Benóný Ásgrímsson flugstjóri fagnar 50 ára starfsafmæli í dag

Benóný Ásgrímsson flugstjóri fagnar 50 ára starfsafmæli sínu hjá Landhelgisgæslu Íslands í dag. Benóný á að baki hreint stórkostlegan feril sem þyrluflugstjóri og er að öðrum ólöstuðum reynslumesti flugstjóri landsins í leitar- og björgunarflugi og þótt víðar væri leitað.

Samstarfsfélagar Benónýs hjá Landhelgisgæslunni komu kappanum á óvart í dag með köku og blómum og gátu ekki staðist mátið að slá á létta strengi og árita kökuna með áminningu þess efnis að Benóný hóf störf sem viðvaningur á varðskipum Landhelgisgæslunnar fyrir 50 árum síðan. Hann hefur síðan þá siglt sem stýrimaður á varðskipum Landhelgisgæslunnar, sinnt starfi flugstjóra á bæði þyrlu og flugvél og gegnt margvíslegum stjórnunar- og trúnaðarstörfum innan Landhelgisgæslunnar, svo sem starfi skipherra, yfirflugstjóra og flugrekstrarstjóra.

Starfsferill Benónýs er einstakur enda kappinn sjálfur ótrúlegur maður sem sinnt hefur störfum sínum af elju og dugnaði með velferð starfsemi Landhelgisgæslunnar og samstarfsfélaga að leiðarljósi. Um leið og Benóný fagnar hinu risastóra starfsafmæli stendur hann þyrluvaktina þessa helgina og þjálfar um leið verðandi flugstjóraefni Landhelgisgæslunnar.

 
Kappinn var ánægður með hina óvæntu köku og blómvönd frá samstarfsfélögum