Loftrýmisgæslu NATO lokið að sinni

Bandaríska flugsveitin fór frá Íslandi fyrir helgi

Loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins við Ísland þetta árið lauk síðastliðinn föstudag þegar flugsveit bandaríska flughersins sneri aftur til síns heima. Alls tóku rúmlega 200 liðsmenn í verkefninu, auk starfsfólks frá stjórnstöð NATO í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center). Sex F-15C orrustuþotur, ásamt eldsneytisbirgðaflugvélum, komu með flugsveitinni. Verkefnið, sem hófst í ágústlok, var venju samkvæmt framkvæmt af Landhelgisgæslu Íslands á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli í samvinnu við Isavia.


Þoturnar fóru frá Íslandi á föstudag. Mynd: Landhelgisgæslan.

Af þessu tilefni var efnt til kveðjuhófs á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku sem meðlimir flugsveitarinnar og hérlendir samstarfsaðilar hennar sóttu, þar á meðal starfsfólk Landhelgisgæslunnar. Boðið var upp á veitingar og skipst var á gjöfum.


George Downs, undirofursti og yfirmaður flugsveitarinnar, afhenti Jóni B. Guðnasyni, yfirmanni LHG á Keflavíkurflugvelli, merki sveitarinnar og mynd af F15-orrustuþotu. Mynd: Landhelgisgæslan.

Líkt og undanfarin ár bauð sendiráð Bandaríkjanna, í samstarfi við flugsveit bandaríska flughersins, Barnaspítala Hringsins og Landhelgisgæslunnar langveikum börnum í heimsókn á öryggissvæðið fyrr í þessum mánuði. Börnin fengu að eyða deginum með bandarísku flugsveitinni og vera „flugmaður í einn dag“. Á meðal þess sem þeim gafst kostur á að gera var að setjast í flugmannssæti F-15 orrustuþotu og KC-135 eldsneytisflugvélar og prófa nætursjónauka, hjálma, fatnað og annan búnað. Viðburðurinn þótti heppnast prýðilega og allir skemmtu sér vel, bæði ungir og aldnir.



Myndir: Landhelgisgæslan.