Einnig kemur fyrir að öldumælisdufl tapast og þá þarf að koma nýjum fyrir.  Nauðsynlegt er að taka duflin í land endrum og sinnum til að skipta um rafhlöður í þeim og yfirfara þau áður en þeim er aftur komið fyrir úti á sjó.  Duflin eru í eigu Siglingastofnunar sem sér um að skoða þau og lagfæra. Á meðfylgjandi mynd sem Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður tók nýlega undan Kögri á Austfjörðum eru hásetarnir á Ægi, Jóhannes Ægisson og Jóhann Örn Sigurjónsson að skipta um dufl á legufærum.  Þeir eru búnir að ná duflinu um borð og eru að undirbúa að koma nýju fyrir. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Lesa meira

Skipbrotsmenn af kanadíska tundurspillinum Skeena heimsóttu Landhelgisgæsluna - 20.9.2004

Mánudagur 20. september 2004. Sjö skipbrotsmenn af kanadíska tundurspillinum Skeena sem fórst við Viðey 25. október 1944 heimsóttu Landhelgisgæsluna sl. föstudag. Ættingjar þeirra og látinna skipverja voru með í för. Eins og kunnugt er var 198 manns bjargað í sjóslysinu og átti Einar Sigurðsson skipstjóri á Aðalbjörginni heiðurinn af því. Einn af skipbrotsmönnunum, Ted Maidman, hafði sérstaklega orð á því hversu vel Landhelgisgæslan hefði staðið sig er ungum Kanadamanni var bjargað er skútan Silver sökk 30. ágúst sl. og hafði meðferðis blaðaúrklippu úr kanadísku dagblaði þar sem sagt var frá björguninni. Á meðfylgjandi mynd eru skipbrotsmennirnir ásamt Hafsteini Hafsteinssyni forstjóra og sendiherra Kandada á Íslandi, Richard Tetu.  Frá vinstri Norm Perkins, Ed Parsons, Jim Ross, Gord Calam, Norm Davidsson, Hafsteinn Hafsteinsson, Richard Tetu og sitjandi Ted Maidman. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Mynd DS: Skipbrotsmennirnir ásamt forstjóra Landhelgisgæslunnar og sendiherra Kanada á Íslandi.   Mynd DS: Norm Perkins og Ted Maidman. Lesa meira

Áhöfn TF-SIF kölluð út vegna tveggja fiskibáta sem var saknað - 15.9.2004

Miðvikudagur 15. september 2004 Tilkynningarskyldan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 14:21 og tilkynnti að tveir fiskibátar hefðu horfið út úr sjálfvirka tilkynningarkerfinu og ekkert samband næðist við þá.  Þetta voru bátarnir Ólafur HF-251 og Ólafur HF-200.  Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út og var TF-SIF reiðubúin til flugs þegar tilkynning barst um að bátarnir hefðu fundist. Þeir höfðu siglt 60 sjómílur út af Reykjanesi og voru því komnir út fyrir farsvið sitt, þ.e. það hafsvæði sem leyfilegt er miðað við þann fjarskiptabúnað sem er um borð í bátunum. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Lesa meira

Varnarliðsþyrlur, í fylgd TF-SYN, sóttu slasaðan rússneskan sjóliða - 14.9.2004

Þriðjudagur 14. september 2004.   Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk tilkynningu frá Varnarliðinu kl. 13:17 um að rússnesk yfirvöld hefðu óskað aðstoðar vegna slasaðs manns um borð í rússneska herskipinu Admiral Chabanenko. Skipið var þá statt 230 sjómílur suðsuðaustur af Reykjavík.  Læknir var um borð í Admiral Chabanenko og hafði hann gert aðgerð á hinum slasaða en nauðsynlegt var að flytja hann á sjúkrahús.   Varnarliðið var reiðubúið að senda tvær þyrlur af stað en óskaði eftir fylgdarflugvél frá Landhelgisgæslunni þar sem um svo langa vegalengd var að ræða.  Þyrlur Varnarliðsins fóru af stað um kl. 13:50.    Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar,TF-SYN, var í gæsluflugi þegar tilkynningin barst og lenti á Reykjavíkurflugvelli til að taka eldsneyti en hélt síðan af stað til fylgdar þyrlunum kl. 15:24.    Önnur varnarliðsþyrlan lenti með hinn slasaða við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi um kl. 17:50 og TF-SYN lenti á Reykjavíkurflugvelli um svipað leyti.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.   Lesa meira

