Langveik börn í þyrluflug með Landhelgisgæslunni

Undanfarnar vikur hefur Landhelgisgæslan boðið langveikum börnum að koma með í æfingaflug á þyrlum Landhelgisgæslunnar og um leið upplifa eitthvað öðruvísi og skemmtilegt. Er þetta hluti af afar gefandi samfélagsverkefni sem Landhelgisgæslan ákvað að efna til og þannig fagna 90 ára afmælisári Landhelgisgæslunnar. Leitaði Landhelgisgæslan samstarfs við Landspítala sem strax sló til og hefur reynst ómetanlegur þáttur í verkefninu.

Með þessu vill Landhelgisgæslan láta gott af sér leiða með einhverjum hætti og um leið þakka íslensku þjóðinni traustið í gegnum árin. Hefur verkefnið glatt fjölda langveikra barna en ekki síður starfsmenn Landhelgisgæslunnar. Það gefur meira en orð fá lýst að sjá glaðbeitt andlit krakkanna eftir ævintýralegt þyrluflug með okkar frábæru þyrluáhöfnum sem hafa sýnt krökkunum landið okkar og hvernig áhafnirnar vinna þegar aðstoðar þeirra er þörf. Því hefur verið ákveðið að framhald verði á þessu verkefni á nýju ári og hlökkum við hjá Landhelgisgæslunni svo sannarlega til.  

Landhelgisgæslan þakkar Landspítala fyrir að taka þátt í verkefninu með okkur. Þá þakkar Landhelgisgæslan sérstaklega öllum þeim krökkum sem hafa komið ásamt fjölskyldum sínum og vinum í heimsókn. Í þakkarskyni hefur Landhelgisgæslan ákveðið að senda ekki jólakort til samstarfsaðila þetta árið en gefa þess í stað andvirði þeirra til Umhyggju, félags langveikra barna með bestu óskum um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.

Hér má sjá frétt og myndband Landspítala frá einni heimsókninni sem sýnir hversu ótrúlega skemmtilegt og gefandi verkefnið hefur verið en þar er einnig hægt að sjá myndband frá heimsókn notenda geðsviðs Landspítala um borð í varðskipið Þór.

http://www.landspitali.is/um-landspitala/frettir-og-vidburdir/frett/2016/12/02/Forstjorapistill-/