90 ár liðin frá því loftskeytastöðin í Reykjavík tók til starfa

  • Loftskeytast_Melar

Þriðjudagur 17.júní 2008

Í dag eru 90 ár liðin frá því að loftskeytastöðin í Reykjavík, Reykjavík Radíó var opnuð til almenningsnota. Þessi starfsemi er nú rekin af Landhelgisgæslunni, sem Vaktstöð siglinga, og má því segja að það sé elsta starfandi eining Landhelgisgæslunnar.

Loftskeytast_Melar
Loftskeytastöðin á Melunum

Upphaflega var loftskeytastöðin hugsuð sem varasamband til útlanda, ef sæsíminn brygðist en fljótlega varð aðalhlutverk hennar þjónusta við skip og báta, enda var hún bylting í öryggismálum sjómanna. Friðbjörn Aðalsteinsson var fyrsti forstjóri loftskeytastöðvarinnar, en hann hafði numið loftskeytafræði hjá Bergen radio í Noregi. Uppúr því voru loftskeytamenn almennt ráðnir til starfa á íslenskum skipum.

Loftskeytast_Fridbjorn_Adalsteinss_1918
Friðbjörn Aðalsteinsson við fjarskiptatækin í Reykjavík Radíó um 1918

Í framhaldinu var strandastöðvum komið upp í kringum landið og Loftskeytastöðin í Gufunesi tók til starfa árið 1935. Á árunum 2004-2005 var svörun fyrir strandastöðvarnar flutt til Vaktstöðvar siglinga, í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð 14. Í dag svara því starfsmenn Landhelgisgæslunnar – Vaktstöðvar siglinga fyrir allar fjarskiptastöðvar landsins, hvað varðar fjarskipti á sjó.

LHG_Vaktstod_siglinga_16062008
Úr stjórnstöð Landhelgisgæslunnar – Vaktstöð siglinga.
Frá vinstri: Harald Holsvik og Bergþór Atlason varðstjórar (Mynd: SRS)

Heimild og eldri myndir: Loftskeytamenn og fjarskiptin. Ritstjóri Ólafur K. Björnsson, 1987. Aðrar heimilir: starfsmenn Vaktstöðvar siglinga.

17.06.2008 SRS