Landhelgisgæslan og danski sjóherinn í sameiginlegum æfingum

  • Vaedderen_16012008_Flugdeild_1

Fimmtudagur 17. janúar 2008

Undanfarna daga hafa starfsmenn Landhelgisgæslunnar og áhöfn danska varðskipsins Vædderen verið við sameiginlegar æfingar hér við land. Þessar æfingar eru nú haldnar á grundvelli samkomulags sem dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason og Sören Gade, varnarmálaráðherra Dana gerðu á liðnu ári.

Tveir yfirmenn voru við æfingar um borð í Vædderen í síðastliðinni viku, þar sem þeir kynntu sér einnig tæki og búnað um borð. Þar tóku þeir þátt fjölda æfinga, meðal annars í því að fylgjast með og stjórna ferðum þyrlu með hjálp radars, neyðarviðbrögð þegar þyrla á í hlut, aðstoð við önnur skip, viðbrögð við eldi um borð í skipi, reykköfun og fleira.

Þriðjudaginn 15. jan. s.l. var svo haldin samæfing milli eininga Landhelgisgæslunnar og danska varðskipsins Vædderen.

Varðskipið Týr tók þátt í æfingunni í neyðarframkvæmd, þ.e. settur var á svið eldsvoði á afturskipi Týs þar sem tveggja manna var saknað.
Æfingin hófst á því að stjórnstöð Landhelgisgæslunnar óskaði eftir aðstoð Vædderen þar sem eldur hefði komið upp í Tý. Vædderen hélt þá þegar á (æfinga) slysstað og á leiðinni sendu þeir þyrlu frá skipinu með fimm manna neyðarteymi ásamt búnaði sem var slakað niður á stefni Týs.
Neyðarteymi skipanna skutu á samráðsfundi og fóru yfir teikningar og aðstæður á vettvangi. Neyðarteymi beggja skipa reykköfuðu um afturskipið og fundu báða mennina, þá kom þyrla á ný með lækni sem hlúði að mönnunum og var annar þeirra fluttur ásamt lækninum með þyrlunni yfir í Vædderen til frekari aðhlynningar. Það vakti athygli Týs-manna hvað danska neyðarteyminu gekk vel að finna hina nauðstöddu. En þeir höfðu meðferðis svokallaða „infra-rauða“ hitamyndavél sem greinir hitamismun og gerði þeim kleift að sjá hina nauðstöddu í myrkri og reykjarkófi.

Meðfylgjandi myndir voru teknar við æfingarnar.

Vaedderen_12012008_Marvin_Martin_1
Marvin Ingólfsson, Ulf M. Berthelsen skipherra Vaedderen
og Martin Sövang Ditlevsen við skipið (mynd: Marvin Ingólfsson)

Vaedderen_12012008_Marvin_Martin_2
Gert klárt fyrir aðstoð í annað skip frá Vaedderen  (mynd: Marvin Ingólfsson)

Vaedderen_12012008_Marvin_Martin_3
Marvin Ingólfsson fylgist með ferðum þyrlu í radar (mynd: Marvin Ingólfsson)

Vaedderen_12012008_Tyr_1
Neyðarteymi Vaedderen fer yfir teikningar af Vs Tý (mynd: áhöfn Vs Tý)

Vaedderen_12012008_Tyr_3
Taug komið frá Vs Tý yfir í Vædderen (mynd: ahöfn Vs Tý)

Vaedderen_12012008_Tyr_2
Jón Árni Árnason bátsmaður og Pálmi Jónsson 2. stýrimaður ánægðir
með árangurin (mynd: áhöfn Vs. Tý)

Vaedderen_16012008_Flugdeild_1
TF-GNA og Lynx þyrla danska sjóhersins á æfingu yfir Vædderen
(mynd: Flugdeild LHG)

Æfingar, með dönsku eftirlitsskipunum, sem þessar hafa af og til verið haldnar með góðum árangri og styrkja þær samvinnu viðkomandi á Norður-Atlantshafi.

17.01.2008 SRS