Landhelgisgæsluáætlun 2008 - 2010 kynnt

  • LHG_aaetl_kynning_Plagg_060508

Þriðjudagur 6.maí 2008

Í dag var Landhelgisgæsluáætlun fyrir árin 2008 – 2010 kynnt á fundi sem haldinn var í flugskýli Landhelgisgæslunnar við Reykjavíkurflugvöll. Áætlunin fjallar ítarlega um markmið og áherslur í starfsemi Landhelgisgæslunnar næstu þrjú árin. Farið var yfir áætlunina, breytingar á starfsumhverfi Landhelgisgæslunnar og breyttar áherslur í kjölfar þeirra.

Tækjakostur Landhelgisgæslunnar mun aukast til muna á tímabilinu, þar sem von er á nýju fjölnota varðskipi í september 2009 og nýrri sérútbúinni eftirlitsflugvél sumarið 2009. Ljóst er að Landhelgisgæslan verður mun betur í stakk búin til að sinna hlutverki sínu, hvort sem horft er til gæslu landhelginnar, leitar og björgunar, mengunarvarna eða viðbrögðum við hryðjuverkaógn. Þá tekur áætlunin á því hvernig nýta megi fjareftirlitskerfi enn frekar til að afla vitneskju um skipaumferð innan efnahagslögsögunnar og þannig gera eftirlitið markvissara. 

Með Landhelgisgæsluáætlun fyrir árin 2008 – 2010 er lagður grunnur að öflugri starfsemi Landhelgisgæslu Íslands næstu ár í samræmi við nýjar kröfur.  Samhliða því sem tækjakostur Landhelgisgæslunnar tekur stakkaskiptum er nauðsynlegt að móta stefnu um skynsamlega og markvissa nýtingu þessara tækja í höndum vel þjálfaðra starfsmanna og tryggja nægjanlegt fjármagn með samþykki fjárveitingavaldsins.

Landhelgisgæsluáætlun 2008 - 2010 er hægt að nálgast hér (á .pdf formi)

Fundinn sátu einnig fulltrúar sænsku strandgæslunnar sem hér eru í boði Landhelgisgæslunnar.  Þeir eru hingað komnir með nýrri Dash-8 Q300 eftirlitsflugvél sænsku strandgæslunnar sem er af sömu gerð og búin samskonar tækjabúnaði og væntanleg eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar.  Var sænska vélin til sýnis á fundinum.

LHG_aaetl_kynning_GLar_060508
Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar býður gesti velkomna.
LHG_aaetl_kynning_BjornB__TF_LIF_060508
Dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, kynnir áætlunina.
LHG_aaetl_kynning_AudunnKr_060508
Auðunn Kristinsson fer yfir efni áætlunarinnar.
LHG_aaetl_kynning_gestir_060508
Sænskir gestir og íslenskir kollegar.
LHG_aaetl_kynning_gestir3_060508
Kynning á áætluninni
LHG_aaetl_kynning_gestir4_060508
Geirþrúður Alfreðsdóttir flugrekstrarstjóri ræðir flugvélamál við gestina.
Saensk_Dash8_a_flugi_050508
Dash-8 Q300 flugvél sænsku strandgæslunnar.
Saensk_Dash8_lent_050508
Dash-8 Q300 vélin lent á Reykjavíkurflugvelli.
Saensk_Dash8_lent_Bjorn_mottaka_050508
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra býður áhöfn vélarinnar velkomna.

Myndir: Sigríður Ragna Sverrisdóttir
06.05.2008 SRS