Fréttir

Fyrirmyndardagurinn er í dag

Marta Sóley Helgadóttir kynnti sér störf Landhelgisgæslunnar á fyrirmyndardegi Vinnumálastofnunar

24.11.2017

Fyrirmyndardagurinn er nú haldinn í fjórða sinn í dag á vegum Vinnumálastofnunar. Það eru 124 fyrirtæki sem taka þátt í þessum degi í dag og eru gestastarfsmennirnir 124.

Landhelgisgæslan er ein þeirra stofnana sem taka þátt í þessum degi og við vorum svo heppin að fá Mörtu Sóleyju Helgadóttur í heimsókn til okkar. Marta hóf daginn með því að kynna sér verkefni sjómælingabátsins Baldurs. Þar tók Andri Leifsson stýrimaður á móti henni og sagði henni frá lífinu um borð og sýndi tækin, allt frá sextanti til fjölgeislamælis. 


Því næst var förinni heitið í varðskipið Tý, sem var líka bundið við bryggju við Faxagarð í Reykjavíkurhöfn. Eftir stutta skoðun á þilfarinu var gott að koma inn í hlýjuna þar sem Einar Hansen vélstjóri bauð upp á kaffi og kex. Umræðuefnin yfir kaffinu voru um allt milli himins og jarðar: sjóveiki, næturvaktir, þorskastríð og margt fleira. Marta kíkti að sjálfsögðu bæði upp í brú og niður í vél - heila og hjarta skipsins. 


Til stóð að fara í siglingu með aðgerðabátnum Óðni en vegna hryssingslegs veðurs og leiðindasjólags varð ekki af því. Í staðinn fór Marta í heimsókn í flugdeild Landhelgisgæslunnar og skoðaði þyrlukostinn okkar.

IMG_5347

Fyrirmyndardagurinn er mikilvægur liður í því að auka möguleika fatlaðs fólks á fjölbreyttari atvinnuþátttöku. Markmið dagsins er að  fyrirtæki og stofnanir bjóði atvinnuleitendum með skerta starfsgetu að vera gestastarfsmenn fyrirtækisins í einn dag. Með því fá gestastarfsmenn innsýn í fjölbreytt störf og starfsmenn fyrirtækja kynnast styrkleikum atvinnuleitenda með skerta starfsgetu.

Við þökkum Mörtu Sóleyju kærlega fyrir heimsóknina og vonum að hún hafi haft gagn og gaman af. 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica