Góðar gjafir bárust þyrlusveit LHG

Barkakýlisspeglar með myndavél verða nú um borð í þyrlum Gæslunnar

Landhelgisgæslan fékk afhent í morgun afar þýðingarmikil tæki til að nota við meðhöndlun sjúklinga um borð í þyrlum. Um er að ræða svonefndan barkakýlisspegla með myndavél (video laryngoscope). Þessi tæki eiga eftir að auðvelda mjög barkaþræðingar um borð í þyrlunum þar sem oftast er þröngt um vik og erfitt að athafna sig. Þau eru frá aðila sem vill ekki láta nafn síns getið. Honum eru færðar bestu þakkir fyrir þessa höfðinglegu gjöf.


Boðið var til vöfflukaffis í flugskýli Landhelgisgæslunnar af þessu tilefni og um leið var Felix Valsson, einn reyndasti þyrlulæknir okkar kvaddur, en hann hverfur nú til annarra starfa. Felix hóf störf fyrir Landhelgisgæsluna árið 1986, eða sama ár og læknar urðu hluti af áhöfn björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar. Felix rifjaði upp í stuttu ávarpi í morgun að í fyrstu hefðu þetta verið nokkrir unglæknar „í hvítum kuldaúlpum“ eins og hann orðaði það. 


Að ávarpinu loknu sýndi Felix viðstöddum hvernig nýja tækið væri notað. Landhelgisgæslan þakkar Felix fyrir frábært samstarf í gegnum árin og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.