Benóný sæmdur fálkaorðunni

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sæmdi á nýársdag tólf Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Efnt var til hátíðlegrar athafnar á Bessastöðum af þessu tilefni. Á meðal þeirra sem hlutu þessa viðurkenningu var Benóný Ásgrímsson fyrrverandi flugstjóri hjá Landhelgisgæslu Íslands. Hann var sæmdur riddarakrossi fyrir björgunarstörf og framlag til íslenskra flugmála. 

2007-01-24,-Benni-b

Benóný þarf vart að kynna fyrir landsmönnum enda er hann einn fræknasti flugkappi okkar Íslendinga, Hann á að baki hreint stórkostlegan feril sem þyrluflugstjóri og er að öðrum ólöstuðum reynslumesti flugstjóri landsins í leitar- og björgunarflugi og þótt víðar væri leitað.Benóný fagnaði hálfrar aldar starfsafmæli sínu hjá Landhelgisgæslunni í ágúst síðastliðnum og í október var svo blásið til viðhafnarsamkomu þegar hann flaug sitt síðasta flug hjá Landhelgisgæslunni. Starfsmenn stóðu heiðursvörð og slökkvilið Reykjavíkurflugvallar myndaði heiðursboga yfir þyrluna er hún renndi í hlað. 

Við óskum Benóný innilega til hamingju með þessa verðskulduðu viðurkenningu.