Áhugaverður fyrirlestur um störf Landhelgisgæslunnar á Miðjarðarhafi

Marvin Ingólfsson stýrimaður og sprengjusérfræðingur hjá Landhelgisgæslunni hélt áhugaverðan fyrirlestur nú í vikunni hjá Félagi skipa- og bátaáhugamanna sem haldinn var í Víkinni, Sjóminjasafninu í Reykjavík. Fyrirlesturinn fjallaði um störf Landhelgisgæslunnar á Miðjarðarhafi við eftirlit og björgun flóttamanna á vegum Frontex, Landamærastofnunar Evrópusambandsins. Í fyrirlestri sínum talaði Marvin meðal annars um hvernig Landhelgisgæslan undirbjó starfsmenn sína fyrir þessi erfiðu verkefni og hvernig var staðið að undirbúningi um borð í varðskipunum til að undirbúa þau eins vel og kostur var fyrir þau fjölbreyttu verkefni sem búist var við. Einnig sagði Marvin frá nokkrum erfiðum og krefjandi björgunaraðgerðum sem áhafnir Landhelgisgæslunnar tóku þátt í. Að lokum kynnti Marvin fyrir áhugasömum gestunum hvað ber að hafa í huga við verkefni af þessu tagi til þess að koma megi í veg fyrir slys í aðstæðum þar sem lítið má út af bregða og hversu auðvelt það sé að missa stjórn á aðstæðum ef undirbúningur, skipulag og stjórnun á vettvangi er ekki fullnægjandi.

Landhelgisgæslan kom að björgun þúsunda flóttamanna er hún starfaði á Miðjarðarhafi og reynsla starfsmanna þaðan er ómetanleg. Mikið af verkferlum og verklagsreglum sem Landhelgisgæslan útbjó sérstaklega fyrir verkefnið, þróuðust meðan á því stóð og nýtist Landhelgisgæslunni einnig í dag við hefðbundin björgunar- og eftirlitsstörf við Ísland. Þá hafa aðrar þjóðir sem þátt hafa tekið í verkefnum á Miðjarðarhafinu á vegum Landamærastofnunar Evrópusambandsins, leitað til Landhelgisgæslunnar og óskað eftir aðstoð starfsmanna við undirbúning og nýtt verkferla Landhelgisgæslunnar.


Þessir Landhelgisgæslukappar þekkja verkefnin á Miðjarðarhafi í þaula af eigin reynslu.
Frá vinstri: Marvin Ingólfsson, Valgeir Baldursson, Magnús Guðjónsson og Rafn Sigurgeir Sigurðsson.


Fjöldi gesta sótti þennan áhugaverða fyrirlestur.