Stýrimenn varðskipsins Týs aðstoðuðu veikan skipverja á togbátnum Siglunesi - 8.9.2004

Miðvikudagur 8. september 2004.   Skipstjórinn á togbátnum Siglunesi SH-22 hafði samband við varðskipið Tý í gærkvöldi og óskaði eftir aðstoð vegna veiks skipverja sem missti meðvitund af og til.  Skipin voru þá stödd á Breiðafirði.  Að sögn Thorbens Lund yfirstýrimanns varðskipsins fór hann ásamt 2. stýrimanni með léttbát varðskipsins yfir að Siglunesi og voru þeir komnir um borð 10 mínútum síðar með skyndihjálparbúnað og hjartastuðtæki úr varðskipinu.  Stýrimennirnir hlúðu að sjúklingnum og voru hjá honum í skipinu þar til það kom til hafnar í Ólafsvík og fylgdu honum þaðan í sjúkrabíl á heilsugæslustöðina. Eftir skoðun læknis var hann sendur með sjúkrabíl á hjartadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss og er líðan hans eftir atvikum góð.   Stýrimenn varðskipsins eru lærðir sjúkraflutningamenn og hafa m.a. starfað sem sigmenn um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar. Þeir hafa einnig verið í starfsnámi á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Þekking þeirra hefur oft og tíðum komið að góðu gagni þegar menn veikjast eða slasast úti á sjó.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.     Lesa meira

Landhelgisgæslan fær nýja hafnaraðstöðu á Faxagarði - Varðskipið Týr flutti nýtt varðskýli til Reykjavíkurhafnar í dag - 8.9.2004

Miðvikudagur 8. september 2004. Varðskipið Týr flutti nýtt varðskýli Landhelgisgæslunnar frá Keflavíkurhöfn til Reykjavíkur í dag.  Landhelgisgæslan fær nýja hafnaraðstöðu á Faxagarði þar sem varðskýlinu var komið fyrir. Undanfarin ár hefur verið rætt um að færa þurfi hafnaraðstöðu Landhelgisgæslunnar frá Ingólfsgarði því hún hefur ekki þótt henta nægilega vel fyrir varðskipin.  Eftir viðræður við Reykjavíkurhöfn bauð hafnarstjórinn Landhelgisgæslunni nýja hafnaraðstöðu á Faxagarði.  Í framhaldi af því var farið að kanna möguleika á að kaupa nýtt varðskýli fyrir Landhelgisgæsluna því að gamla varðskýlið á Ingólfsgarði er komið til ára sinna og uppfyllir ekki lengur kröfur sem gerðar eru til vinnuaðstöðu.  Dómsmálaráðuneytið samþykkti í apríl á þessu ári að Landhelgisgæslan fjármagnaði nýtt varðskýli með fé úr Landhelgissjóði.  Í framhaldi af því var smíði varðskýlisins boðin út.  Tilboð voru opnuð í júní og var gengið til samninga við Vélsmiðjuna Eldafl sem átti lægsta tilboðið.  Varðskýlið var smíðað í Njarðvík og flutti varðskipið Týr það til Reykjavíkurhafnar í dag.  Vel gekk að koma því fyrir á varanlegan stað.  Fyrirhugað er að varðskýlið og nýja hafnaraðstaðan verði tekin í notkun um mánaðarmótin september-október næstkomandi.  Hafrannsóknarstofnun hefur einnig hafnaraðstöðu fyrir skip sín á Faxagarði og mun samnýta varðskýlið með Landhelgisgæslunni. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Mynd Steinar Clausen:  Varðskipið Týr á leið út úr Keflavíkurhöfn með varðskýlið á dekkinu. Mynd Steinar Clausen: Thorben Lund yfirstýrimaður og Sigurður Steinar Ketilsson skipherra við komuna til Reykjavíkur. Mynd DS: Verið að gera húsið klárt fyrir flutning. Mynd DS: Vel gekk að hífa varðskýlið frá borði. Mynd DS: Varðskýlið ,,að lenda" á bryggjunni og Steinar Clausen hinn ánægðasti með nýja vinnustaðinn sinn. Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri fylgist með. Lesa meira

