Bátur strandar undan Álftanesi

  • _MG_0659

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst rétt fyrir klukkan fjögur í dag beiðni um aðstoð í gegnum neyðar- og uppkallsrás VHF 16 frá bát sem strandað hafði undan Álftanesi en leki hafði komið að vélarrúmi bátsins. Einn maður var um borð og óskaði hann aðstoðar við að komast í land.

Þá þegar kölluðu varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á bátaflokka björgunarsveitanna í Kópavogi, Hafnarfirði og Reykjavík. Um hálftíma eftir að útkall barst kom björgunarsveitarbáturinn Stefnir frá Kópavogi á vettvang. Skömmu síðar komu einnig björgunarsveitarbátarnir Gróa P. frá Seltjarnarnesi og Fiskaklettur frá Hafnarfirði en hann kom með dælur sem náðist að koma um borð í bátinn. Var hann svo dreginn til Hafnarfjarðar.