Fallbyssur bætast við vopnabúrið

Þrjár fallbyssur sem áður voru í geymslu Þjóðminjasafnsins komnar í vörslu Landhelgisgæslunnar.

Það bættist aðeins við vopnabúr Landhelgisgæslunnar í vikunni. Þrjár fallbyssur, sem áður voru í geymslum Þjóðminjasafnsins, eru nú aftur komnar í vörslu Landhelgisgæslunnar. Tvær þeirra eru með 47 millimetra hlaupvídd en sú þriðja er örlítið stærri, eða 57 millimetrar.

Fallstykkin eru komin töluvert til ára sinna en bera þrátt fyrir allt aldurinn vel. 47 millimetra byssurnar eru af tegundinni Canon Hotchkiss. Talið er að hátt í þrjú þúsund slíkar byssur hafi verið smíðaðar frá því undir lok 19. aldar fram á miðja 20. öldina. Sjóherir fjölmargra ríkja notuðu þessar fallbyssur á fyrri hluta 20. aldarinnar, þar á meðal sá franski, breski, bandaríski og rússneski. Um allöflugt vopn er að ræða, byssan tekur 3,3 punda skot sem hægt er að skjóta hátt í fjóra kílómetra.

IMG_0334ii

Nokkur varðskip Landhelgisgæslunnar voru á sínum tíma búnar Canon Hotchkiss-fallbyssum. Þar á meðal voru varðskipin Óðinn, María Júlía, Albert og Sæbjörg. Að því er fram kemur í upplýsingum frá Byggðasafninu Görðum, Akranesi, voru slíkar byssur á sitthvorum brúarvæng varðskipsins Þórs þegar það kom hingað til lands 1951 en þær voru fjarlægðar nokkrum árum síðar. Í þorskastríðunum 1972-1976 var Hotchkiss-fallbyssunum svo komið fyrir aftan til á skipunum.

Nokkrar af fallbyssum Landhelgisgæslunnar eru til sýnis almenningi á söfnum víða um land, á Akranesi, Ísafirði og Keflavík. Byssurnar sem nú hafa bæst í safnið verða geymdar að sinni í hirslum Landhelgisgæslunnar en vonir standa til að hægt verði að sýna þær almenningi þegar fram líða stundir, rétt eins og hinar byssurnar sem í dag er hægt að virða fyrir sér hingað og þangað um landið.