Nordic Saga Cup 2004 - 7.9.2004

Þriðjudagur 7. september 2004.   Tvö dönsk varðskip voru í Reykjavíkurhöfn um helgina.  Af því tilefni var skipulagt íþróttamót þar sem lið Landhelgisgæslunnar atti kappi við lið varðskipsins Tritons og varðskipsins Vædderen.    Íþróttamótið fékk heitið Nordic Saga Cup 2004 og var haldið á Leiknisvellinum í Breiðholti á laugardeginum.  Fótboltakeppni hófst kl. 10:30 um morguninn.  Fyrst kepptu lið Tritons og Vædderen og sigraði lið Tritons 3-1.  Þar næst keppti lið Landhelgisgæslunnar við lið Tritons og sigraði Landhelgisgæslan 4-0.  Ekki gekk eins vel gegn Vædderen en þar tapaði Landhelgisgæslan 3-2.  Dómarinn, úr liði Tritons, dæmdi víti á Landhelgisgæsluna á síðustu mínútunni og var í herbúðum Landhelgisgæslunnar talað um dómarahneyksli, en allt þó í góðlátlegu gríni.  Markaskorarar Landhelgisgæslunnar voru Björn Brekkan Björnsson flugmaður með tvö mörk, Tómas Vilhjálmsson flugvirki, Magnús Örn Einarsson stýrimaður, Óskar Á. Skúlason og Árni Jóhannesson með eitt mark.   Er fótboltakeppnin var yfirstaðin var farið í reiptog og stóð lið Tritons uppi sem sigurvegari. Að keppni lokinni bauð áhöfn Tritons hinum liðunum og áhangendum þeirra um borð í Triton þar sem boðið var upp á léttar veitingar.  Þar fór fram verðlaunaafhending þar sem gestgjafarnir fengu glæsilegan farandbikar fyrir góða frammistöðu í reiptoginu en lið Vædderen fékk verðlaunaskjöld til eignar fyrir sigur á mótinu í heild.  Lið Landhelgisgæslunnar varð því að láta sér nægja að gleðjast yfir góðri frammistöðu í fótboltakeppninni en þar skoraði Landhelgisgæslan flest mörk þótt stigatalan gæfi það ekki til kynna.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Aðalmarkaskorari Landhelgisgæslunnar, Björn Brekkan Björnsson flugmaður, hefur sig til flugs.  Hann skoraði tvö mörk gegn Triton en gat því miður ekki verið lengi inni gegn Vædderen vegna meiðsla. Halldór Nellett skipherra hreinsar frá markinu með því að taka undir sig stökk og skalla boltann.  Hann sýndi snilldartakta í boltanum og áhorfendur sáu ekki betur en að hann færi heljarstökk í viðureign sinni við Triton-liðið. Magnús fjármálastjóri einbeittur í sókninni og Halldór Nellett skipherra á næstu grösum. Óskar Á. Skúlason háseti í kröppum dansi að hreinsa frá markinu. Hann skoraði eitt mark af 6. Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri mættur til að horfa á sína menn í boltanum, ánægður með markaskorarann Björn Brekkan Björnsson flugmann. Landhelgisgæslumenn efla liðsandann með sigurhring og stríðsöskri fyrir leik. Spenntir áhorfendur og hluti liðsins á hliðarlínunni, þ.á.m. markaskorararnir Björn og Magnús Örn Einarsson stýrimaður. Hilmar Sigurðsson vélstjóri var í góðum gír í dómarahlutverkinu. Lið Landhelgisgæslunnar: Tómas Vilhjálmsson flugvirki, Halldór Nellett skipherra, Viggó M. Sigurðsson háseti/kafari, Marvin Ingólfsson háseti/kafari, Árni Jóhannesson afleysingamaður, Ragnar Georgsson ftr. í tæknideild, Róbert Örn Pétursson afleysingamaður, Sigurður Heiðar Wiium flugmaður, Óskar Á. Skúlason háseti/kafari, Magnús Gunnarsson fjármálastjóri, Magnús Örn Einarsson stýrimaður og Daníel Hjaltason flugvirki.  Þeir sem hafa heitið afleysingamenn voru "ráðnir" tímabundið yfir daginn vegna einstakra fótboltahæfileika. Keppnislið danska varðskipsins Triton. Keppnislið danska varðskipsins Vædderen fagnar í lok fótboltamótsins. Hér sést lið Vædderen taka vel á í reiptoginu.  Lesa meira

