Forsetinn hífður um borð í þyrluna

Hátt í tvö þúsund manns skoðuðu varðskipið Þór á 112-deginum

Það var mikið um dýrðir við Hörpu og Reykjavíkurhöfn í gær þegar 112-dagurinn var haldinn hátíðlegur. Allir helstu viðbragðsaðilar sýndu tól sín og tæki. Þá var almenningi boðið að skoða varðskipið Þór og Sæbjörg, slysavarnaskóla sjómanna, við Faxagarð. Óhætt er að segja að viðtökurnar hafi verið góðar. Í þær þrjár klukkustundir sem varðskipið Þór var opið komu hátt í tvö þúsund manns um borð.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var á meðal gesta á 112-deginum. Hann skoðaði það sem fyrir augu bar á svæðinu en fór svo um borð í varðskipið Þór til að undirbúa sig fyrir björgunaræfingu með Landhelgisgæslunni og Slysavarnafélaginu Landsbjörg. 

16709481_10155243927085166_622964931_o
Gísli Valur Arnarson yfirstýrimaður fer yfir öryggisbúnaðinn með forsetanum. Mynd: Jóhann K. Jóhannsson

Þegar forsetinn var kominn í viðeigandi galla fór hann um borð í Ásgrím Björnsson, björgunarskip Landsbjargar, sem ferjaði hann svo út á miðja höfn. Björgunarsveitarfólk kveikti á neyðarblysum en forsetinn stökk út í sjóinn með stýrimanni hjá Landhelgisgæslunni. Um svipað leyti kom þyrlan TF-LIF fljúgandi með tilheyrandi gný. Viðstaddir fylgdust æsispenntir með þegar sigmaður þyrlunnar seig niður eftir forsetanum og hífði hann svo um borð. Allt gekk að óskum og gleðibylgja fór um mannmergðina þegar Guðni forseti sat sallarólegur í dyrum þyrlunnar og veifaði þeim sem niðri voru. Að því búnu flaug þyrlan á braut. Áður en hún lenti á Reykjavíkurflugvelli tók hún hring yfir forsetasetrinu á Bessastöðum.

Forseti2
Mynd: Árni Sæberg.

Síðar um daginn var tilkynnt um valið á skyndihjálparmanni ársins 2016 en Rauði krossinn gengst fyrir þessu vali á hverju ári. Unnur Lísa Schram var að þessu sinni útnefnd. Hún bjargaði eiginmanni sínum, Eiríki Þórkelssyni á öðrum degi jóla á giftursamlegan hátt þegar hann fékk hjartaáfall. Þau hjónin búa ásamt börnum á Vorsabæ á Skeiðum í Árnessýslu. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti Eirík á sjúkrahús í Reykjavík.

IMG_1377
Forsetinn skoðar sprengjuróbóta Landhelgisgæslunnar. 

Þessir aðilar stóðu að 112-deginum 2017: 112, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn á Íslandi, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Mannvirkjastofnun, Landspítali, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Ríkislögreglustjórinn, embætti landlæknis, Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, Barnaverndarstofa, Landhelgisgæsla Íslands, Vegagerðin og samstarfsaðilar um allt land.