Há sjávarstaða næstu daga

Í dag er fullt tungl og því stórstreymt seinni hluta vikunnar. Í Reykjavík gefa útreiknaðar sjávarfallaspár t.a.m. til kynna að flóðhæð verði 4,5 metrar á morgunflóði 15. og 16. desember. Veðurspár gera ráð fyrir frekar stífum suðlægum vindi sunnan og vestan til á landinu og fremur lágum loftþrýsting næstu daga. Landhelgisgæslan vekur því athygli á að sjávarstaða gæti orðið hærri en sjávarfallaspár gefa til kynna.