Nánast eitt útkall á dag

Óhætt er að segja að miklar annir hafi sett svip sinn á starfsemi flugdeildar Landhelgisgæslunnar á þessum fyrstu vikum ársins 2018. Þann 21. janúar höfðu þyrlur LHG verið kallaðar út í tuttugu skipti, næstum því einu sinni á dag. Tuttugasta útkallið var þann dag en þá flutti TF-SYN konu á sjúkrahús sem slasaðist í bílveltu á Lyngdalsheiði.

Til samanburðar þá voru þyrluútköllin orðin tólf þann 21. janúar í fyrra, sama dag árið 2016 voru útköllin orðin átta og 2015 voru þau fimm. Á þessum þremur árum hafa því útköllin á fyrstu þremur vikum ársins fjórfaldast. 

Fleiri útköll en áætlanir gera ráð fyrir þýða meðal annars að minni tími gefst til að sinna eftirliti, löggæslu og þjálfun áhafna.

Útköllum hjá flugdeild Landhelgisgæslunnar hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum. Í fyrra voru þau 257, fleiri en dæmi eru um á einu ári. Árið 2016 voru útköllin 251 sem var líka met. Miðað við annirnar á þessum fyrstu þremur vikum ársins gæti stefnt í enn eitt metárið. 

Mynd: Árni Sæberg