Northern Challenge 2004 fær góða dóma á heimasíðu norska sjóhersins - 7.9.2004

Þriðjudagur 7. september 2004.   Á heimasíðu norska sjóhersins er fjallað um fjölþjóðlega æfingu sprengjueyðingarsveita, Northern Challenge 2004, sem Landhelgisgæslan stóð fyrir í samvinnu við Varnarliðið frá 30. ágúst – 3. september.  Þar er meðal annars viðtal við yfirmann sprengjueyðingarsveita norska sjóhersins, Morten A. Høvik og haft eftir honum að hann hafi ekki upplifað eins árangursríka æfingu á þessu sviði í fleiri ár. Sjá fréttina á slóðinni: http://www.mil.no/sjo/start/article.jhtml?articleID=82403   Í viðtali við Morten kemur m.a. fram að unnið hafi verið frá kl. 7 á morgnana og stundum fram á nótt.  Keppendum gafst lítið tóm til að kynnast landi og þjóð þar sem dagskrá æfingarinnar var mjög þétt en sum liðin fóru í stutta skoðunarferð sl. laugardag áður en landið var yfirgefið.   Á æfingunni náðu sprengjueyðingarsveitirnar að ljúka 130 verkefnum á árangursríkan hátt.  Áhöfn varðskipsins Týs tók virkan þátt í æfingunni í samvinnu við kafarasveit Landhelgisgæslunnar en viðbrögð við hryðjuverkum í höfnum voru sérstaklega æfð í tilefni af nýjum lögum um siglingavernd.   Sjá meðfylgjandi myndir sem sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar tóku á meðan á æfingunni stóð, m.a. af sprengjusérfræðingum og vélmenni að störfum og stjórnstöð æfingarinnar í hýbýlum varnarliðsins.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.                       Lesa meira

Þrír menn björguðust er bátur þeirra sökk norðvestur af Skagatá - 2.9.2004

Fimmtudagur 2. september 2004. Tilkynningarskyldan lét vita kl. 4:53 að leki væri kominn að dragnótarbátnum Kópnesi ST-046, 27 sjómílur norðvestur af Skagatá.  Togarinn Kaldbakur EA-1 var þá í 6 sjómílna fjarlægð frá Kópnesi.  Fimm mínútum síðar var tilkynnt að áhöfnin, 3 menn, væru að fara í björgunarbáta og að veður væri gott á svæðinu.  Skömmu síðar lét Tilkynningarskyldan vita að Kópnesið væri að sökkva og að vel hefði gengið að setja út björgunarbáta. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, var kölluð út og fór í loftið kl. 5:28.  Þegar þyrlan hafði verið á flugi í um 10 mínútur var hún afturkölluð þar sem búið var að bjarga mönnunum um borð í Kaldbak EA-1. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Lesa meiraÞetta vefsvæði byggir á Eplica